,,Skiluru"

Það er svo mismunandi hvað fer í taugarnar á okkur. Ég held að við hljótum öll (flest?) að geta verið sammála um að ofnotkun orða er hvimleið. Ef menn segja „auðvitað“ í hverri einustu setningu eða „einmitt“ eða „kannski“ eða „þú'st“ hætta þau að merkja nokkuð. Þetta eru allt hikorð þótt það séu ekki orðin „sko“ eða „hérna“ sem eru líka algeng hikorð. Þegar þau eru endurtekin í sífellu hætta þau að hafa merkingu.

Ég sat fyrirlestur um hamingju nýlega og fyrirlesarinn sagði 40 sinnum „skiljið þið“ í lok setningarinnar. Einhverra hluta vegna truflaði það mig ekki en sessunautur minn tapaði sér yfir þessu og hakaði við í hvert skipti. Fyrirlesarar sem koma undirbúnir verða líka að passa sig sérstaklega vel. Svo spáði hann í sífellu „í þessu“ sem telst enn rangt mál, en það sem mér fannst óþægilegast var að hann notaði eignarfornöfn ótæpilega. Hann sagði að fólki liði svona og hinsegin í hjónabandinu „sínu“ (ekki hans samt), gott ef hann sagði ekki að einhver hefði stokkið upp á nefið sitt (ég er vön því að tala um að einhver stökkvi upp á nef sér) og bitið i handarbakið sitt. Það er erfitt að útskýra þessa meinloku sem mér finnst þetta vera ef fólk hefur ekki hnotið um það sjálft. Ofnotkun eignarfornafna er ekki farin að fara í taugarnar á mér en ég sé að það gæti gerst á komandi árum.

Ofnotkun orðsins „snillingur“ er hins vegar slík að ég get ekki lækað skemmtilegar myndir ef í myndatextanum stendur að „þessi snillingur“ sé orðinn eins árs. Snillingur? Það er eins og var með „einelti“ fyrir nokkrum árum, ef allt sem mönnum er ami að er kallað einelti falla alvöruþolendur í skuggann með alvöruvandamálin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband