Nauthólsvík - borga eða ekki?

Í fyrrasumar byrjaði ég að stunda sjósund, þ.e. ég fór í Nauthólsvíkina flesta þá daga sem ég var í bænum, synti í 10 mínútur og fór í stóra pottinn. Það var undir hælinn lagt hversu lengi ég staldraði við, stundum var ég í nokkrar mínútur en stundum meira en klukkutíma, fór eftir þeim tíma sem ég hafði, veðri og félagsskap. Og nú skal viðurkennt að ég hef sáralitlu eytt á staðnum sem kemur til af þeirri einföldu ástæðu að ég kem alltaf hjólandi og vel að taka engin verðmæti með mér af því að maður getur ekkert læst inni. Búningsklefarnir eru frumstæðir, engir skápar, varla ylur þar inni og ég dríf mig bara upp úr, í sturtu, í fötin, út og hjóla heim.

Nú eru uppi hugmyndir um að fara að rukka fyrir aðstöðuna.

Í fundargerð ÍTR frá 21. ágúst segir:

2. Lögð fram að nýju svofelld tillaga meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata vegna Nauthólsvíkur:
 
Íþrótta- og tómstundaráð felur sviðsstjóra að útbúa hugmyndir um gjaldtöku við Nauthólsvík allan ársins hring. Tillögur verði lagðar fyrir ráðið.
Greinargerð.
Reykjavíkurborg greiðir þjónustu við Nauthólsvík svo sem búningsklefa, heitan pott og gufu og starfsmenn allan ársins hring. Eðlilegt er að iðkendur greiði fyrir þá þjónustu sem þar er veitt.
 
Samþykkt samhljóða.
 
Tilfinningar mínar eru beggja blands. Fyrir örfáum árum var ekki heldur rukkað inn í búningsklefana á veturna. Sumir urðu dálítið foj þegar byrjað var á því. Í mínum augum er þetta þó fyrst og fremst undir þjónustunni komið. Ef ég get læst dótið inni er það aukin þjónusta sem er eðlilegt að rukka fyrir. Ef sturturnar verða alltaf ásættanlega heitar finnst mér sömuleiðis sjálfsagt að rukka. Í hálfan mánuði í sumar voru þær hrollkaldar. Ef búningsklefinn er upphitaður er það kostnaður sem er eðlilegt að fá til baka í formi aðgangseyris. Þegar eitthvað hefur verið ókeypis er erfitt að byrja að rukka fyrir það og þá þarf að auka þjónustuna.
 
Sumir kunna kannski vel við það hve frumstæð aðstaðan er en ég get vel sætt mig við aukna þjónustu og eitthvert gjald fyrir hana.
 
En tillaga meiri hlutans er nú lögð fram öðru sinni. Hvað gerðist í hið fyrra sinn?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Á vefnum Betri Reykjavík er gjaldtökuhugmyndin rökstudd með því að gjaldtaka stýrði aðgangi fólks og að sjósundsfólk ætti að hafa betri aðgang að pottinum eftir sjóbaðið.

https://ylstrondin-i-nautholsvik.betrireykjavik.is/ 

Berglind Steinsdóttir, 26.8.2015 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband