,,Skömm" á norsku

Margir vita strax um hvaða þætti ég er að tala, norsku unglingaþættina sem höfða til alls aldurs og beggja (allra?) kynja, að því er virðist. Ég var í einhverju tilliti búin að vita af þeim í drjúgan tíma en lét verða af því að byrja að horfa um daginn og er nú búin með tvær þáttaraðir af fjórum. Þættirnir eru mislangir, frá 22 og upp í 35 mínútur hefur mér sýnst, og ég þoli alveg smápásu núna þar sem ég veit að þeir fara ekki frá mér. En svo mikið hafa þeir verið ræddir í nærumhverfi mínu að mér var hollast að horfa.

Dásemdin við þættina er handritið, óvæntu viðbrögðin, manneskjulegheitin og svo auðvitað dýrðin við að hlusta á eitthvað annað en ensku og horfa á eitthvað annað en klisjur. Ekki er allt bandarískt sjónvarpsefni illa gert en mér finnst stór hluti af því sem býðst hér í sjónvarpi vera sama efnið, endalausar endurtekningar og fyrirsjáanlegt efni.

En þessi færsla er ekki um gallana á öðrum þáttum heldur tilraun til að greina Skömm. Ég veit að aðal„skömmin“ á eftir að koma en hingað til hafa unglingarnir þurft að takast á við margar áskoranir, leysa sum úrlausnarefni vel og önnur illa, virka grunsamlega þroskuð og yfirveguð á köflum en bæta það upp með fáránlegri hegðun innan um og saman við. Hinn gallinn er að þau búa mörg út af fyrir sig, ekki með foreldrum, og virðast engar áhyggjur þurfa að hafa af peningum. Og lifa sum eins og greifar.

En þótt þættirnir séu um unglinga eru þeir samt um manneskjuna í sinni fjölbreyttu mynd og alls konar fólk vex ekki upp úr alls konar tilfinningakrísum þannig að ég held að flestir geti sett sig í spor einhverra í þáttunum, jafnvel horft inn á við og jafnvel, jafnvel endurskoðað breytni sína.

Áfram, Norðmenn.

Ég man Fleksnes ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband