Hvað ef fólk hefur fengið afskrifað og á svo eignir á Tortólu?

Þá sjaldan ég skrifa hér í mesta meinleysi um eitthvað sem mér finnst í ólagi í samfélaginu hefur einhver óþekktur vænt mig hér á þessum vettvangi um öfund. Þess vegna ætla ég strax að játa að mér blöskrar að stór kotasæludós skuli kosta 438 kr. og askja af kirsuberjatómötum 369 kr. Að sama skapi finnst mér undarlegt að 2 l af pepsíi skuli einungis kosta 198 kr. Ég held að það sé pólitík að hafa hollari vörur á lægra verði og ég veit að ég er ekki alveg ein um þá skoðun. Hvernig verðpólitík er þetta?

Nú er kominn hálfur mánuður síðan afhjúpunarþátturinn var sýndur á RÚV og okkur var brugðið. Við vitum að þetta er lítið brot af alheimsspillingunni og misskiptingunni. Okkur skilst að nöfn allt að 600 Íslendinga séu i Panama-skjölunum og nú dettur mér í hug hvort það sé sama fólkið og fékk afskrifaðar skuldir í niðurfellingunni stóru. Og af því að ég, meinleysinginn, er vænd um öfund þegar ég voga mér að segja svona á bloggsíðunni minni tek ég fram að ég sótti ekki einu sinni um afskrift eða niðurfellingu eða afslátt af húsnæðisskuldum þannig að ef ég öfunda einhvern eru það útlendingar sem geta keypt flunkunýtt, safaríkt mangó heima hjá sér án þess að borga offjár. Og geta þar að auki borðað það.

Ég held að við þyrftum að þræða okkur marga áratugi aftur til að finna upphafið að spillingunni. Fólksfæðin er eitt svarið. 

Ég viðurkenni að þetta er heldur ruglingsleg færsla. Samantekin er hún svona: Það þarf að skera samfélagið upp og fjarlægja meinið sem er misskipting gæða landsins. Framseljum ekki óveiddan fiskinn, seljum þeim ekki rafmagn gegn lágu verði sem geta borgað markaðsverð, reynum að styðja íslenska framleiðslu, t.d. framleiðslu grænmetis, til að spara innflutning (þ.m.t. gjaldeyrisnotkun) og í guðanna bænum, látum ekki heilbrigðiskerfið deyja drottni sínum.

Svo öfunda ég aðallega þá sem geta hlaupið hraðar en ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fólk fékk afskrifað ef húsnæðislán fóru yfir 110% af verðmati fasteignar. Eignastaða að öðru leiti skipti engu máli. Fyrirtæki fengu afskrifað og eignastaða eigenda skipti engu máli.

Margir vilja rugla saman fjármálum fyrirtækja og eigenda þeirra. En fyrirtæki eru sjálfstæðar einingar sem geta orðið gjaldþrota þó eigendur eigi sand af seðlum. Hluthöfum gömlu bankanna sem fóru í þrot var til dæmis ekki sendur reikningur.

Mörg fyrirtæki sem fengu afskriftir voru komin í eigu viðkomandi banka og voru ekki söluvara með háar skuldir á bakinu. Banki sem tekur 500 milljóna fyrirtæki upp í 1000 milljóna skuld þarf að afskrifa til að geta selt fyrirtækið aftur.

Gústi (IP-tala skráð) 17.4.2016 kl. 19:44

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er alveg sama þó það sé lagatæknilega rétt.

Ef þeir sem fengu afskrifað eiga eignir á aflandseyjum, - þá er hætta á að algjört siðleysi geti verið til staðar.

Það fer þó eftir ýmsu og hvert mál þarf sérstaka skoðun og athuga ýmsar hliðar o.s.frv.  En grunsemdir eru til staðar.  Og það er vont.  Alveg gríðarvont fyrir þetta samfélag hérna.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 17.4.2016 kl. 20:07

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þess vegna held ég einmitt, Gústi, hver sem þú ert, að við þurfum að breyta ýmsu, þar á meðal hugusunarhættinum. Okkur finnst sjálfsagt að fólk sem tekur áhættu, leggur eitthvað undir, uppskeri vel þegar vel gengur. En hver á að taka tapið þegar verr gengur? 

Góð kona í fjölskyldunni sagði þegar hrunið varð og margir bölvuðu Björgólfi yngri: Af hverju á að refsa honum  með því að láta hann borga svona mikla skatta? Það átti við þegar hann var mjög aflögufær, barst mikið á og sumum fannst hann eiga að borga sinn skerf til samfélagsins. - Ég sagði við hana: Ég lít ekki svo á að mér sé refsað þegar ég er látin borga eðlilega skatta. Ég vil hins vegar að þeir séu notaðir af skynsemi. Þá er ég að hugsa um velferðarsamfélagið og eðlilega atvinnuuppbyggingu.

Það er dálítið erfitt að vera skýr í rituðu máli við ókunnugt fólk en kannski er eðlilegasta setningin hér sú sem oft heyrðist 2009: Gróðinn var einkavæddur og tapið ríkisvætt. 

Ég er ekki viss um að við höfum fjarlægst þá hugmyndafræði nóg.

Berglind Steinsdóttir, 18.4.2016 kl. 07:30

4 identicon

"Okkur finnst sjálfsagt að fólk sem tekur áhættu, leggur eitthvað undir, uppskeri vel þegar vel gengur. En hver á að taka tapið þegar verr gengur? "...... Í orði en ekki á borði. Vein og öskur í hvert sinn er fyrirtæki vilja greiða sínum eigendum eðlilegan arð. Þá vilja allir hlutdeild í hagnaðinum, eigendur þjófkenndir og fyrirtækið greinilega ekki skattlagt nóg. Okkur finnst nefnilega sjálfsagt að fólk sem tekur áhættu, leggur eitthvað undir, uppskeri ekkert þegar vel gengur.

Gústi (IP-tala skráð) 19.4.2016 kl. 09:15

5 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þetta er ekki rétt og ég trúi ekki að þú trúir þessu sjálfur. Mörg lítil og meðalstór fyrirtæki eru vel rekin og gera vel við starfsfólk sitt þótt eigendur hagnist ásættanlega (fyrir alla aðila). Þau eru aldrei á milli tannanna á fjölmiðlum. Hins vegar man ég eftir tryggingafélagi sem ætlaði að greiða „sér“ (lífeyrissjóðirnir? ríkissjóður? einstaklingar?) út myndarlegan hagnað rétt eftir að tryggingatakar höfðu fengið tilkynningu um hækkun iðgjalda vegna bágrar afkomu. Reyndar virðist öllum bera saman um að maður þurfi að hringja á hverju einasta ári í tryggingafélagið sitt til að tryggja að iðgjöldin hækki sisona.

Ég þekki ágætlega til í allstóru ferðaþjónustufyrirtæki sem gerir bærilega við starfsfólkið sitt en hagnast samt vel. Það er aldrei í fjölmiðlum. Mér finnst sjálfsagt að sá sem tekur áhættu fái eitthvað fyrir sinn snúð þegar vel gengur en þú veist örugglega, sennilega betur en ég af því að líklega rekur þú fyrirtæki, að það er ekki endilega einfalt að vera með fólk í vinnu. Og svo virðist sem gjaldþrot sé skelfilegur áfellisdómur á Íslandi en sums staðar annars staðar er litið á það sem dýrmæta reynslu.

Við erum meira sammála en þú vilt meðganga. 

Berglind Steinsdóttir, 19.4.2016 kl. 16:52

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

... til að tryggja að iðgjöldin hækki EKKI sisona.*

Berglind Steinsdóttir, 19.4.2016 kl. 16:53

7 identicon

Það sem þú, og fleiri, kölluðu "myndarlegan hagnað" hjá tryggingafélögunum  kom úr fasteignaviðskiptum en ekki tryggingastarfseminni. Og arðgreiðslurnar sem sagðar voru græðgi voru lægri en ef eigendurnir hefðu átt peningana á bankabók.

Fólk horfir ekki á ávöxtunina heldur bara upphæðina. Því verða stór fyrirtæki stöðugt fyrir gagnrýni þegar að arðgreiðslum kemur. 100 milljarða fyrirtæki er gagnrýnt fyrir að greiða 3 milljarða í arð meðan 100 milljóna fyrirtæki er sagt hóflegt með 15 milljónir í arðgreiðslur.

Gústi (IP-tala skráð) 19.4.2016 kl. 17:57

8 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þú hefur þínar heimildir. Mínar heimildir segja að ávöxtunarkrafan hafi vísvitandi verið svona há til að geta rifað seglin. Hins vegar hefðu fjölmiðlar gjarnan mátt spyrja hvert arðurinn færi. Hvert fer hann? Í ríkissjóð? Til lífeyrissjóða? Til starfsmanna tryggingafélagsins? Til annarra einstaklinga? Margra? Fárra? Fyrirtækja? Og af hverju er þetta ekki kallað ávöxtun eins og af bankareikningum?

Berglind Steinsdóttir, 20.4.2016 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband