Hver borgar matinn ofan í leiðsögumenn og bílstjóra í ferð?

Á síðunni Bakland ferðaþjónustunnar var í gær fjörleg umræða um það hvort leiðsögumaður eigi að borga fyrir matinn sinn þegar hann kemur með borgandi gesti á veitingastað.

Ég held að engum blandist hugur um að starfsmaður sem er langt utan heimasvæðis síns á ekki sjálfur að greiða fyrir matinn sinn. Á mörgum staðarvinnustöðum er niðurgreiddur matur þótt fólk hafi val um að taka með sér nesti að heiman, kaupa sér í nærliggjandi búð eða nýta sér mötuneyti vinnustaðarins. Leiðsögumaður í hringferð borgar þannig ekki matinn í Vík, á Höfn, á Egilsstöðum, Akureyri, Húnavöllum eða í Borgarnesi. Þá er spurningin: Borgar vinnuveitandinn? Og í hvaða formi borgar vinnuveitandinn?

Til margra ára hefur leiðsögumaður fengið „frían“ mat á veitingastaðnum sem hann kemur á með gestina. Ég tel óhætt að fullyrða að þá er veitingastaðurinn að gefa vinnuveitandanum en ekki starfsmanninum sem á þennan rétt í kjarasamningi. Og enn lifir (hávær) umræða um það hvort leiðsögumaður og/eða bílstjóri sniðgangi veitingastaði sem vilja ekki „gefa“ starfsmönnum ferðaskrifstofu ókeypis að borða.

Vissulega er þægilegt að koma í hádeginu á stað sem afgreiðir matinn hratt og vel, m.a. til starfsmannanna sem fá að sitja í sérherbergi og tala sín á milli án ferðamannanna, en allt fólk þarf líka að borða og ef allir staðir tækju sig saman um að gera eðlilega samninga við ferðaskrifstofurnar gætu leiðsögumenn/bílstjórar ekki látið geðþótta, fýlugirni eða hentistefnu ráða matarstoppunum.

Sjálf vildi ég helst fá dagpeninga og ráða því hvort ég fæ mér heitan mat í hádeginu eða læt kannski ís og appelsínu stundum duga.

Í öllu falli finnst mér fráleitur hótunartónn sem maður heyrir í sumum í stéttinni um að sniðganga einhvern stað sem „gefur gæd og bíltjóra ekki að borða“.

Ég er leiðsögumaður sem gafst upp á innviðunum og lágu laununum 2013 og er nú í sumarfríi í sumarfríunum mínum, ræð mínum hádegisverðarstað og borga fyrir matinn minn, kannski ekki alltaf með glöðu geði (pastaréttur á 3.500 kr. gekk fram af mér um daginn) en nógu glöðu geði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband