,,Fyrir flóðið" - Leonardo DiCaprio

Fyrir sléttum mánuði ætlaði ég að vera búin að horfa á þessa mynd en náði því ekki. Ég heyrði hinn frábæra (fyrrverandi) útvarpsmann Guðfinn Sigurvinsson segja frá henni í útvarpinu áður en forseti var kosinn í Bandaríkjunum. Hann sagði að Leonardo DiCaprio hefði hana aðgengilega öllum til að reyna að koma fólki í skilning um a) hvaða mann Donald Trump hefði að geyma og b) mikilvægi umhverfisvitundar. 

Fátt svíður mér meira en slæm umgengni við náttúruna. Já, ég veit að vistsporið mitt er fáránlega stórt og þungt en ég nota plast í hófi, hjóla sem mest og er sem lengst í útlöndum þegar ég á annað borð er stigin upp í flugvél. En ég átta mig líka á því að maður lifir í samfélagi og það er erfitt að synda gegn straumnum. Ef æðsta stjórn hvers ríkis (kosin af landsmönnum auðvitað) stæði með umhverfinu og legðist gegn umhverfissóun (þ.m.t. matarsóun) og stæði með nýtni og sparsemi - hér t.d. með raf- eða metanbílum og lífrænum tunnum við hvert hús eða víða í hverju hverfi - yrði umhverfisvinum auðveldara að standa með sannfæringu sinni. 

Ég hélt að ég myndi sofna yfir myndinni, ég segi það satt því að það hendir mig stundum, en ég starði opinmynnt allt til enda. Í Kína er mengunin þverhandarþykk, jöklar bráðna óeðlilega hratt og sjávarborð hækkar ört. Ég held að jörðin og mannkynið sé í hættu.

Nú er ónáttúrulega hlýtt í Reykjavík og víðar á Íslandi og við júbilerum, ég líka því að ég fíla hlýindi, en þetta er háskalegt. Og við getum haft áhrif á okkar nánasta umhverfi sem gæti haft margfeldisáhrif.

Okkur er líka hollt að minnast þess að 12. desember 2015 undirrituðu 195 ríki Parísarsamninginn, samning um að reyna að halda hnattrænni hlýnun undir 2°C, og Alþingi samþykkti þingsályktun um hann í september sl. Nú vil ég meiri forystu í þessum málum, takk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband