Himnaríki og helvíti

Sá þriggja tíma sýningu í Borgarleikhúsinu og leiddist aldrei. Frábært leikaralið, vel hönnuð sviðsmynd og svo auðvitað hin magnaða saga Jóns Kalmans Stefánssonar. Við sátum á 2. bekk sem var helsti gallinn, sérstaklega hjá mér sem sá hnakka mannsins á 1. bekk fullvel nema ég æki mér í sætinu, en á móti sá ég þegar B. kólnaði illilega á sviðinu. Ég sver það, hann króknaði fyrir augunum á mér.

Farið bara.


Faðirinn í Kassanum

Stóri bróðir minn fór að sjá Föðurinn í leikhúsinu og var yfir sig hrifinn. Gott ef hann gaf honum ekki 10 af 10 þannig að ég var dálítið efins. Samt fór ég og varð líka yfir mig hrifin. Ég er þegar búin að blaðra í nokkra af hverju en ef mínir fimm dyggu lesendur eiga eftir að sjá sýninguna vil ég ekki spilla upplifuninni. Læt þó eftir mér að segja að mér fannst sýningin eftir hlé betri sem ég held að helgist af því að ég þekki ekki vel sjúkdóminn alzheimer ...


RÚV vs einkareknir fjölmiðlar

Er ekki undarlegt að einn fjölmiðill, þótt góður sé og ég hlusta mikið á, fái árlega marga milljarða á fjárlögum OG sé á auglýsingamarkaði? Ég veit að heilbrigð samkeppni á erfitt uppdráttar á Íslandi vegna fámennis en ég efast um að látið hafi verið reyna á. Nú stíg ég sjálfsagt í spínatið af því að ég veit ekki um laun allra, viðhaldskostnað allra tækja, rekstrarkostnað húsnæðis o.s.frv. en ef fjölmiðlun á að vera frjáls, þ.m.t. blaðaútgáfa, verða miðlarnir að sitja við sama borð.


Kirkjan vs heilbrigðiskerfið

Hefur kirkjan sem stofnun einhvern tímann talað um að hún hafi ekki nægt fé til að reka sig, halda við húsum og borga þjónunum laun?

Hefur Landspítalinn sem stofnun einhvern tímann talað um að hann hefði ekki nægt rekstrarfé?

Við vitum svörin.

Hversu margir þurfandi hafa ekki fengið þjónustu hjá kirkjunni?

Hversu margir þurfandi hafa þurft að bíða lengi eftir þjónustu lækna eða annars hjúkrunarfólks?

 


6,5 milljarðar

Á bls. 256 í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 sýnist mér liðurinn „trúmál“ fá 6,5 milljarða og leyfi mér að giska á að obbinn fari til þjóðkirkjunnar sem biskupinn stýrir víst af stöku ráðleysi. Er ekki kominn tími til að taka til?

Getum við ekki verið sammála um það?

Eða var því kannski breytt daginn fyrir áramót?


Læf of Pæ

Nei, sagan hefur verið þýdd sem Sagan af Pí, m.a.s. á vef Ríkisútvarpsins. Þess vegna finnst mér ótækt að þulur ríkissjónvarpsins hafi kynnt myndina sem Life of Pi og þar að auki sagt að hún hafi hlotið fjögur verðlaun. Hvort tveggja skar í eyrun. Hefði hún getað hlotið eitt, tvö eða þrjú verðlaun? Nei, verðlaun er fleirtöluorð.

Og hananú.


Einkavæðum þjóðkirkjuna

Ég trúi meira á álfa og tröll en hinn eina sanna spekúlant á himnum og allra minnst trúi ég á kirkjujarðir sem ríkið á enn að vera að borga kirkjunni leigu af. Og ég viðurkenni að ég trúi alls ekki að biskupinn verðskuldi hækkun umfram hjúkrunarfræðinga.


Hver á ,,réttan íslenskan rithátt"?

Ég er ekki fyrst til að hafa orð á þessu, ég veit, en mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna íslenskar orðabækur eru ekki aðgengilegar öllum á netinu. Nú er ég með svokallaðan gestaaðgang að Snöru sem er ágæt orðabók en ef ég ætla að opna hana í öðrum vafra en ég setti hana upp á telst það nýr aðgangur og mér er boðið að kaupa svona aðgang:

Hversu mörg tæki má bjóða þér?
3 tæki fyrir 624 kr. á mánuði
4 tæki fyrir 817 kr. á mánuði
5 tæki fyrir 995 kr. á mánuði
6 tæki fyrir 1.158 kr. á mánuði
 
Af hverju ætti ég að þurfa að kaupa aðgang að íslenskri orðabók fyrir mörg þúsund á ári? Sumt virkar betur í Chrome og annað í Torch. Svo er Safari í spjaldinu. Ég er alveg til í að borga fyrir orðabækur í sjálfu sér en þetta flækjustig gerir það að verkum að fólk gáir síður að „réttum“ rithætti.
 
Ég er gröm -- en núverandi ríkisstjórn ætlar að gera menntun hærra undir höfði. Ég bíð spennt.

Gjalddagi -- merking

Fyrr á árinu varð ég fyrir tjóni sem tryggingafélagið borgaði að hluta en ég þurfti að borga að hluta. Gott og vel. Í gær, 6. desember, opnaði ég heimabankann og sá reikning frá tryggingafélaginu með GJALDDAGA 16. nóvember og EINDAGA 16. desember. Reikningurinn var mögulega kominn í heimabankann um mánaðamótin en sannarlega ekki 16., 17., 18. eða 19. nóvember.

Ég hringdi í tryggingafélagið til að fá botn í skuldina (vatnstjónið varð í apríl og ég hélt að tryggingin hefði dekkað það þannig að skuldin kom mér í opna skjöldu) og stúlkan stóð í þeirri meiningu að gjalddagi væri dagurinn þegar reikningurinn væri gefinn út. Því ber ekki saman við minn skilning sem er sá að gjalddagi sé dagurinn sem maður á að greiða reikninginn án aukakostnaðar en með eindaga fær maður aukafrest með litlum aukakostnaði, stundum engum.

Snara er sammála mér.

gjald·dagi

-a, -ar KK viðsk./hagfr.
sá dagur þegar gjald verður kræft, síðasti dagur til greiðslu skuldar án dráttarvaxta e.þ.h.
greiddi afborgunina á gjalddaga
falla í gjalddaga verða gjaldkræfur
 

ein·dagi

-a, -ar KK
gjalddagi
síðasti dagur sem hægt er að greiða skuld án þess að á hana falli dráttarvextir eða annar kostnaður
vera kominn í eindaga með e-ð vera orðinn seinn fyrir með e-ð
 
Miðað við orðabók er verið að flækja málin að óþörfu en gjalddagi er sannarlega ekki útgáfudagur. Reikningurinn á að hafa borist manni fyrir gjalddagann. Punktur.

Sundhöll Reykjavíkur -- 2017

Ég var lengi búin að hlakka til að fá útisundlaug í hverfið og dreif mig áðan í skoðunarferð. Fyrsta mat: Skemmtileg, falleg og frábær viðbót við það sem við höfðum. Alltof lítil samt. Aðeins fjórar sundbrautir og grunni endinn er svo grunnur að maður þarf að passa sig. Heiti potturinn ílangur eins og í Nauthólsvík og sætin góð (maður er ekki á fleygiferð eins og í sjópottinum í Laugardalnum) en helst til stutt á milli hliðanna. Ég teygði aðeins úr mér og gaf umsvifalaust ókunnugum manni undir fótinn.

En kannski þjónar hún fyrst og fremst sem busllaug með sólbaðsaðstöðu því að laugin mun umfaðma sólina á sólardögum og ég er alveg sátt við það.


Helgi í Góu

Hann stendur fyrir síðunni Okkar sjóðir. Óbilandi áhugamaður um bætt kjör aldraðra og ekki vegna þess að hann er sjálfur kominn á efri ár. Við erum með aragrúa illa rekinna lífeyrissjóða sem hafa steingleymt hlutverki sínu. 

Ég skora „á lífeyrissjóðina að fjárfesta í byggingu mannsæmandi húsnæðis fyrir aldraða sem uppfyllir sanngjarnar kröfur um þægindi og einkalíf“.

Sterk auglýsing og meðmæli með því að leyfa fólki að fylgjast að til loka.


Robert Mugabe er orðinn 93!

Ég veit, ég er ekki með nýjar fréttir. Þær eru frekar frá 1924. En hvernig í veröldinni stendur á því að háaldraður maður neitar að hætta afskiptum af stjórn lands þótt stór hluti landsmanna vilji það? ÓRG er þó ekki nema 74 og Angela Merkel 63 ...


Hraðferð á Skagann

Ég á foreldra í sömu stöðu og Þórhalla Karlsdóttir er í. Pabbi er 96 ára, skýr í kollinum og með flest líffæri í góðu lagi en farinn að tapa heyrn, er með lélega húð og valtur á fótunum. Hann fór á Landspítalann í ágúst af því að hann datt illa, þaðan á Landakot og er nú á Vífilsstöðum, búinn að vera í tæpa viku. Hann er með umsókn um dvöl á elliheimili sem guð veit (ef yfirleitt) hvenær hann kemst á.

Mamma datt illa á hnakkann 28. október og hefur síðan verið á Landspítalanum.

Þeirra heitasta ósk er að fá að vera saman á elliheimili. Okkar systkinanna heitasta ósk er að uppfylla þeirra heitustu ósk en þangað til mamma datt var okkur sagt að það væri enginn möguleiki að hún fengi vistunarmat.

Mér finnst þetta ómannúðlegt. Það hefur ekki með stjórnarmyndun að gera núna eða hina um daginn, ekki síðustu stjórn, ekki þarsíðustu, ekki landlækni per se -- en auðvitað snýst það um ákvörðun einhverra að borga svo illa fyrir umönnun aldraðra að ekki fæst nógu margt fólk og tollir svo ekki það sem þó starfar á spítölum. Flest það hjúkrunarfólk sem hefur sinnt þeim síðan í sumar er gott fólk, snúningalipurt og peppandi. En nú eldumst við óðfluga og það verður að manna hjúkrunarheimili og það verður líka að fjölga þeim.

Mér finnst blóðugt að fólk á tíræðisaldri sé aðskilið vegna ellisjúkleika sinna. Getum við ekki öll verið sammála um að það ætti ekki að vera flókið að leyfa gömlu fólki að eiga áhyggjulaust ævikvöld?


50% atvinnuleysi?

Ég var að horfa á kosningaþátt Stöðvar 2, stórkostlegt sjónvarpsefni. Ein hugsun sem ég tek með mér inn í kvöldið er sú um fjórðu iðnbyltinguna. Ef störf úreldast vegna þess að tækninni fleygir fram -- hefur fleygt fram -- er þá ekki upplagt að vinnudagurinn verði fjórir tímar; vinnuvikan 20 tímar hvernig sem þeim er deilt á dagana? Hverjar eru grunnþarfirnar? Að hafa mat og til þess þurfum við framleiðslu. Að hafa húsnæði og til þess þurfum við alls kyns þekkingu, sem sagt kennara og menntun. Hvað annað? Samgöngur? Ég meina til að lifa af. Fjölmiðla og aðra afþreyingu? Tjah, nei, varla til að lifa af. Menningu? Til að sjá tilgang með lífinu. Grill?

Ef við þurfum fyrst og fremst mat, föt, þak yfir höfuðið og að losna við sorp, já, og farga því, þurfum við kannski bara að vinna að meðaltali 20 tíma á viku. Er það alveg skelfileg tilhugsun?

Ég hef mína framfærslu af prófarkalestri og kennslu. Ef stemning verður fyrir því á næstu 20 árum, sem ég efast um að ég upplifi sjálf, að hætta að varðveita tungumálið og láta slag standa verð ég að finna mér annan vettvang. En ef engin störf verða fyrir helming þjóðarinnar, verða þá engar tekjur heldur? Ef helmingurinn framleiðir nóg og kann nóg ...


Forgangur

Ég er dálítið erfiður kjósandi. Nú sé ég fjórðu iðnbyltinguna nálgast og nú finnst mér mjög brýnt að efla menntun, einkum er varðar nýsköpun og frjóa hugsun. Ég hef alla mína fullorðinsævi haft framfærslu mína af prófarkalestri, kennslu og leiðsögn. Ef þessi störf úreldast vil ég vinna við eitthvað annað og kannski er ég ekki rétta manneskjan til að hanna nýju störfin. Einhver annar er góður í því en ég kannski betri í hinu.

Það er áreiðanlega klausa um þetta í öllum stefnuskránum. Hvaða flokkur eða einstaklingur er hins vegar líklegastur til að fylgja því eftir?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband