Halla og harðlífið á heiðinni

Ég er nýbúin að sjá Sjálfstætt fólk á sviði. Varð hrifin. Það er töluvert síðan ég las bók Halldórs Laxness og gæti vel hugsað mér að gera það fljótlega aftur. Ég er hins vegar ekki týpan til að lesa sömu bókina á hverju ári en öfunda þá sem eiga þvílíkar uppáhaldsbækur að þeir verða að lesa þær aftur og aftur. Ég sótti mér Höllu og heiðarbýlið eftir Jón Trausta í kjölfarið á ferðinni í leikhúsið af því að sögusviðið er ekki ósvipað. Ég er líka nýbúin að lesa Önnu frá Stóruborg sem mér finnst hrífandi saga. Forðum daga las ég Leysingu og varð mjög hrifin. Nú er svo langt um liðið að ég man ekki gjörla eftir henni en mig minnir að hún hafi verið um kaupmann í litlu sjávarþorpi og auðvitað allt í kringum hann, breið mannlífssaga sem spannaði einhverja áratugi og nokkrar kynslóðir. Ég man eftir að minnsta kosti einni vinkonu minni sem hataðist við Leysingu og fannst hún óhemjuleiðinleg. En ekki mér.

Mér fannst líka Dalalíf átakanleg saga og varð næstum sorgmædd þegar ég kláraði hana. Þá var Ljósa ekkert slor þótt hún væri ákaflega stutt og fljótlesin.

Ég veit ekki hvort mér er óhætt að draga þá ályktun að ég vilji lesa um lífið í torfbæjunum eða sögur sem spanna margar kynslóðir en veit þó það að þessar bækur eiga það sammerkt að vera um raunverulegt líf; líf þar sem skiptast á skin og skúrir, menn lifa ekki hremmingar af, renna sér ekki berhentir niður grannan vír ...

Ég er farin út um víðan völl og greinilega byrjuð að hugsa um Bond-myndir. Ég er ekki sérlega mikil tilfinningavera en lífsbarátta Höllu sem elur af sér þrjú börn sem farnast misjafnlega, tekur niðursetninginn Sölku undir sinn verndarvæng, býr við kröpp kjör og ástlaust hjónaband, veikburða drauma, sult og seyru en líka djörfung og lífsvilja snertir kvikuna í mér. Svo er Jón Trausti með svo stórskemmtilegar mannlýsingar eins og tíðkast í fornsögunum.

Svei mér ef Jón Trausti er ekki bara að komast á meðmælalistann minn. Og hann varð bara 45 ára!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband