,,... að ekki sé á þessu stigi rétt að lögvernda starf leiðsögumanna."

Ég fór í Leiðsöguskóla Íslands í Kópavogi haustið 2001, útskrifaðist 2002 og var leiðsögumaður á sumrin frá 2002 til 2013. Allan þann tíma var þrálát umræða um starfið, lögverndun starfsins/starfsheitisins og kjörin. Allar stjórnir hafa rætt þetta, margir félagsfundir og auðvitað óteljandi kaffistofufundir um allt land. Og ekki bara þann tíma sem ég tolldi heldur sennilega allar götur frá stofnun Félags leiðsögumanna 1972.

Ferðamálaráðherra var fyrir mánuði spurð:

Telur ráðherra að lögvernda beri starfsheiti leiðsögumanna þannig að tryggt verði að það noti einungis þeir sem hafa lokið viðurkenndu leiðsögumannsnámi, t.d. í samræmi við staðal um menntun leiðsögumanna IST EN 15565:2008, eða aflað sér réttar til að bera starfsheitið með öðrum viðurkenndum hætti, svo sem raunfærnimati? 

Skammarlegt að það skyldi fara framhjá mér að þessi fyrirspurn hafi verið lögð fram en svarið var birt á miðvikudaginn. Og ráðherra ferðamála segir:

Að framansögðu virtu er það mat ráðherra að ekki sé á þessu stigi rétt að lögvernda starf leiðsögumanna.  

Hún færir fyrir því þau rök að lögverndun starfsheitis leiðsögumanna myndi leiða til þess að ófaglærðir einstaklingar, sumir með áratugalanga reynslu í leiðsögn, þyrftu leyfi frá stjórnvöldum til að geta titlað sig leiðsögumenn.

Ég spyr: Já, og? Félag leiðsögumanna hefur alltaf verið opið fyrir stöðuprófi. Einstaklingar sem hafa starfað áratugum saman við leiðsögn tækju bara stöðupróf og fengju löggildingu. Í alvörunni, þetta er fyrirsláttur. Samtök ferðaþjónustunnar hafa staðið í vegi fyrir löggildingu vegna hagsmuna stórra ferðaskrifstofa sem vilja geta ráðið inn hina og þessa sem kunna lítið sem ekkert og líta jafnvel á starf við leiðsögn sem möguleika til eigin ferðalaga og sætta sig við lágt kaup. Og með vaxandi straumi (nema ferðamenn hætti við vegna okurs) er meiri þörf fyrir mikla meðvitund um sérstöðu landsins.

Ég gerði mér vonir um meiri djörfung hjá ferðamálaráðherra af nýrri kynslóð en svar hennar og viðhorf tryggir að margir lærðir leiðsögumenn fúlsa við starfi í ferðaþjónustunni. Umsaminn taxti upp á 330.000 í mánaðarlaun hjálpar heldur ekki til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband