Þöggunarsamfélagið

Ég upplifi íslenskt samfélag sem þöggunarsamfélag. Ég hef skoðanir á sumu og á það til að viðra þær en miklu oftar held ég þeim fyrir mig eða tala inn í mjög lítinn hóp. Maður nær aldrei að segja allt í einni færslu þannig að það er auðvelt að misskilja, rangtúlka og snúa út úr ef maður gárar bara yfirborðið. Kannski er hægt að setja undir þann leka með því að vera óheyrilega skýr í máli.

En ég man árið 2009 þegar fólk tjáði sig í örvæntingu yfir að illa farið fjármálakerfi hafði peninga af þeim sem sáu alls ekki við því. Þá var einn maður öðrum framar í því að dissa það botnlaust fyrir stafsetningu og almennan rithátt, sneiddi purkunarlaust hjá öllu efnislegu. Haldið þið ekki að það hafi dofnað yfir fólki sem hefur kannski alla tíð fengið að heyra það í skólakerfinu að þetta megi segja og hitt ekki? Út af málfræði! Svo er brotið á rétti þessa fólks, það reynir að bera hönd fyrir höfuð sér, dæsa upphátt yfir að sitja uppi með tvær eignir af því að stjórnvöld sögðu að allt væri í himnalagi og fær skammir frá manni sem ég man alveg hvað heitir.

Þetta eru skýrir þöggunartilburðir og þannig er samfélagið mitt.

Ég tjáði mig hér á blogginu á þeim tíma (eins og endranær) og inn komu bláókunnugir menn sem vændu mig um að öfunda bankastjóra og vera í hinum og þessum pólitíska flokknum. Það getur vel verið að einn og einn hafi haft efnislega athugasemd við skrif mín en þær voru í skötulíki. Flestir örguðu yfir persónu minni án þess að þekkja önnur deili á mér en það sem ég skrifaði um líðandi stund hverju sinni.

Þetta vaktist upp fyrir mér í vikunni þegar ég var í stórkostlega áhugaverðum tíma í blaðamennskunámi mínu. Maður leyfir sér ekki að tala frjálst í íslensku samfélagi af því að þá kemur einhver ókunnugur og gargar – nafnlaust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband