Á Sprengisandi

Þorsteinn Pálsson hrósar Jóhönnu Sigurðardóttur í hástert í útvarpinu núna og helst fyrir það að hafa fært Samfylkinguna langt til vinstri.

Er hann að hrósa henni eða vakir eitthvað annað fyrir honum?


Matreiðsluþættir í sjónvarpinu

Tíska til fjögurra ára er að sýna matreiðsluþætti í sjónvarpinu og ganga á hæðir og hóla. Er kannski lengra síðan það byrjaði?

Ég elti rakleiðis, er komin í fjóra gönguklúbba, suma m.a.s. virka, og finnst þetta alveg málið. Hins vegar kunni ég aldrei að meta þættina hennar Nigellu og skildi ekki af hverju ég átti að heillast af þessum forljótu réttum sem voru þar að auki óhollir fyrir allan peninginn.

Nú er Hrefna Sætran með ávaxtaþátt í sjónvarpinu mínu og ég undrast stórlega myndatökuna. Svo sýður hún rjóma, hellir yfir súkkulaði og hjúpar jarðarber - ha, er það einhver kúnst?

Þegar Völli var með þáttinn sinn um daginn heyrði ég fólk pirra sig á því að hann talaði ensku og hvernig hann talaði hana, sumum fannst hann meira að segja tala frekar ísl-ensku. Ég tók ekki eftir því, heyrði bara þegar þátturinn var kynntur í vitlausu eignarfalli ...

Æ, ég ætlaði bara að skrá hjá mér að í dag er dagurinn sem forsætisráðherra kynnti brottför sína úr stjórnmálum á vordögum.


Tvær milljónir erlendra ferðamanna á ári eftir örfá ár?

Alls konar spádómar um fjölgun ferðamanna. Alls konar hrakspár um fækkun ferðamanna. Alls konar marklausar og tilviljanakenndar getgátur.

Og hvernig ætlum við að anna tvöföldum skammti innan 10 ára ef við eigum fullt í fangi með að anna umferðinni eins og staðan er með 881.915 farþega um Keflavíkurflugvöll á síðasta ári?

Eins gott að ég fletti upp á vef Hagstofunnar, ég hafði dregist aðeins aftur úr ...


Þáttur hins sjúka

Laun og önnur kjör heilbrigðisstarfsmanna hafa verið til umræðu, álag á starfsfólkið, samheitalyf, almennur sparnaður og það hvort rétt sé að draga ætlaða launahækkun til baka.

Í hádeginu komst til tals í litlum hópi hvort næg umræða væri um hvernig kostnaði hefur verið velt yfir á þá sem þurfa á þjónustunni að halda. Það eru meiri brögð að því núna að fólk er látið koma seinni partinn til að fá þjónustu, síðan fer það heim - með tannburstann sem það tók með sér í þeirri trú að það ætti að leggja það inn - og látið koma daginn eftir. Í bæði skiptin þarf hinn sjúki að borga komugjald en ef hann hefði verið lagður inn hefði hann ekki borgað beint, bara í gegnum skattana.

Ég er svo illa verseruð í þessum fræðum að ég veit ekki hvenær þetta ágerðist en þáttur sjúklinga í rekstri heilbrigðisþjónustunnar er orðinn ríkari en hann var.

Er það velferð?

Sjálf get ég ekki kvartað þar sem mér verður eiginlega ekki misdægurt.


Sænsku vinirnir

Norrænt sjónvarpsefni kemst æ ofar upp á pallborðið hjá mér. Samt uppgötvaði ég ekki „Líf vina vorra“ fyrr en sex eða sjö þættir voru búnir. Og nú er sá tíundi, síðasti, búinn og allt safnið horfið úr sarpi Ríkisútvarpsins.

Karlarnir voru skemmtilegir, tilfinningaríkir, litskrúðugir og hrikalega hlýlegir. Meira svona norrænt gæðaefni, takk. Ég trúi á svona breyskt fólk.


Broen í kvöld

Áhugasamir sem hafa samt ekki haft rænu á að horfa á dansk/sænska þáttinn Brúna geta enn horft á hann frá upphafi á vef RÚV. Ég myndi vilja láta minna mig á ...

Þjóðaratkvæðagreiðsla 20. október

Mikið verður spennandi að fá meiri upplýsingar um þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrárfrumvarpið. Rúmur mánuður til að ákveða hvernig maður greiðir atkvæði.

Skandinavískt úrvalsefni

Nú er Våra vänners liv í sjónvarpinu, sænskt gæðastál. Fyrir utan tilbreytinguna frá enskumælandi efni sem manni er oftar en ekki boðið upp á er alveg eftirtakanlegt hvað herrarnir klæðast í mikla liti.

Gaman.

Miklu skemmtilegra en að fylgjast með rifrildi um gistináttagjald á hótel þótt mér komi það mál við.


Kröpp lægð og svæsinn vindur

Maður man svo sem varla gærdaginn en ég man sannarlega ekki eftir 10. september á hjóli í miðbænum í svo miklum vindi að ég þurfti að hjóla af krafti niður í móti. Svo fauk ég heim úr vinnunni upp í móti en allt af hjólinu og ég þurfti að hlaupa á eftir uppskriftum og mangóávöxtum og á meðan fékk hjólið eina byltuna enn.

Björgunarsveitir eru úti um allar þorpagrundir að bjarga fólki, fé og þakplötum og ég vona að við verðum ekki búin að gleyma því þegar eina fjáröflunin hefst með flugeldasölu í lok árs.

Segi bara svona af því að ég man ekki gærdaginn sjálf ...


Með strætó á Sauðárkrók

Þangað til annað kemur í ljós hef ég miklar efasemdir um að það hafi verið skynsamleg ákvörðun að skipta Sternu út fyrir Strætó.

Af hverju fer lélegt almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins út á land þar sem reksturinn virðist hafa verið í góðu lagi?

Má núna standa í marga klukkutíma?

Ég var að skoða heimasíðu Strætós, fann meinta gjaldskrá en get ekki séð hvað það kostar mig að taka almenningsstrætisvagn til Sauðárkróks. Þegar ég smelli á reiknivél fyrir svæðið fæ ég upp excel-skjal þar sem fyrst er gengið út frá 17 gjaldsvæðum (þar getur maður breytt en ekki áfangastaðnum og fundið út fjölda gjaldsvæða). Þá er stakt gjald 5.950 krónur og fyrir þriggja mánaða kort á maður að borga 297.500 kr. Fyndið, ekki satt? Gerir þá fyrirtækið Strætó ráð fyrir að maður fari aðra leiðina eða fram og til baka daglega? Og verði kannski í strætisvagninum á hverjum einasta degi í marga klukkutíma? Væri ekki nær að vera með rauntíma-eitthvað?

Mikið svakalega held ég að fyrirtækið Strætó þurfi að sanna sig til að ég og um það bil allir sem ég þekki og nota almenningssamgöngur trúi á breytinguna.


Hvernig virkar Gegnir?

Segjum að mig langi til að sjá hvaða bækur Jos Nesbøs í íslenskri þýðingu eru inni. Þá fletti ég honum upp í Gegni og fæ umsvifalaust 100 færslur en get ekki fundið þær sem eru á tilteknu tungumáli. 

Eða sést mér yfir eitthvað? Mér sýnist ítarleitin ganga út á að hafa „og“ og „eða“ eða „og“ eða „eða“.


- postordrekatalogerne -

Atarna (í fyrirsögninni) var skemmtileg smágáta í dönsku þýðingunni á norska krimmanum sem ég er að lesa.

Síðar var þessi sögulega speki úr síðari heimsstyrjöldinni:

„Hvorfor flyttede I hjem fra USA?“ spurgte Daniel.

„Børskrakket. Min far mistede sit arbejde på skibsværftet.“

„Der kan du se,“ sagde Daniel. „Sådan er kapitalismen. Småkårsfolkene slider, mens de rige bliver federe, uanset om det er opgangstider eller nedgangstider.“


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband