Flugvallaróvinur

Ég vil að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Ég hef skrifað þetta líklega 20 sinnum og sagt það mun oftar. Mér væri það að meinalausu að hátæknispítali yrði byggður upp í Keflavík. Reyndar fyndist mér gáfulegt að dreifa álaginu af Landspítalanum, t.d. með því að byggja upp góða bráðamóttöku í Keflavík. Ég heyri áhugamenn um flugvöllinn og öryggi landsmanna tala um að sjúkrahúsin í kringum Reykjavík séu verkefnalaus þannig að ég held að ég eigi liðsmenn þar.

Færum innanlandsflugið til Keflavíkur, nýtum sjúkrahúsin á jaðri höfuðborgarsvæðisins betur og hættum að rífast um málið. Enginn sem er á móti flugvellinum þar sem honum var tildrað upp vanhugsað fyrir meira en hálfri öld er áhugalaus um öryggi sjúklinga eða slasaðra. Það er aldrei ástæðan, ekki frekar en okkur finnst fólkið á Eskifirði eða í Ólafsvík eiga að búa við minna öryggi en aðrir. Stundum er hvorki hægt að fljúga flugvél né þyrlu vegna veðurs - væri þá ekki betra að hafa öruggt lendingarsvæði nálægt öruggu sjúkrahúsi? Reykjavík er höfuðborgin en menn geta ekki í öðru orðinu viljað auka sjálfræði byggðanna og hinu hafa allt á sama stað.

Flytjum innanlandsflugið til Keflavíkur. Skipulega. Í skrefum. Án yfirgangs og hávaða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Segðu bara strax: Ég vil hærri flugfargjöld til útlanda og er tilbúin að borga þau. Þú ættir að vita að Reykjavík er varaflugvöllur svo aðkomandi flugvélar þurfi ekki jafnvel að bera eldsneyti til Glasgow.

Segðu svo: Ég vil að innanlandsflug leggist nær alveg niður. Það er 10 mín lengra að fljúga frá Akureyri til KEF en RVK.

Segðu svo: Ég vil að öll sjúkraflug Landlegisgæsdlunnar lengist um 10-15 mínútur.

Segðu svo: Ég vil að öll flugkennsla fari fram í útlöndum, ekki hér á landi.

osvfrv, vertu þér sjálfri samkvæm.

Annars sakar það ekki að þú kynnir þér málin.

Staðsetning Rvk-flugvallar er ekki vanhugsuð, heldur þrauthugsuð.

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 29.12.2016 kl. 23:09

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Nú þykir mér týra, ertu að segja að Bretinn hafi hugsað staðsetninguna svona gaumgæfilega í síðari heimsstyrjöldinni?

Mjög margir geta ekki nýtt sér innanlandsflugið eins og það er. Hvað vilt þú gera fyrir það fólk? Það kostar nú þegar hvítuna úr augunum að fljúga á suma staði og ég hef heyrt ótal dæmi um að flug hafi verið fellt niður vegna veðurs og fólk endað á að keyra hvort eð er. Innanlandsflugið er ekki nokkuð sem fólk treystir skilyrðislaust á.

Ég þekki líka fólk í Þingholtunum sem verður fyrir ónæði af bæði áætlunarfluginu og flugkennslunni. Af hverju verður ekki hægt að kenna flug í Keflavík?

Sumir vilja byggja upp gjörgæslu og bráðaþjónustu víðar. Af hverju ertu á móti því?

Af hverju viltu ekki betra vegakerfi? Af hverju viltu ekki strandsiglingar með vörur? Af hverju viltu ekki meiri tekjur af ferðamönnum? Af hverju viltu ekki að ferðamaðurinn geti flogið beinustu leið á áfangastað, t.d. til Siglufjarðar eins og athafnamaðurinn Róbert Guðfinnsson hefur talað fyrir? 

Þú leggur mér til hugsanir þannig að þú hlýtur að reikna með að ég túlki orð þín. Má skilja þig þannig að þú viljir ekki hafa tekjur af ferðamönnum?

Berglind Steinsdóttir, 30.12.2016 kl. 08:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband