Kröfugerð í prósentum er út í hött

Nú er búið að vísa kjaraviðræðum Félags leiðsögumanna við viðsemjendur, Samtök atvinnulífsins, til ríkissáttasemjara. Ég hef verið í þessum sporum og ég veit satt að segja ekki hvað þarf til að opna augu ferðaskrifstofa.

Það er ætlast til þess að leiðsögumenn viti margt, geti komið því frá sér á erlendu tungumáli, stundum tungumálum, umgangist náttúruna af varúð og leiðbeint misgæfusömum túristunum, séu ávallt í góðu skapi, séu löngum stundum að heiman og taki sér launalaust frí til að fara til læknis. Atvinnuöryggið er ekkert, réttindi sáralítil og fyrir heilan mánuð af svona starfskrafti eru núna borguð 270.000 í efsta flokki samkvæmt taxta. Við leiðsögumenn vitum mætavel að taxtarnir eru bara gólfið, við megum semja um hærri laun, en stóru ferðaskrifstofurnar vilja ekki borga meira.

Og vitið þið hvað?

Þær segjast hafa gert ráð fyrir þessum (lágu) launum í tilboði til erlendu kúnnanna og að hækkun á launum setji skipulagið á hliðina - en ef samið verði um hærri laun hækki þau auðvitað til okkar. Ha, er þá allt í einu svigrúm?

Í fyrra var samið um skitin 3% með bókun um að mun meiri launakrafa yrði gerð í ár. Ég held að fyrirtæki sem ekki geta hækkað laun leiðsögumanns talsvert séu einfaldlega illa rekin.

270.000 * 50% = 405.000 og þá er samt ekki gert ráð fyrir orlofi, veikindarétti eða starfsöryggi. Ég er kannski heppin að þurfa ekki að vinna við þetta og líka heppin að hafa unnið fyrir þessu skítakaupi í nokkur sumur meðan ég hafði gaman af starfinu. En þessi laun eru ekki boðleg og ég vona að stéttvitundin verði meiri og leiðsögumenn láti hart mæta hörðu. Sjálf er ég búin að vera í eins manns verkfalli í tæp tvö ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband