Að læra til læknis

Ef ég væri 19 ára í dag, stæði frammi fyrir vali á langskólanámi og hefði snefil af áhuga á raunvísindum myndi ég ekki hika við að velja læknisfræði. Í fyrsta lagi bjarga læknar lífum og eru gríðarlegar mikilvæg starfsstétt. Það er auðvitað aðalatriðið. Þótt ég hafi unnið við að auka hagvöxtinn í eina tíð og stundum síðar er áreiðanlega ekkert sem jafnast á við að hafa tifandi hjarta í lúkunum og tryggja tifið áfram eða ná að glæða fólk lífi og lífsvon með öðrum hætti. Í öðru lagi er núna búið að pönkast svo mikið á læknum - sem fá held ég lítt skilyrta samúð og aðdáun frá okkur pöbulnum - að nú hlýtur að verða samið svo almennilega við þá að stéttin getur vel við unað til áratuga. Kjarabarátta er aldrei sársaukalaus og oft(ast) bitnar hún á þriðja aðila sem hefur ekkert til þess unnið - en öðruvísi komast skilaboðin ekki til skila. 

Ég þekki ekki marga lækna. Allir þrír læknarnir sem ég þykist þekkja búa núna að hálfu eða öllu leyti í Svíþjóð, drógu sig þegjandi og hljóðalaust til hlés hér og fóru utan. Ísland er ekki alfa og omega allra Íslendinga.

Römm er sú taug

er rekka dregur

föðurtúna til

... á bara ekki við allt og alla öllum stundum.

Læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn eru afar mikilvægir og obbi landsmanna áttar sig á því. En ég er ekki lengur 19 og ég held því miður að efna- og vefjafræði sé álegg þannig að ég kem ekki til greina. Ég vona bara að hin gæfulega kynslóð sem er nú á þröskuldi framtíðarinnar láti ekki hina hörðu deilu síðustu vikna fæla sig frá þessu fagi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband