Ákefð og ástríða Árnastofnunar

Í morgun var árviss ársfundur Árnastofnunar. Að vanda ávörpuðu fundinn formaður stjórnar og forstöðumaður. Ég man ekki hvenær Þorsteinn Pálsson tók við formennskunni en Guðrún Nordal er búin að vera þarna í nokkuð mörg ár og geislar ævinlega af áhuga og metnaði. Það einkenndi þau bæði núna líka.

Það er vilji til að bretta upp ermar en áformum og góðum hug verður líka að fylgja fé. Ég kýs að trúa að hola íslenskra fræða verði orðin full af handritum 2018.

Svo voru nokkrir stuttir fyrirlestrar um íðorðanefndir, stöðu tungumálsins í tölvuheiminum, þýðingar og máltækni. Tæknin var til fyrirmyndar - já, mér finnst ástæða til að taka það fram - þannig að enginn dýrmætur tími fór í bið. Hver frábæri fyrirlesarinn á fætur öðrum kom í réttri röð í pontu og þau öll - öll, ítreka það - höfðu mikið fram að færa, ekki allt alveg glænýtt fyrir áhugasama en sannarlega forvitnilegt og uppörvandi.

Þessir ársfundir eru mitt helsta haldreipi þegar ég fæ efasemdir um að íslenskan lifi tölvuöldina af. Í maí er ég aldrei efins.

Ekki bíll. Nei, talgreinir!

Það er undurgaman að heyra fólk tala af áhuga, umhyggju og ástríðu um vinnuna sína. Áhugi er svo mikill hvati. Er það forstöðumaðurinn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband