Þriðjudagur, 28. ágúst 2012
Rútuferðir og hausatalningar
Eftir að farþeginn týndist í Eldgjá um helgina hefur mikið verið skrafað um vinnubrögð leiðsögumanna, fararstjóra og bílstjóra. Ótrúlega margir hafa gargað sig hása og gagnrýnt þann sem ber ábyrgðina. Ég held að fæstir viti um hvað þeir eru að tala og ég þykist hafa sannreynt það á rölti mínu í dag. Sumt fólk heldur til dæmis skilyrðislaust að alltaf séu nafnalistar í för þegar hópferðabílar fara út úr bænum.
Nei, í áætlunarferðum með til dæmis Kynnisferðum og Allrahanda er allt eins fólk sem kaupir sig í ferðina rétt áður en hún hefst. Í stoppunum er bílstjórinn bara með fjöldann. Þarna einu sinni taldi einn bílstjóri vitlaust og ótrúlega margir dæma hann, alla bílstjórastéttina og gott ef ekki ferðaþjónustuna eins og hún leggur sig.
Já, ég pirraði mig yfir þessu í dag og þá fékk ég að heyra: En þetta er svo fyndið.
Ég get rifjað upp írafárið sem varð þegar hundurinn Lúkas hvarf og fjöldi fólks veittist að hugsanlegum geranda. Ég get líka rifjað upp þegar ég ætlaði að ganga á Fimmvörðuháls fyrir rúmu ári, vindurinn snerist, við létum vita af okkur, björgunarsveit var ræst, við létum aftur vita af okkur og við fengum nett samviskubit yfir að hópi manna hefði verið gert rask. Björgunarsveitir vinna frábært starf og eiga ekkert nema hrós og virðingu skilið - en stundum verður mönnum á.
Mér finnst ekki svona fyndið þegar fólk gefur sér algjörar staðleysur og reynir ekki að velta fyrir sér hinu sanna í málinu.
Nei, þá vil ég heldur hlæja að einhverju skemmtilegu. Andsk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 27. ágúst 2012
Þegar rútufarþegi týnist
Í fyrsta lagi vantar heilmargt í fréttina af konunni sem týndist um helgina. Var leiðsögumaður/fararstjóri í för? Ég held ekki. Var nafnalisti? Ég held ekki. Taldi bílstjórinn? Já, ég er sannfærð um það. Taldi hann vitlaust? Já, ég geri fastlega ráð fyrir að mistökin liggi í rangri talningu.
Ef þetta var áætlunarferð, eins og ég gef mér að svo stöddu, þarf bílstjórinn að vita hversu mörgum hann hleypir út við Eldgjá og telja sama fjölda í bílinn. Allt gáfaða fólkið sem æsir sig í athugasemdakerfinu hugsar ekki út í allan þann fjölda skipta sem bílstjóri/leiðsögumaður telur rétt og gætir þess að fólk komist heilt á húfi til baka.
Ég vorkenni fólkinu sem þurfti að bíða, ég vorkenni því að leita að engum og vera í óvissu, ég hef mjög mikla samúð með björgunarsveitunum sem leituðu að óþörfu en ég veit að á móti þessu skipti er ótölulegur fjöldi ferða sem endar áfallalaust af því að fólk vinnur vinnuna sína vel.
Skipti konan um föt? Ha? Vissi hún að hópurinn væri að leita að sér? Ha?
En blaðamaðurinn, hvernig vinnu vann hann þegar hann skrifaði fréttina? Hvaða upplýsinga leitaði hann? Ekki nægra fyrir minn smekk. Lá honum á? Örugglega. Örugglega stóð einhver yfir honum og rak á eftir. Engu að síður er niðurstaða mín að það vanti meira í þessa frétt en það sem sagt er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 23. ágúst 2012
Þýðing skiptir svakalegu máli
Og þessi texti hér úr þýðingu á sænskri sakamálasögu er mér ekki að skapi:
Samkvæmt því sem einn þeirra sem ég hef talað við heyrðust sérkennileg hljóð í húsinu á næturnar?
Stafrétt. Og það er meira af slæmu í þessari bók.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 21. ágúst 2012
Töskugjald hjá Icelandair
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 20. ágúst 2012
Smáhelvítislán
Mér finnst ég ekki þurfa að rökstyðja andúð mína á smálánum sem gera út á neyð fólks og bera miklu meira en glæpsamlega okurvexti.
Djö.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 15. ágúst 2012
Virðisaukaskatturinn úr 7% í 25,5%
Umræðan um hækkun verðlags í ferðaþjónustu hefur verið hávær síðustu dagana. Ég hef á tilfinningunni að margir hafi hátt án þess að þekkja vel til.
Hótelrekendur segja að gisting í tveggja manna herbergi muni hækka um 17%, úr rúmlega 21 þúsundi í tæp 25 þúsund. Ég myndi vilja vita hver skattstofninn er, þ.e. hvaða liður hækkar svona mikið. Þegar gistiverð er reiknað út hlýtur að koma inn í stofnkostnaður, þ.e. kaupverð og/eða lán, og svo rekstrarkostnaður, hiti, rafmagn, þrif, efni og laun, og mig langar að vita hvar hækkunin verður. Fara tæpar 4 þúsund krónur af hverri gistinótt í ríkissjóð? Kemur eitthvað af upphæðinni fram í launum hótelstarfsmanna? Þau eru fáránlega lág og hafa lengi verið. Þau eru samt skattstofn því að menn borga tekjuskatt.
Mér finnst óverjandi að hækka skatt fyrirvaralaust því að auðvitað eru menn búnir að selja inn á næsta ár í einhverjum mæli, e.t.v. miklum, en að öðru leyti finnst mér vel athugandi að hækka þetta gjald. Hins vegar gæti vantað meiri breidd í gistimöguleika, og ekki bara í átt að meiri lúxus.
Ég er leiðsögumaður en mér hefur aldrei fundist sem Samtök ferðaþjónustunnar ynnu fyrir mig, hvorki persónulega fyrir stéttina mína né fyrir fagið. Það eina sem ég verð vör við er kvein þegar þau halda að verið sé að þrengja að einhverjum einstaklingum í faginu. Það er tilfinningin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 14. ágúst 2012
Camilla Läckberg - Ástandsbarnið
Það er góð skemmtun að vera í sumarfríi og geta legið í bókum. Ég ákvað að gefa Camillu annað tækifæri eftir að hafa jesúsað mig í bak og fyrir eftir Ísprinsessuna sem ég las fyrir sex árum.
Ástandsbarnið minnir dálítið á Grafarþögn eftir Arnald (nei, ég er ekki að segja að annað hafi stolið frá hinu) og skilaboðin eru skýr: Forðumst stríð.
Ég hef aldrei verið vinur stríðs og vopnaburðar en manni er hollt að heyra aftur og rifja upp þær helvítis hörmungar sem stríð leiðir yfir fólk. Af hverju geta menn ekki lifað í sátt og samlyndi?
Andsk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 11. ágúst 2012
407 milljónir
Það yrði mér ofviða að borga allan hallarekstur Hörpu og það þótt við tölum bara um eitt ár, 407 milljónir króna, en ég man ekki betur en að einstaklingar eða fámenn fyrirtæki hafi á undanförnum mörgum árum fengið afskrifaða milljarða. Einstaklingar hafa fengið árlegan taprekstur Hörpu til láns mörgum sinnum og ekki verið borgunarmenn fyrir láninu.
Þegar hin ógurlega skuldastaða Hörpu kemst til tals fæ ég á tilfinninguna að ekki sé einu sinni talið henni til tekna að hún hefur kannski aukið og mun kannski auka ferðamannastrauminn sem menn vilja svo gjarnan auka. Tekjur ferðaþjónustunnar eru ekki alls staðar beinar heldur einmitt óbeinar. Fleiri tónlistardiskar eru seldir, fleiri hringferðir, meiri hótelgisting, meiri ís, fleiri flugferðir koma til vegna þess að menn komast hingað á ráðstefnur og segja frá heima hjá sér.
Hversu margir kaffibollar eru seldir ferðamönnum? Eða hversu margir skammtar af skötusel sem ég þreytist ekki á að mæra við mína túrista? Seeteufel, ljótur en svo dásamlega bragðgóður.
Þessir útreikningar eru ekki allir einfaldir en væri ekki hægt að hætta við að afskrifa hjá einu sjávarútvegsfyrirtæki og hætta að væla yfir taprekstrinum á Hörpu? Hins vegar trúi ég á betri rekstur og minni halla, t.d. með því að slökkva ljós og prenta færri efnisskrár fyrir ruslafötuna. Þetta er bara gisk út í sortann, ég þekki ekki reksturinn á Hörpu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 10. ágúst 2012
Hans í Koti - Helgi hvíti
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. ágúst 2012
Ferstikla - fullt hús
Get ekki látið undir höfuð leggjast að hæla Ferstiklu. Ég kom þar við í dag sossum fyrir tilviljun. Vertinn stóð í gættinni og sló á létta strengi. Fyrir utan er mynd í raunstærð af langreyði og inni eru bæði ljósmyndir og kvikmyndir í gangi. Allt var svo snyrtilegt að túristarnir mínir frá Þýskalandi dásömuðu staðinn hátt og lágt. Í hjónabandssælunni var heimagerð rabbarbarasulta unnin úr rabbarbara á næstu grösum. Og Hvalfjörðurinn var aukinheldur svo vinsamlegur að skarta sínu fegursta áður en það byrjaði að rigna (í Borgarfirði).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 7. ágúst 2012
Vegagerð - forgangsröðun
Í dag keyrði ég upp að Laugarvatnshelli/-hellum á því almesta þvottabretti sem um getur. Það var ekki viðlit að heyra mannsins mál. Áfangastaðurinn er merktur sem merkilegur en vegurinn er hvorki heflaður né vatnsborinn. Seinna í dag keyrði ég svo framhjá Raufarhólshelli (sem hefur verið leyndarmálið mitt) og þar er verið að merkja og verandarleggja í bak og fyrir.
Í gær sá ég á Snæfellsnesi að búið er að leggja timburstíg á tvo vegu í kringum Djúpalón (sem mér finnst óþarfi).
Forgangsröðunin í ferðaþjónustu er stórskrýtin. Það þýðir ekki að stefna á milljón ferðamenn ef þeir eiga allir að hokra á sömu þúfunni og hún ekki einu sinni steypustyrkt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 6. ágúst 2012
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull
Snæfellsnesið er tiltölulega lítið sótt. Það var fjarskalega heppilegt í dag þegar ég fór hringinn með 27 þýska túrista. Vissulega voru nokkrir á gönguleiðinni milli Arnarstapa og Hellna og ýmsir við Djúpalón en hvergi bið eftir afgreiðslu eða þung umferð á vegunum.
Ég fór í Kaffi Prímus með þau í hádeginu og þar var ljómandi gott að koma. Gestastofan við hliðina styður náttúrlega vel við því að þar er líka frábær myndasýning. Verra var að geta ekki lagt rútu þar en mér skilst að bílastæðamál standi til bóta.
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður 2001 en núna eru allt í einu komnar alls kyns góðar merkingar, t.d. tengdar Bárði Snæfellsási og svo er búið að merkja Þúfubjarg. En mér til depurðar var búið að breyta niðurgöngunni að Djúpalónssandi (sem ég hef yfirleitt kallað Dritvík í asnaskap mínum) þannig að sumir farþega minna misstu af aflraunasteinunum.
Passa mig betur næst ... nema ég verði ekki send á Snæfellsnesið fyrr en ég er tryggilega búin að gleyma öllu því nýja sem ég lærði í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 5. ágúst 2012
Lundar í Dyrhólaeyju
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 1. ágúst 2012
Leiðsögumenn og dagpeningar - eða ekki
Netútgáfa DV er ekki sú sama og prentútgáfa. Ég er bara búin að sjá þá skemmri um frían mat handa leiðsögumönnum og þykist vita að það vanti helling í fréttina sjálfa.
Sem leiðsögumaður vildi ég allra helst að svona umræða leiddi til frjórri umræðu um þessi mál almennt. Af hverju fá leiðsögumenn ekki dagpeninga þegar þeir eru langt að heiman og kaupa matinn sinn sjálfir? Hversu mikið er um að leiðsögumenn hafi pissustopp þar sem ekkert er skilið eftir annað en óþrifnaður? Ég hef ekki sagt við mína farþega sem fara ókeypis á klósettið hingað og þangað að það sé kurteisi að kaupa eitthvað í staðinn en reynsla mín er að þeir geri það. Og ég veit að sumir leiðsögumenn vekja athygli á þessu. Það er vel. Af hverju ætti sjoppueigandi að vilja fá 30 pissandi túrista sem vinka í þakklætisskyni? Vildir þú vera í sporum þess manns?
Á mörgum fundum í Félagi leiðsögumanna eru klósettmál rædd af því að það er hluti af grunnþörfum fólks að koma frá sér umframefni. Víða erlendis er rukkað fyrir klósettferðir enda þarf að kaupa pappír og hreinsiefni, borga rafmagn og laun - og þetta er ekki vinsælasta starfið í stéttinni.
Ég stoppa aldrei með farþega mína einhvers staðar af því einu saman að ég fæ eitthvað í staðinn. Ég sver það. Þótt launin séu lág finnst mér þetta ekki leiðin til að heyja kjarabaráttu. Þetta er þjónustuhlutverk og þegar starfið fer að snúast um mig fer ég annað. Og ég hef samt ríka stéttarvitund.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)