Stytta af fyrirmenni - hvaða fyrirmenni vantar helst í borgarmyndina?

Ég hlustaði á Bylgjuna á mánudaginn þegar Reykjavík síðdegis velti upp hugmynd um hvort við ættum að fjölga styttum borgarinnar og hvaða fólk ætti þá að vera fyrirmyndirnar. Ég hlustaði opinmynnt og stóreygð á hvern viðmælandann á fætur öðrum stinga upp á Jóhannesi í Bónusi, Pálma í Hagkaupum, Guðna í Sunnu og Hemma Gunn, aðallega vegna þess að þessir kallar lækkuðu vöruverð til neytenda. Nú þarf ég að vanda mig. Ég er vitaskuld hlynnt þeim sem beita sér fyrir hagsmunum neytenda, kunna fótum sínum og annarra forráð í viðskiptum, sýna hugmyndaflug, eru hláturmildir og skora mörk. Í alvöru, mér finnst það. En að engum sem hringdi inn hafi dottið í hug að nefna Vigdísi Finnbogadóttur gekk fram af mér. Ég var aldrei þessu vant undir stýri og mundi aukinheldur ekki númerið á Bylgjunni, annars hefði ég hringt. Sem betur fer spurði einn af stjórnendunum hvort fólki fyndist engin kona eiga skilið að fá styttu af sér, t.d. þá Vigdís eða Björk. 

Ég hjóla stundum um miðborgina með túrista og nota oft tækifærið til að nefna Vigdísi og líka Ingibjörgu H. Bjarnason sem er orðið auðvelt vegna styttunnar af henni fyrir framan Alþingishúsið. Nú er Veröld, hús Vigdísar að komast á koppinn, að vísu skelfilega hrátt hús í augnablikinu en stendur áreiðanlega til bóta, þar sem mér skilst að allir aðkomumenn á Íslandi eigi í fyllingu tímans að geta lesið eitthvað á eigin tungumáli. Fólki finnst merkilegt að kona, fædd 1930, sé enn að ferðast sem sendiherra tungumála og að konur á Íslandi hafi fengið kosningarrétt svo snemma sem 1915. Styttur af flottu fólki auðvelda okkur að minnast þess góða sem það gerði. Má ég biðja um styttu af Vigdísi fyrir framan Veröld?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Ég myndi mæla með styttu af Gunnari Dal heimspekingi einhversstaðar;

hann er vanmetinn í sögunni.

Jón Þórhallsson, 18.8.2017 kl. 12:33

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, enda útilokar einn kandidat ekki annan. Bróðir minn myndi sannarlega taka undir með þér og ekki myndi ég andmæla.

Berglind Steinsdóttir, 18.8.2017 kl. 18:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband