Skáldalaun vs. ráðgjafarlaun

Ég hef enga sérstaka sannfæringu fyrir þeirri aðferð sem er notuð til að launa skáldum og öðrum þeim sem leggja okkur til umhugsunarefni og afþreyingu. Ég er ekkert sérstaklega vel að mér um umsóknarferlið eða hver tekur ákvarðanir um útdeilingu fjárins. Ég gef mér bara að það sé ekki alltaf sama fólkið sem ákveður það.

En ég get sagt að mér finnst skondið að heyra fólk tala um í öðru orðinu að ekki megi umbuna fólki fyrir listsköpun ef það getur ekki „selt“ nógu mikið til að lifa af og í hinu orðinu að ekki megi umbuna fólki sem selur nógu vel til að lifa af því. Listamannalaunin eru 350.000 á mánuði, verktakalaun. Ég veit ekki nákvæmlega hversu mikið er eftir þegar fólk er búið að borga launatengd gjöld en ég veit að margir með þau laun þurfa að drýgja tekjurnar með meiri vinnu.

Og ég hallast að því að Steinunn Ólína hafi býsna mikið til síns máls í grein sinni um ósanngjarna umfjöllun um Andra Snæ af því að nú hefur hann verið orðaður við forsetadæmið. Í litlu málsamfélagi er brýnt að slaka ekki á kröfunum, við getum ekki leyft okkur að skipta úr íslensku yfir í ísl-ensku og svo ensku, a.m.k. ekki umræðulaust. Ef við ákveðum að varpa okkar gegna tungumáli fyrir róða finnst mér að það þurfi að gerast að undangenginni umræðu. Um leið gerum við okkur þá grein fyrir að Íslendingasögurnar gætu glatast og margt annað sem er snúið í þýðingu.

Ókei, kannski er sumum sama um það. Ekki mér og ég er til í að berjast fyrir því. Þannig held ég að vel ígrundaðar bækur á vönduðu máli sem ögra okkur - jafnvel þeim okkar sem lesa ekki bækurnar sjálfar heldur tala bara við þá sem lesa þær - séu mikilvægar, mikilvægari en þær sem seljast staðfastlega fyrir hver jól af því að þær eru á þægilegu og ögrunarlausu máli. 

Hins vegar er ég ósköp fegin að þurfa ekki að ákveða hver fær skáldalaun frekar en hver fær ráðgjafarlaun í bönkunum fyrir að benda fólki á snargalnar ávöxtunarleiðir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband