Í sjóinn í gallabuxum?

Á morgun verður þreytt Helgusund í Hvalfirðinum og enn eitt árið læt ég það framhjá mér fara. Mig dauðlangar en af því að ég fór fýluferð í fyrra - m.a.s. kakjakræðararnir máttu hafa sig alla við að komast aftur í land og sundinu var aflýst - er ég efins um að skipulagið sé nógu gott. Agalega leiðinlegt að líða svona en nýliðin vinnuvika býður ekki upp á óþarfan akstur á laugardegi. Ég er samt loks búin að kaupa feit sundgleraugu þannig að Helgusund er ótvírætt á dagskrá 2017, reyndar Viðeyjarsundið líka og kannski fleiri langar sjósundsleiðir.

En gallabuxurnar, hvað með þær? Nei, ég ætlaði nú bara að synda í sundbol og með sundhettu eins og áskilið er. Hins vegar segir sagan:

Nú töluðu þeir um höfðingjarnir að ráð væri að fara eftir Helgu og drepa sonu þeirra Harðar. Þá þótti sumum of síð dags. Höfðu þeir þá að því samtak að þeim skyldi engi grið gefa né ásjá veita ella skyldu allir þeim hefna. Svo var ríkt við lagið. Þeir ætluðu út um morguninn en voru þar um nóttina.


38. kafli

Helga er nú í hólminum og þykist vita nú allar vélar og svik landsmanna. Hún hugsar nú sitt mál. Það verður nú hennar ráð að hún kastar sér til sunds og leggst til lands úr hólminum um nóttina og flutti með sér Björn son sinn fjögurra vetra gamlan til Bláskeggsár. Og þá fór hún móti Grímkatli syni sínum átta vetra gömlum því að honum dapraðist sundið þá og flutti hann til lands. Það heitir nú Helgusund. Þau fóru um nóttina upp á fjall frá Þyrli og hvíldust í skarði því er nú heitir Helguskarð. Hún bar Björn á baki sér en Grímkell gekk.

Ég hef löngum velt fyrir mér klæðnaði Helgu við þetta tækifæri. Hún synti rúmlega 1,5 km í köldum sjónum til að bjarga lífi sínu og sona sinna tveggja. Hvernig var hún klædd? Var hún í síðu vaðmálspilsi? Þungu? Sem varð níðþungt í vatninu? 

Auðvitað eru ekki til neinar myndir en fyrir skemmstu var í sjónvarpinu heimildarmynd um upphaf sundkennslu á Íslandi og ekki síður um upphaf kvennasunds. Konum var óheimilt að synda og sú fyrsta sem synti í laug með körlum gerði það í óþökk þeirra. Þeir voru naktir og hafa sennilega flotið í hægðum sínum og léttleika.

Og, já, þá hlýt ég að velta fyrir mér hvernig væri að synda í gallabuxum og lopapeysu. Eða búrkíní. Og nú ætla ég að nota helgina til að hugsa um trú, trúarbrögð, rétttrúnað og mögulega ánauð kvenna því að ég er enn eingöngu að hugsa um praktísku hliðina af því að synda í miklum og víðum fötum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband