Miðvikudagur, 31. október 2012
Félag leiðsögumanna er 40 ára
Og það hélt upp á afmælið sitt á föstudaginn var með vel sóttu morgunverðarmálþingi sem ráðherra ferðamála ávarpaði. Það eina sem vantaði var loforð um löggildingu starfsheitisins ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 30. október 2012
Ég hjóla
Það er ekki af neinni gustuk við umhverfið eða samferðafólk mitt í lífinu sem ég hjóla. Ég hjóla aðallega af því að sá samgöngumáti hentar mér, ég fer oftast hæfilegar vegalengdir og næ því sem ég þarf að gera.
En nú les ég að ég sé hættulegri í umferðinni ef ég tala í símann en bílstjóri í símanum. Ég finn þó ekkert um bann við því að tala í símann á hjólandi ferð í nýju frumvarpi til umferðarlaga. Hins vegar fann ég þetta í 54. gr.:
Ökumanni ökutækis er óheimilt að nota farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar. Jafnframt er ökumanni óheimilt að senda eða lesa smáskilaboð eða nota farsíma á annan hátt meðan á akstri stendur.
Ég held að vandinn sé samt aðallega í því fólginn að ökumenn missa athyglina þegar þeir hugsa um símtalið. Það er svo erfitt að múltítaska ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 25. október 2012
Niðurgreiðsla og önnur (meint) hlunnindi
Í vikunni hef ég orðið vör við umræðu um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar á landsbyggðinni. Reykvískur pólitíkus vakti hana upp og spurði sisona: Eiga Reykvíkingar að greiða niður húshitun á köldum svæðum?
Ég er Reykvíkingur og mér finnst ekki eðlilegt að við greiðum niður húshitun eða matarverð í öðrum landshlutum. En að sama skapi finnst mér ekki að ég eigi að fá heim til mín hlunnindi sjómannsins sem velur kalda húshitunarsvæðið og gjöfulu fiskimiðin sem hann getur sótt.
Það er ekki fræðilegur möguleiki að jafna allt. Sumir fæðast fallegir, sumir gáfaðir, sumir heilbrigðir og það er ekki hægt að jafna öll þau gæði. Fólk á að hafa sömu tækifæri til náms og góðs lífs en það er ekki hægt að jafna allt.
Að auki eru það góð rök að ef það er viðbjóðslega dýrt að kynda á Tálknafirði eða Stöðvarfirði gæti það verið hvati til að finna aðra orkugjafa, t.d. með því að virkja hafstraumana eða hektópaskölin.
Eftir grufl og umræður gæti komið á daginn að það væri ósanngjarnt að hitajafna ekki milli höfuðborgarsvæðis og Vestfjarða og þá er að taka því. En ekki umræðulaust og út frá tilfinningum einum saman.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 21. október 2012
Ég varð undir ...
... í einni spurningu. Eða þannig.
Ég nýtti mér kosningarrétt minn og fór á kjörstað í gær. Miðað við tölurnar sem hafa verið birtar var hópurinn ekki einsleitur að öðru leyti en því að fólk var heldur jákvætt. Sumir vildu ekki leggja frumvarp stjórnlagaráðs til grundvallar en vildu fá skýr ákvæði um eignarhald á náttúruauðlindum. Sumir kjósendur vildu halda inni ákvæði um þjóðkirkju og sumir vildu jafnt vægi atkvæða.
Ég hlíti niðurstöðu þeirra sem létu sig málið varða og ef ég væri þar stödd í lífinu að ég þyrfti, vinnu minnar vegna, að taka afstöðu til þessara spurninga myndi ég taka tillit til ráðgjafarinnar, líka í sambandi við þjóðkirkju sem ég sagði mig úr fyrir margt löngu.
Mér ofbýður hvað fólk spáir miklu meira í hvað fólk sem fór í sund, fór í fjallgöngu, horfði á fótbolta, var í útlöndum, gleymdi sér við að borða sushi, rataði ekki á kjörstað eða lét sér á sama standa um kjördag vildi sagt hafa með þögn sinni en við hin sem gerðum upp hug okkar og greiddum atkvæði.
Það eru ótrúlega spennandi tímar framundan og ég hlakka mikið til að sjá hvernig úr spilast.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 20. október 2012
Þjóðaratkvæðagreiðslan
Fullorðin kona í fjölskyldunni er að hugsa um að fara ekki á kjörstað af því að henni finnst hún ekki vita nóg um málið. Ég spurði hana - og hún varð hugsi - hvenær hún hefði vitað nóg um frambjóðendur í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum og hvenær hún hefði vitað nákvæmlega hvernig landið lægi eftir kosningar.
Ég hef aldrei tekið þátt í prófkjöri, hmm. Ég ætti kannski að skrá mig í flokka. Eða nei, ég þarf þess ekki ef persónukjör verður tekið upp.
Kynslóðirnar á undan minni hafa barist fyrir rétti mínum til að taka þátt í mótun samfélagsins. Ég forsmái það ekki þótt ég viti ekki allt og ráði ekki öllu ein.
Ég hlakka til að fara í Laugardalshöll á eftir með mína sex krossa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 19. október 2012
20. október 2012
Merkisdagur á morgun.
Vilt þú að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
Hvað þýðir til grundvallar? Að frumvarpið verði útgangspunktur í frekara starfi. Ég sé ekki annað en að allir ættu að geta unað við það. Það þýðir ekki að engu megi breyta.
Út frá þeim skilningi greiði ég atkvæði á morgun.
Svo minni ég sjálfa mig á að þótt ég segði já við spurningu um hvort ég vildi láta setja lög um húsaleigumarkað hefði ég sáralítið um það að segja hvernig þau lög yrðu. Hvenær erum við tilbúin að stíga það skref að færa stjórnarskrá konungsveldisins til nútímans ef ekki núna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 16. október 2012
Þjóðaratkvæðagreiðsla
Stjórnarskráin sem var samþykkt 1944 átti að vera til bráðabirgða.
Ég hef lesið hana frá orði til orðs. Ég hef líka lesið frumvarp stjórnlagaráðs frá upphafi til enda og ég hlakka til að fara í Laugardalshöll á laugardaginn til að greiða (þjóðar)atkvæði.
Það síðasta sem ég gat ákveðið fyrir mína parta var að segja nei við ákvæði um þjóðkirkju. Ég er ekki í henni sjálf en var að hugsa um að vera hlutlaus í þeirri spurningu. Eftir á að hyggja sé ég engin rök fyrir að hafa þjóðkirkju skrifaða inn í stjórnarskrána. Ég er frjálslyndari en svo.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 15. október 2012
Líknardráp í Hollandi?
Ég reyndi að lesa skáldsögu um hollenskan lækni sem stundar líknardráp og þá rifjaðist upp að það hefur áður verið þema í hollenskum (þýddum) bókum sem ég hef lesið. Er þetta aðalmálið í Hollandi eða vill bara svo til að þýddu bækurnar eru á þeirri vegferð?
Skáldsögur endurspegla veruleikann, ekki satt?
Þessi bók rokseldist í sumar - og ég gafst upp á henni eftir tilraunir í hálfan mánuð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 10. október 2012
Hækkun virðisaukaskatts í ferðaþjónustu
Ég er bara maur í ferðaþjónustu, tek enga áhættu, skipulegg ekkert og dreg engan að landi. Sennilega hef ég þá ekki rétt til þess að hafa afgerandi skoðun á fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á gistingu. Enda dettur mér það ekki í hug, hef bara óafgerandi skoðun á málinu.
Það sem ég skil síst og minnst og eiginlega bara ekki er að ferðaþjónustan kvartar og skælir undan öllu. Samt hefur vöxtur orðið þar mikill. Þegar brúna yfir Múlakvísl tók af í fyrra kveinuðu ferðaþjónar austan megin árinnar yfir MILLJARÐATAPI. Samt höfðu þeir aldrei fagnað milljarðagróða.
Ferðamönnum hefur fjölgað á Íslandi ár frá ári, stöðugt í mörg ár. Vilja ferðaþjónar í alvörunni að við förum skarpt upp í heila milljón og svo í þremur þrepum upp í eina og hálfa? Af hverju reynum við ekki frekar að gera þetta almennilega, búa vel um fjölsótta og viðkvæma ferðamannastaði? Er ekki oft talað um að fá ferðamenn til að staldra lengur við, að hver og einn eyði meiru, fá ríka fólkið? Jú, yfirstrumpar ferðaþjónustunnar hafa talað á þeim nótum. Getur ekki verið að það verði núna tilfellið ef gisting verður dýrari?
Ég man líka að þegar virðisaukaskatturinn á mat var lækkaður úr 24,5% í 7% lækkaði verð ekkert á veitingastöðunum. Þá höfðu ferðaþjónar engar áhyggjur. Eða var það?
Þrátt fyrir að vera leiðsögumaður fer ég ekki oft hringinn með túrista. Engu að síður hef ég gert það og stundum hef ég átt að gista á Egilsstöðum og verið send í Neskaupstað. Er það vegna þess að það koma engir túristar? Nei, það er af því að þeir eru svo margir. Núna, meðan verð er svona lágt, gæti ég spurt hvort erillinn sé mikill á veturna. En ég þarf þess ekki, ég veit að svo er ekki. Og það er ekki út af verðinu, það er út af veðrinu og fylgifiskum þess.
Hins vegar finnst mér of bratt að hækka verðið á næsta ári og mér finnst að til þess bærir aðilar ættu að íhuga lægri virðisaukaskatt á veturna til að reyna þó að fjölga túristum í norðurljósaferðum og atburðatengdri ferðaþjónustu (Airwaves og önnur tónlist kannski helst).
Að lokum verð ég að segja að mér finnst framkvæmdastjóri SAF hitta einhverja nagla á höfuðið í grein í Fréttablaðinu í dag sem ég varð að tengja á í fyrstu línu pistilsins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 5. október 2012
Krimmar með áherslu á vinnugleði
Nú er ég búin að lesa þrjár bækur um Harry Hole eftir Jo Nesbø. Ég hef eitthvað fylgst með breska þættinum um kvenlögreglumennina og horfi - auðvitað - alltaf á dansk-sænska þáttinn Brúna og mér finnst það ágerast að umræðan snúist um vinnugleði og vilja/viljaleysi til að finna hinn seka og komast til botns í málinu.
Ég kláraði Rauðbrystinginn hans Nesbøs í gær og þar er til dæmis sálfræðingur sem hefur yndi af starfinu sínu þótt það varpi ljósi á mikinn viðbjóð og mannlega breyskleika. Þar fyrir utan er auðvitað Harry sjálfur ómögulegur maður ef hann fær ekki að klára mál. Þetta ætti að vera sjálfsagt en svo virðist sem margir hafi lítinn metnað í vinnu.
Heita þær ekki Scott og Bailey, þær bresku? Vinkona annarrar var myrt og þess vegna gekk hún í lögregluna. Hin hafði einhverja góða ástæðu til að verða lögreglumaður og nú er hún búin að setja sér það fyrir að fara að slugsa, gera eins og skussarnir en þær vita og við vitum að hún getur ekki dregið lappirnar í vinnunni. Hún er bara orðin svo langþreytt á metnaðarleysinu að hún vill láta reyna á hvort hún getur slegið slöku við og mögulega orðið eitthvað minna pirruð á samstarfsfólkinu.
Það ætti að vera sjálfsagt mál að fólk standi sig í vinnu, ekki síst þegar fólk menntar sig sérstaklega til einhvers starfs, velur það og hefur áhuga á því sem vinnan felur í sér, áhuga á að ná árangri. Af hverju er það umtalsefni þegar fólk gerir einmitt það?
Og nú finnst mér krimmaafþreyingin flétta þetta í æ meira mæli inn í söguþráðinn sinn. Kannski skjöplast mér samt, kannski er þetta hjá Morse og Derrick og Lewis og Matlock og Wallander og Lizu Marklund og Arnaldi og Yrsu.
Af hverju vandar fólk sig ekki við vinnuna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 3. október 2012
... fara (að (öllu)) með gát ...
Fer maður með gát?
Fer maður að með gát?
Fer maður að öllu með gát?
Ég hallast að því síðasttalda.
Eins og ég segi, almennt séð höfum við farið að öllu með gát þegar kemur að ríkisfjármálunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 2. október 2012
,,Verulega hljóp á skaftið ..."
RÚV eru verulega mislagðar hendur. Hér er frétt sem er búin að vera í hálfan sólarhring á vefnum:
Verulega hljóp á skaftið hjá eyjaskeggjum á eynni Savu í Indónesíu í gær þegar þar syntu á land 44 grindhvalir. Reynt var í morgun að koma þremur hvölum sem enn tórðu aftur út í sjó en íbúar nágrannabyggða hafa skipt með sér kjöti yfir fjörutíu hvala.
Það hleypur á snærið ef maður er heppinn og menn færa sig upp á skaftið ef þeir eru framhleypnir.
Fleira?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 1. október 2012
Barnabætur
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)