Umboðsmaður atkvæða

Biskup Íslands, maður ársins 2012 á Stöð 2, var að enda við að segja í sjónvarpinu mínu að ástæðan fyrir því að kirkjan fékk rúmlega 50% atkvæða, og ekki meira, í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október hafi verið sú að hinn þögli meiri hluti hafi ekki farið á kjörstað til að greiða kirkjunni atkvæði sitt.

Agnes M. Sigurðardóttir hlýtur líka að gera tilkall til þess að kallast umboðsmaður ógreiddra atkvæða.


Tölvan eins árs ...

Ég keypti fartölvuna mína 30. desember í fyrra og hún dugir og dugir. Ég nota hana á hverjum degi en ekki alla daga sem vinnugagn. Meira að segja battaríiið er býsna staffírugt. Er ekki alltaf verið að tala um að líftími þessara nýju tækja sé svo stuttur?

Og það sem meira er, þráðlausa músin sem ég keypti í sömu innkaupaferð er svo ómissandi að það er óskiljanlegt að ég hafi áður látið einhvern pinna á lyklaborðinu duga.

Já, ég held að þetta hafi bara verið gleðilegt ár ...


Ósýnilega þýðingin

Nei, þýðingin á Órólega manninum eftir Henning Mankell er ekki ósýnileg:

Eftir eigið haust kemur annarra vor.

Ég ætla að hringja til hennar og segja henni að láta aldrei aftur í sér heyra.

Fyrri línan er á bls. 294 og sú seinni á bls. 298. Mér finnst fyrri línan flott eins og margar aðrar og ólíkar í bókinni. Seinni línan er margendurtekin í breyttri mynd. En við hringjum ekki til fólks, er það nokkuð? Nei, við hringjum í fólk. Og í málumhverfi mínu er ekki talað um að láta í sér heyra (höra av sig) heldur hafa samband eða láta vita. En í Ósýnilega manninum hringja menn holt og bolt og láta endalaust í sér heyra í 1. persónu.

Annað og ekki betra er að hálf bókin er endurtekið stef um að Kurt Wallander sé orðinn sextugur og farinn að kröftum, úthaldslítill og sjái fram á einmanalega elli.

Að öðru leyti er söguþráðurinn sá að fyrrverandi sjóliðsforingi hverfur og Kurt verður upptekinn af því vegna þess að sá maður er verðandi tengdafaðir dóttur hans. Rannsóknin er ekki í hans umdæmi og þess vegna ber honum ekki að reyna að komast til botns í málinu. En hann vill vita. Samt „reynir“ hann að vera í sumarfríi og fer í langa göngutúra með hundinn sem hann er nýbúinn að fá sér og lætur engu að síður nágrannann passa lon og don. Og hann hefur áhyggur af að hann sé búinn að bíta af sér vinina. Svo hverfur eiginkona sjóliðsforingjans, verðandi tengdamóðir Lindu. Það veldur Kurt hugarangri og svo sefur hann út og hefur áhyggur af að enginn muni vilja umgangast hann þegar hann verður að fara á eftirlaun eftir nokkur ár.

Auðvitað ætla ég ekki að rekja söguþráðinn frekar. Mér hefur oft þótt gaman að lesa Henning Mankell en þessi mikla áhersla á líðan aðallögreglumannsins umfram glæpinn sem á að kryfja skemmdi fyrir. Og meinlokan í þýðingunni létti mér ekki lundina.

Samt alveg gleðileg jól, sko.

Órólegi maðurinn

Segir hver?

Í hádeginu var flutt frétt í ríkisútvarpinu, kennd Kára Gylfasyni: 

virðast fela í sér

Áhöld eru hins vegar um hvort nýju lögin standist stjórnarskrá.

Þetta sé reyndar viðurkennt afdráttarlaust í frumvarpi um nýja stjórnarskrá.

Nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd telja sumir

Þá telur minnihluti umhverfis- og samgöngunefndar

Þá er það mat minnihlutans að málið verði ekki afgreitt

Mat áheyranda, og nú lesanda, sem hefur enga afdráttarlausa skoðun á loftslagslögum eða ESB er að þessi frétt hafi verið kranafrétt. Nefndarmenn, minni hluti eða meiri hluti, eru ekki nefndir með nöfnum. Það er vísað í nýju og gömlu stjórnarskrána. Er ákvæði um framsal og losunarheimild eins í báðum gerðum?

Sendi einn maður frá sér fréttatilkynningu eða skrifaði hann bara á Facebook-síðuna sína? Er einhver fótur fyrir þessari „frétt“?


Jólatiltekt?

Menn keppast við að sannfæra sjálfa sig og aðra um að jólaandinn felist ekki í skápatiltekt, ofurskúringum eða 2007-jólagjöfum, heldur að fjölskyldan hittist, borði góðan mat og eigi saman gæðastund, t.d. yfir spilum. En ef enginn kann að elda, hmm? Gefa menn sér að í hverri fjölskyldu sé að minnsta kosti einn sem getur steikt hrygg, opnað baunadós, brúnað kartöflur, kryddað rauðkál, keypt ís, valið möndlugjöf og vaskað upp? Maður heyrir engan hafa áhyggjur af því.

En ég er alveg pollróleg ...


Að virkja eða ekki að virkja

Ég trúi aðallega á jólasveininn, álfa og tröll enda löggiltur leiðsögumaður. Tjah, eða lærður leiðsögumaður, löggilding tíðkast ekki enn meðal leiðsögumanna nema maður lóðsi menn um slóðir hreindýra eða gefi bátum merki.

Ég trúi ekki sérstaklega á virkjanir eða ekki virkjanir og þótt Hörður Arnarson hjá Landsvirkjun hafi opinberað raforkuverð sem áður var á huldu hef ég aldrei verið alveg sannfærð um - eða trúuð á - að Kárahnjúkavirkjun hafi verið arðbær. Ég held að ég trúi miklu frekar á græna stóriðju, beint frá býli, lífrænar döðlur - og störf í kringum þennan iðnað - en áliðju.

Og nú las ég grein heimamanns um hugsanlega fyrirhugaða virkjun í hinum fátæka Skaftárhreppi. Ég get ekki hrakið eitt orð sem hann segir.

Svo rifjast skyndilega upp fyrir mér þegar brúin yfir Múlakvísl gaf tímabundið upp öndina í hitteðfyrra og ferðaþjónustan á svæðinu grét sáran og sagði: Við töpum milljörðum.

Ef menn tapa milljörðum á því að brú tekur af í eina viku hljóta þeir að græða marga milljarða allar þær vikur sumarsins sem brúin er í lagi.

Ég heyrði líka Grím Atlason tala um Iceland Airwaves um daginn. Sú hátíð er mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið á Íslandi, tónlistarstóriðja. Og undanfarið hef ég svolítið verið í vetrarfjallgöngum. Veturinn í vetur hefur verið einstaklega gjöfull, guðdómleg birta í ferð eftir ferð, svalt og fallegt. Söluvara. Börkur, vinur minn í bransanum, er áskrifandi að norðurljósunum. Söluvara OG seld vara.

Náttúran er nútíðin og framtíðin. Og hugvitsmenn geta búið til sultu úr arfa og fíflum án þess að fórna ferkílómetrum til langrar framtíðar.

Af hverju má ég ekki fá íslenskar gulrætur allt árið?


Vinnutími og framlegð

Það kemur reyndar ekki fram í þessari frétt en ég hef samt ótrúlega oft séð fréttir af því að Íslendingar verji hvað lengstum tíma í vinnunni en framlegðin sé í engu samræmi við það. Það gengur sem sagt lítið undan okkur. Væri ekki nær að hafa vinnutímann styttri og vinnuna skilvirkari? Þurfum við hafa sumar verslanir í smálandinu opnar frá 8-24 og sumar allan sólarhringinn? Væri ekki nær að skrifstofufólk væri átta tíma á dag í vinnunni og væri þá í vinnunni þann tíma en hefði tök á að sinna sjálfu sér og fjölskyldunni að loknum vinnutíma? Jafnvel get ég ímyndað mér að hægt væri að fækka vinnustundum um heila á dag án þess að það kæmi niður á afköstunum.

Jæja, þetta var jólaóróinn í ár.

Go' arbejdslyst!

[Hvernig segir maður það á ylhýra tungumálinu okkar?]

Að lokum legg ég til að við prentum minna. Og minna og minna.


Skiptir byssueign máli?

Ég er ekkert verseruð í Bandaríkjunum og Kanada en les fréttir og reyni að fylgjast með. Mér eru nokkuð minnisstæðar myndirnar hans Michaels Moores og það var líklega í Bowling Columbine sem hann tók viðtal við Charlton Heston og fjallaði almennt um byssueign sem er einmitt mjög almenn í Bandaríkjunum og ekki í Kanada. Í Kanada leyfa menn sér að vera með dyrnar ólæstar og þaðan berast ekki svakalegar fréttir af fjöldamorðum eins og gerðist núna í Connecticut. Í Kanada er ekki sjálfsagt að hafa byssu í náttborðsskúffunni og hanskahólfinu.

Er þá Barack Obama alveg jafnforhertur og hver annar varðandi byssueign í Bandaríkjunum þegar á hólminn er komið? Staðreyndirnar fara ekki huldu höfði, við vitum öll að með byssum má skjóta fólk og það er einmitt það sem fólk gerir að hluta til með byssunum sínum. Og það getur verið banvænt.

Forlátið málæðið. Ég hefði getað látið duga að segja: Upprætið helvítis ofbeldið. „Sometimes you need to be cruel to be kind.“


Berlínaraspirnar > Næturóskin

Ég hef ekki lesið hina frægu seríu eftir Anne B. Ragde. Ég missti af byrjuninni og lét þá seríuna líða hjá, sá ekki þættina og hafði óljósa hugmynd um að hún gerðist í sveitakyrrðinni. Kannski vitleysa. Og nú er komin út ný bók sem heitir Næturóskin - ja, ný og ný, 2009 í Noregi, 2012 á Íslandi - og ég greip hana á bókasafninu. Hún er fljótlesin, það vantar ekki, en hún var svo skrýtin. Hún er trúlega skyld gráum tónum þótt ég hafi ekki lesið þá bók en ég átti von á einhverju öðru.

Ingunn getur ekki fest ráð sitt, óttast ekkert meira en höfnun þannig að hún þarf alltaf að vera fyrri til að slíta ástarsamböndum. Henni vegnar vel í vinnu, er fjárhagslega á grænni grein, borðar hollt en drekkur eins og bilaður vaskur og ráðskast með fólk í kringum sig.

Er hún vansæl? Eða er þetta nútímakonan sem hefur fullkomna stjórn á tilfinningunni sem skeytir hvorki um orð né eiða?

Næturóskin

Ja, ég veit bara að ég get ekki tekið undir umsagnirnar sem vitnað er til. Sérstaklega þóttu mér samtölin frámunalega stirð og allra helst þegar barnið talaði.


Úr Nemesis eftir Jo Nesbø

„Og hvernig komst hann þá undan?“

„Með þessu.“ Waaler benti á símann í holinu. Á tólinu voru för sem litu út eins og blóð.

„Þú átt við að hann hafi sloppið héðan símleiðis?“

(bls. 361)

Ég er oft búin að skella upp úr við lesturinn á bókunum um Harry Hole. Því miður er ég búin með Rauðbrysting og Nemesis en ég á Djöflastjörnuna eftir. 


Jólaandinn á fimm mínútum


Geðveik jól 2012

Ef minn vinnustaður myndi bresta í söng og myndband út af geðveikum jólum 2012 myndi ég glöð syngja með í öllu mína háværa lagleysi. En það væri samkeppni ...

Upplýsingar eða skortur á þeim

Aðalsjónvarpsrásin þessa dagana er Alþingisrásin. Mikið vildi ég að það kæmi fram í útsendingunni hvað ræðan má vera löng hverju sinni og hversu mikið er eftir af gefnum tíima. Helst sem stundaglas.

Ég er ekki að grínast.


Rétthugsun

Nú þarf ég aðeins að hugsa málin og reyna bæði að stíga út fyrir minn þrönga heim og þægindarammann.

Uppáhaldsþátturinn minn í útvarpinu hefur verið sleginn af vegna óviðurkvæmilegs viðtals. Þótt ég hafi mikið dálæti á Harmageddon næ ég frekar sjaldan að hlusta því að hann er kl. 15-17.30 virka daga, en ég næ góðum bútum svona tvisvar til þrisvar í viku. Sumt finnst mér sossum hundleiðinlegt hjá Mána og Frosta, sérstaklega þegar þeir tala lengi og mikið um íþróttir, t.d. knattleik eins og mig minnir að Máni kalli fótbolta.

Það sem Máni og Frosti gera vel er að ýta alls staðar á mörkin, í pólitík og trúmálum mest sem ég hef heyrt. Stundum eru þeir líka með svo brjálæðislega fyndin leikin atriði sem ég hélt að væru ekki leikin meðan ég vissi ekki betur. Mér er ennþá minnisstæðast þegar annar þeirra hringdi inn og þóttist vera venjulegur bílisti sem hefði lagt í fatlað stæði við Kringluna því að hann þyrfti að komast í ÁTVR og fannst að fatlaðir gætu vel lagt í önnur stæði, það væri nóg af þeim. Og nú þyrfti þessi sem hringdi inn (var líklega Frosti) að borga 10.000 fyrir stöðubrot.

Ég lá í kasti yfir þessu (hljóð)broti á sínum tíma.

Í síðustu viku léku þeir sér með Schengen og annar þóttist halda að framburðurinn væri Skengen. En aðalefnið var svo sem hvort útlendingar fengju að koma óhindrað yfir landamærin eða ekki.

En að efni máls, femínismanum og viðtalinu við SirMills sem ég einmitt heyrði á rauntíma. Mér þótti það bjánalegt og svo gleymdi ég því. Af hverju var mér ekki misboðið? Meintur listamaður var ögrandi og hreinlega hallærislegur og ég átti svakalega auðvelt með að leiða hjá mér það sem hann þóttist standa fyrir. En þar stendur kannski einmitt hnífurinn í kúnni. Ég get áttað mig á þessu en, hvað á maður að segja, óharðnaðir unglingar, ungar konur kannski, geta tekið svona meiningar nærri sér. Að vonum. Þannig að ég held að Harmageddon hafi ekki veitt af að fá áminningu. Stærsti hópurinn sem hlustar er trúlega fólk sem á ekki að þurfa að hlusta á „listamann“ eins og SirMills - þótt ég skilji þetta sem ádeilu eða arfalélegan brandara.

Og þetta leiðir mig aftur að Hraðfréttum sem mér þykja skemmtilegar. Símaauglýsingin, rödd símafyrirtækisins og allt það fór gjörsamlega framhjá mér sem dulin auglýsing en kannski verð ég samt fyrir áhrifum (ég er mjög meðvituð um að versla allajafna við litla samkeppnisaðilann) og þótt ég verði kannski ekki fyrir áhrifum er ástæða til að vera á varðbergi gagnvart dulbúnum auglýsingum.

En svo skil ég ekki hvernig stendur á því að lögmaður sem núna er kominn í afgerandi þingframboð getur svarað játandi í útvarpinu (mig minnir Harmageddon) spurningunni: „Ef skjólstæðingur þinn er sekur, hann veit það og þú veist það, en hann heldur að hann geti komist upp með það, segirðu honum þá að ljúga, að hann hafi ekki gert það sem borið er á hann?“ án þess að allt fari á annan endann. Er sem sagt viðurkennt að „besta vörnin“ sem allir eiga rétt á feli í sér að bæði sakborningur og lögmaður hans ljúgi, t.d. til um ofbeldisglæp eða auðgunarbrot, ef sá seki er líklegur til að sleppa við refsivöndinn?

Af hverju er það viðurkennt?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband