Hvenær drepur maður mann og hvenær elskar maður bara mann?

Margt hafa menn skrafað um Náðarstund en mest hefur mér heyrst á einn veg, ánægjan er almenn. Og að vonum. Agnesi er lyft upp og henni fenginn sess fórnarlambsins að sumu leyti, fórnarlambs ástar sinnar á Natani. Um Agnesi var gerð bíómynd árið 1995, fyrir 20 árum, sem sjálfsagt byggði mikið á heimildum eins og Náðarstund Hönnuh Kent en þó veit auðvitað enginn hvernig allt var í pottinn búið. Enginn er til frásagnar en á 19. öld skröfuðu menn engu síður en á þeirri 21.

Hvenær drepur maður mann og hvenær elskar maður bara mann?

Ég hef heyrt af hestamanni sem las bókina og fannst fyrir neðan allar hellur hvernig talað var um hestamennsku. Ekki hef ég það vit og ég man varla eftir hestum í bókinni. Hins vegar bjóst ég við betri textafrágangi, svo mikið hafði bókin verið mærð, og þar sem ég er prófarkalesari að atvinnu fullyrði ég að bókin hefði batnað við einn yfirlestur til viðbótar. Smáatriði finnst mörgum en oft vantaði nafnháttarmerki og kommusetning var á skjön við máltilfinningu mína og skólalærdóm.

Aðalatriðið er samt að sjónarhornið er forvitnilegt. Við skyggnumst inn í hugarheim Agnesar og sjáum hvernig hún hefst við á Kornsá þar sem hún „bíður“ aftökustundarinnar. Heimilismenn laga sig að „sakamanninum“ og smitast af örlögum hennar og eins konar æðruleysi þótt hún reyni vissulega að losna af höggstokknum - fyrirfram.

Ef morð er glæpur - sem ég deili svo sem ekki um - er þá ekki líka glæpur að lífláta hinn seka? Ef morð er glæpur gegn guði, hvað segir hann þá um það þegar hinn seki fær sömu útreið?

Já, nei, örlög Agnesar lifa en ég er þrátt fyrir allt ekki eins hrifin af bókinni og hitt fólkið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband