Facebook-reglur

Ég veit að í dag er sumardagurinn fyrsti og allir að velta fyrir sér hvort árstíðirnar hafi frosið saman. Samt er ég að velta fyrir mér reglum um myndbirtingar á netinu, einkum Facebook. Ég á litla myndavél en hef alltaf tekið og tek enn margar myndir. Alltaf þegar ég fer með gönguhópnum mínum á fjöll eða geng gamlar þjóðleiðir, alltaf þegar ég fer eitthvað með hlaupahópnum mínum, alltaf þegar einhverjir hópar sem ég tilheyri gera eitthvað dreg ég upp myndavélina. Ég á litla myndavél sem ég nenni alltaf að hafa með mér og gæðin eru ágæt en ekkert í líkingu við þau bestu. Og mér finnst bara skemmtilegt þegar fólk sýnir myndunum mínum áhuga (yfirleitt myndefninu) en í síðustu viku lenti ég í því að maður sem ég þekki lítið tók mynd sem ég hafði tekið af honum og setti á Facebook-vegginn sinn án þess að láta þess getið að hún væri fengin frá öðrum.

Já, hún er af honum og já, hún er ekkert meistaraverk og já, ég gæti talað um þetta við hann og já, ég mun ekki oftar taka mynd af honum (þótt ég hafi ekkert sagt við hann) en ég er bara að velta fyrir mér fræðilega hvað fólki finnst eðlilegt. Ég merki ekki myndirnar mínar með nafni eins og sumir gera en þegar myndum er deilt á Facebook eða fólk einfaldlega merkir sig þannig að myndin birtist hjá því sést hvaðan myndin kemur. 

Þetta finnst mér svo sjálfsagt og þegar ég hef tekið mynd frá öðrum og gert að opnumynd hjá mér segi ég hver tók hana. Þegar ég bið hins vegar einhvern að taka mynd af mér á mína myndavél og nota hana í myndasögu úr einhverri ferð finnst mér óþarfi að tíunda hver tók myndina fyrir mig. Ég vel myndefnið, staðinn og stellinguna. En kannski ætti ég að gera það. Eða er „reglan“ bara sú að myndir sem settar hafa verið á netið séu sameign allra sem horfa á þær?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband