#metoo #höfumhátt

Fyrir nokkrum árum var ég leiðsögumaður með lítinn þýskumælandi hóp. Í annarri gistingunni vorum við bílstjórinn látin vera saman í smáhýsi. Við fengum samt hvort sitt herbergið. Ég hef samúð með ferðaþjónustunni þannig að ég lét gott heita. Bílstjórinn virtist í lagi, ekkert aðlaðandi en fínn bílstjóri, duglegur að tala við túristana og svona, en undir háttumál, þegar ég lá í rúminu mínu í mínu herbergi og var að lesa mér til fyrir næsta dag kallaði hann innan úr stofunni að ég læsi of mikið og kom svo inn, strauk handarbakinu við kinnina á mér og sagðist gjarnan vilja liggja með mér.

...

Ég, alveg bullandi meðvirk, vék mér undan og sagði: Nei, takk.

Nei, takk!?

Þegar ég fór að sofa staflaði ég bókum við hurðina því að enginn var lásinn.

Ég hafði enga ástæðu gefið honum til að halda að mér fyndist þetta góð hugmynd. Næstum öll ferðin var eftir. Ég forðaðist bílstjórann eins og ég gat. Mér leið óþægilega og það smitaðist út í ferðina.

Þegar ferðin var búin skilaði hann mér heim og ég hálfhljóp í burtu en samt spurði hann: Fæ ég ekki einn koss í kveðjuskyni?

...

Ég hef ekkert oft lent í þessu. Flestir bílstjórar sem ég hef keyrt með eru frábærir og faglegir samstarfsmenn. Ég man m.a.s. sjaldnast eftir þessu atviki en, fokk, hvað þessi maður kunni ekki mannasiði. Og ferðaskrifstofunni var alveg sama. Ég man ekki lengur hvað bílstjórinn heitir en ég gleymi ekki hver réð mig í þessa ferð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband