Við eftir David Nicholls #einskonarritdómur

Lífefnafræðingurinn Douglas Petersen er litlaus sögupersóna, tilþrifalítill eiginmaður, ferkantaður faðir og vel látinn vísindamaður sem fær sífellt meiri ábyrgð og virðingu í starfi. Sagan byrjar þar sem dæmigerðustu ástarsögur enda, þegar hann og hún hafa náð saman og ganga í hjónabandið. Frá upphafi er Douglas vantrúaður á gæfu sína. Hann veit að hann er óminnisstæður, laus við sjálfsprottna fyndni, mjög vanafastur, algjörlega laus við hvatvísi og ekki finnst honum útlit sitt upp á marga fiska. En Connie sér eitthvað og hjúskaparboltinn byrjar að rúlla.

Bókin er 414 síður. Fyrstu 100 eru ágætlega áhugaverð kynning, svo kemur góður slatti sem var að ganga frá mér af leiðindum en síðustu 100 blaðsíðurnar eða svo bættu alveg fyrir leiðindin í miðkaflanum. Ég er ekki í raun að segja að höfundur hafi verið of margmáll, Douglas Petersen er bara svo víðáttuleiðinlegu þangað til hann setur sig í fluggír og leggur allt undir til að sættast við 17 ára uppivöðslusaman son sinn og halda Connie hjá sér.

Tekst það? 

Það var æsispennandi söguþráður, og sögulokin komu mér á óvart. Eða ekki.

Ég ætla ekki að hafa nein orð um þýðinguna, ég skil bara ekki af hverju ekki stendur á saurblaði hvað bókin heitir á ensku. Þar stendur Við. Við vitum alveg að hún heitir Us á frummálinu. Vantar ekki bara betri prófarkalestur hjá Bjarti?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband