Hjáróma í kórnum um kjararáð

Ég er orðin nógu gömul til að hafa kosið oft og mörgum sinnum og hef í hvert skipti verið óvissuatkvæði þannig að það sem einhver kann að lesa hér á eftir út úr skrifum mínum um flokkspólitíska afstöðu er örugglega rangt. Hún er ekki til.

Kjararáði er nauðugur einn kostur að úrskurða á kjördegi, eina daginn sem það veit ekki hverjir eru þingmenn þannig að ekki sé hægt að kalla hækkunina flokkspólitíska.

Laun þingmanna hafa verið lág. Laun margra annarra hafa líka verið og eru lág. Þingmenn sem taka starf sitt alvarlega eru alltaf að, lesa, hlusta, fylgjast með innlendum markaði, hitta fólk, fylgjast með erlendum hreyfingum og eru alltaf í vinnunni. Það er ekki endilega hollt eða ástæða til að mæla með því en það er þannig ef þingmaður hefur metnað og eldmóð. Starfið er lífsstíll og áhugamál. Margir segja að þingmenn byrji af krafti og ástríðu en að það eldist fljótt af þeim. Það kann að eiga við um suma en það á líka við um flestar stéttir.

Sjálfri finnst mér hækkunin of brött og sjálfri finnst mér óeðlilegt og rangt að margt sé greitt fyrir þingmenn, svo sem starfskostnaður. Laun þingmanna eiga að vera gagnsæ og þau eiga að vera ágæt.

Ég sit ekki í kjararáði, þekki ekkert af því fólki og skrifa þetta bara út frá einstaklingsskoðun minni.

Ég gæti líka talað um laun leikskólakennara og hjúkrunarfræðinga en þegar við tölum um laun erum við í raun alltaf að tala um samanburð. Hvað fáum við fyrir launin? Hvað getur næsti maður sem líka ber mikla ábyrgð og vinnur langan vinnudag leyft sér? Hvað kostar fasteign?

Við eigum að borga löggjafanum góð laun og við eigum að gera miklar kröfur, m.a. um að þingmenn búi okkur þannig lagaumhverfi að við getum lifað mannsæmandi lífi á laununum okkar og að launin okkar séu í samræmi við menntun, framlag, ábyrgð og vinnutíma.

Finnst annars engum skrýtið að allir óbreyttir þingmenn séu á sama kaupinu, að ekki sé meira borgað fyrir starfsaldur, lífaldur og menntun? Og hvað um vinnuaðstöðuna í þingsalnum sem Vinnueftirlitið myndi trúlega ekki samþykkja á öðrum vinnustöðum?

Og aftur: Nei, ég er ekki þingmaður, ekki í kjararáði og ekki flokksbundin neins staðar. Mér finnst ég hafa rétt til að hafa skoðun, ég hef reynt að rökstyðja hana en skil að fólk sé ósammála mér.

Væri ekki upplagt að hálaunaða þingið myndi skoða það að lögbinda lágmarkslaun sem hluta af öðrum launum? Hvernig væri tillagan um að hæstu laun mættu ekki vera hærri en fjórfjöld lægstu laun? Ef lægstu laun eru 200.000 eru hæstu laun 800.000 í hæsta lagi. Og hvaða stétt yrði tekjuhæst?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það fer meiri orka og slagkraftur hjá verkalýðnum í að bölva og berjast gegn háum launum annarra en berjast fyrir hækkun sinna launa. Fólk sættir sig við skítakaup geti það dregið einhvern á hærri launum niður eða hindrað að hann fái hækkun. Aumingjunum leiðist í skítnum og vilja draga alla niður til sín. Vilja setja lög svo enginn rísi of hátt úr forinni. Íslenskur almúgi nærist og þrífst á öfund, sæll og glaður sem fórnarlamb í sínum ímyndaða heimi.

Hábeinn (IP-tala skráð) 2.11.2016 kl. 00:36

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Mér finnst þetta dálítið dramatískt hjá þér en en, já, mér finnst vanta vott af jákvæðni í kjarabaráttuna. Það sem við sáum eftir 2004 var samt að hinir nýríku (hvort sem maður öfundar þá eða ekki) höfðu áhrif á almennt íbúðaverð með því að yfirbjóða í eignir. Það og útspil bankanna (hátt hlutfall af íbúðaverði lánað) kom mörgu láglaunafólki á kaldan klaka. Launabreiddin er of mikil.

Berglind Steinsdóttir, 2.11.2016 kl. 07:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband