Hlaupastyrkur eða hlaupaáheit

Nú þarf ég að stíga varlega til jarðar. Eftir rúma viku er árvisst Reykjavíkurmaraþon, dásamlegur viðburður sem ég hlakka til á hverju ári. Ég hef tekið þátt síðan 1985 þegar RM byrjaði, skokkaði í skemmtiskokkinu, 7 km, meðan það bauðst og uppfærði mig svo í 10 km þegar 7 km buðust ekki lengur. Alltaf án æfingar.

Síðustu árin hefur RM verið vettvangur ýmiss konar söfnunar. Flestar safnanirnar eru góðra gjalda verðar, margir eru verðugir -- en almáttugur, alltof margir þykjast vera að hlaupa í nafni góðgjörðarsamtaka. Ef fólki er alvara með að vilja láta gott af sér leiða á það að leyfa einhverjum einum að safna fyrir tiltekinn félagsskap og styrkja hann en ekki dreifa þessu út um allt.

Í fyrra strengdi ég þess heit að styrkja engan en á endanum lét ég undan og lagði inn hjá nokkrum af því að þetta verður svo persónulegt, fólk verður leitt yfir að safna engu eða mjög litlu. Keppendur auglýsa styrksíðurnar sínar á Facebook og vinir þeirra læka í gríð og erg -- og leggja svo ekki inn. Hvað er það? Eru einhver gæði fólgin í að smella læki á að einhver sé að safna, þ.e. reyna að safna? Ef ég læka legg ég líka inn og það finnst mér að eigi að vera reglan.

En það sem mér gremst umfram allt er að þetta sé kallað áheit. Þetta eru ekki áheit, þetta eru styrkir og svo sem gott með það. Ef þetta væru áheit myndi maður geyma peninginn þangað til fólk hefði sannanlega farið vegalengdina. Þá væri maður að heita á keppendur að þeir kæmust á leiðarenda. 

Hvernig er annars með Strandarkirkju sem fær fúlgur fjár í áheit á hverju ári? Heitir ekki fólk á hana og ef það fær bata, endurheimtir ástvin eða hvað það er sem það helst óskar sér borgar það upphæðina sem það hét á kirkjuna?

Annars hlakka ég bara til að hlaupa mitt hálfa maraþon 22. ágúst og heiti á veðurguðina að tryggja mér gott hlaupaveður og láta hnéð duga í tilskilinn tíma. Þá skal ég ekki nöldra neitt 23. ágúst ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband