Verkföllin bitna ekki á mér

Ég er að meina þetta. Nákvæmlega núna þarf ég enga læknisþjónustu og get verið án kjúklingakjöts. Sumar stéttir eru búnar að vera í verkföllum í margar vikur án þess að ná saman með viðsemjendum sínum. Og fleiri stéttir hafa boðað verkföll sem hefjast um mánaðamótin. Þá verður búðum lokað og landinu kannski líka og ég get þakkað fyrir að hafa hvergi bókað mig sem leiðsögumaður því að ferðum verður ef til vill aflýst og þá fær leiðsögumaður engin laun vegna „force majeure“, svokallaðra óviðráðanlegra orsaka.

Þegar Eyjafjallajökull gaus fyrir rúmum fimm árum hættu nokkrir hópar við að koma til landsins, vantreystu því að þeir kæmust hingað og enn meira að þeir kæmust í burtu. Náttúruöflin eru óútreiknanleg en eru ónáttúruöflin eitthvað fyrirsegjanlegri?

Ég get verið ábyrgðarlaus, er ekki atvinnurekandi og get kannski trútt um talað, en er ekki kominn tími til að bretta upp ermar, moka flórinn – og semja? Undarlegt að menn skuli alltaf vilja setjast niður ... í stað þess að láta verkin tala. Hvað með 

a) þjóðarsátt?

b) hækkaðan persónuafslátt?

c) hámarksbil milli lægstu og hæstu launa?

Ég tek svo stórt upp í mig að segja að fyrirtæki sem ráða ekki við að borga starfsfólki sínu meira en lögbundin lágmarkslaun hafa tæpast rekstrargrundvöll. En er það vegna þess að þau borga „eigendum“ sínum of mikinn arð eða kunna einfaldlega illa á fyrirtækjarekstur? Við borðum öll daglega þannig að við kaupum í matinn og ég ætla ekki að telja upp allt það sem augljós eftirspurn er eftir vegna reglulegrar notkunar fólks. Ef við borgum sanngjarnt (og að sumra mati of hátt) verð fyrir vöru og þjónustu á að vera hægt að láta þá sem veita vöru og þjónustu fá eðlileg og sanngjörn laun fyrir vinnuna. Er það ekki?

Hefur græðgi eitthvað að segja í þessu samhengi? Níska? Eða eru heilu stéttirnar óalandi og óferjandi? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband