Vel sniðin föt gera gæfumuninn

Þegar ég byrjaði að horfa á Burda-myndina i sjónvarpinu á föstudaginn mundi ég alls ekki eftir tískunni sem tengd er Burda - en þvílík saga sem er sögð í myndinni. Af því að ég þekki hana ekki getur vel verið að eitthvað sé fært í stílinn en í megindráttum held ég að saga Önnu sé svona:

Hún er alin upp af feðraveldinu, giftist efnilegum manni þegar hún er rétt rúmlega tvítug og hann tæplega þrítugur. Þau komast í álnir --- leiðrétting: Hann kemst í álnir en hún fæðir honum þrjá syni á átta árum. Hún hefur metnað til að láta til sín taka en henni er sagt, ekki síður af meintum vinkonum sínum, að hún sé nú bara eiginkona og eigi að halda sig á heimilinu, enda eigi hún góða fyrirvinnu.

Anna kemst að því að eiginmaðurinn á barn með fyrrverandi ritara sínum og barnið er á aldur við yngsta son þeirra. Hún brjálast og hótar skilnaði. Öllum finnst það ferlega fyndið og fjarstæðukennt, og vinkonunum finnst sérstaklega að hún eigi að njóta frelsisins.

Aenna, eins og hún byrjar að kalla sig, dustar rykið af framúrstefnulegri hugmynd um tískublað sem eigi að auðvelda öllum konum að klæða sig í falleg, litrík föt sem ekki aðeins klæði þær betur heldur auki þeim sjálfstraust. Henni finnst mikilvægt að konur sem hafi ekki of mikið á milli handanna geti samt fylgt tískunni og lífgað upp á sig. Aenna býr náttúrlega það vel að hafa tekið bílpróf og vera með heimilishjálp þannig að hún skýst til Parísar eftir þörfum.

Hún gengur á hvern þröskuldinn á fætur öðrum en klífur þá alla vegna þess að, eins og helsta samstarfskona hennar orðar það, hún kemur alltaf auga á lausnir þegar hún fær vandamál og úrlausnarefni í fangið.

Ég veit ekki, kannski var fegurð hreyfiaflið hennar en miðað við myndina og það sem ég er búin að lesa í morgun virðist hún samt frekar hafa viljað koma stöðnuðum heimi og úreltum hugmyndum á hreyfingu. Sjálfsöryggi skiptir máli ef fólk vill láta til sín taka og ef fólk klæðist kartöflupokum sem eru teknir saman í mittinu verður það kannski feimið við að standa upp og heimta athygli þótt málefnin séu verðug.

Annað þarf ekki að útiloka hitt, konur eiga ekki frekar en karlar að þurfa að velja annað hvort fjölskyldu eða frama.

Sagan kallar fram gæsahúð og mér finnst hálfundarlegt að ég hafi ekki þekkt til hennar.

Og myndin er á þýsku sem verðskuldar bónusstig.


Brotaþoli, þolandi, fórnarlamb, gerandi og svo meðvirkni

Ég missti næstum málið og orkuna þegar ég hlustaði áðan á viðtal sem var tekið á Bylgjunni á föstudaginn. Ég hef enga skoðun á Gylfa, er enginn sérstakur áhugamaður um fótbolta en ákvað samt fyrir löngu að halda með Everton í enska boltanum, og hef ómælda samúð með aðstandendum hans og öllum þolendum allra glæpa, hvort sem er af hálfu fólks eða kerfis.

En, gott fólk, tvö ár af lífi ALLRA eru löng tvö ár. Tvö ár af vinnu, ferðafrelsi, félagslífi, orðspori. Ég hef lesið ógrynni af sögum um þolendur sem hafa ekki treyst sér út úr húsi, gerandi setið um þolandann heima hjá sér, kyrrsett þolanda og auðvitað barið, niðurlægt og talið trú um að væri einskis virði.

Ég veit ekki til þess að ég þekki þolendur persónulega en þolendur bera heldur ekki allir harm sinn utan á sér. Ég get sagt hér og nú að ég hef sloppið vel í gegnum lífið og fæddist sennilega í bómull.

Í gærkvöldi horfði ég á magnaða bíómynd á RÚV sem var um ýmis samskipti og m.a. um stafrænt ofbeldi. Þar var menntaskólanemi, strákur í þetta skipti, sem galt mögulega fyrir ofbeldið með lífi sínu, a.m.k. bæði tíma og heilsu.

Ég efast ekki um að Gylfa Sigurðssyni sé margt vel gefið, meira en fótboltahæfileikar meina ég þá, en flóðbylgjan sem upphófst í fjölmiðlum þegar lögreglan í Bretlandi ákvað að ákæra hann ekki eftir tæplega tveggja ára rannsókn gekk alveg fram af mér. Það sannar alls ekki að hann hafi aldrei misstigið sig. Bróðir minn stal af mér og foreldrum okkar peningum, ég ákærði hann ekki, reyndi bara að höfða til samvisku hans sem hann reyndist enga hafa, en þótt ég hafi ekki farið neina kæruleið og þar af leiðandi hafi ekkert sannast á hann að lögum stal hann samt peningunum. Ég veit það, hann veit það, lögfræðingurinn sem hann réð sér til að verjast mér og systkinum okkar veit það - en er hann saklaus af því að ég kærði hann ekki?

Saklaus uns sekt er sönnuð er réttarfarslegt hugtak og sannar hvorki né afsannar gjörðir fólks.

Ég veit að ég sit hér ofan á - sem betur fer - bylgju þeirra sem taka upp þykkjuna fyrir þolendur sem sjá sjaldnast framan í réttlætið en mér er svo stórkostlega misboðið þegar menn tala um a) að menn SÉU almennt saklausir uns sekt er sönnuð, b) þolanda kerfis í sama orðinu og þolanda hroðalegustu ofbeldisglæpa sem ræna fólk tíma, orku, heilsu, geði, framtíð og peningum.


Auður Haralds

Í kvöld var heimildarmynd um Auði Haralds í sjónvarpinu. Augun í mér stóðu á stilkum og einbeitingin var algjör. Af bókmenntaskrifum mínum, sem ég játa að eru svo sem af skornum skammti, er ég langstoltust af að hafa skrifað BA-ritgerðina mína um Hvunndagshetju undir titlinum Er kímni gáfa? Því miður er hún ekki í Skemmunni enda 30 ár síðan ég skrifaði hana. En kímni er svo sannarlega gáfa og söguhetjan Auður notaði hana til að verja sig gegn heimilisofbeldi.

Mögnuð bók. Magnaður höfundur. Og fín ritgerð, ef ég man rétt. Já, og góður þátturinn í kvöld. Ég hafði ekki minnst gaman af því þegar Auður sagðist skrifa bréf sem þyrfti að senda sem böggul. Ég skrifaði henni nefnilega til Rómar þegar hún bjó þar og fékk þverhandarþykkt bréf til baka. Ég þarf að hafa uppi á því við tækifæri. Og ritgerðinni.

Og hugrenningatengslin bera mig að öðru áhugaverðu úr útvarpsþætti sem ég hlustaði á um helgina, þegar lögreglumálum þokaði of hægt á sjötta áratug síðustu aldar VEGNA SKORTS Á VÉLRITUNARSTÚLKUM sem þýddi að lögreglumennirnir þurftu af miklu kunnáttuleysi að verja obbanum af vinnudeginum í að vélrita upp málin.

Auður hafði m.a. ofan af fyrir sér og aflaði tekna til að fæða sísvöngu börnin sín með vélritunarkunnáttu. Og vélritun er það fag í 9. bekk (nú 10. bekk) sem hefur gagnast mér hvað best á lífsleiðinni. Fingrasetningin, maður minn, fingrasetningin.

 


Að arfleiða eða að gefa

Nú hafa þrír þingmenn lagt fram frumvarp um að foreldrum leyfist að arfleiða börnin sín skattfrjálst að peningum. Eðli frumvarpa er að vera tillaga, hugmynd, grundvöllur að frekari umræðu og þannig skil ég þetta frumvarp. Frumvarpshöfundar líta varla á upphæðina 10 milljónir sem heilaga eða að hvort foreldri geti arfleitt hvert barna sinna að 10 milljónum. Það eru náttúrlega takmörk fyrir því hvað fólk á margar 10 milljónir til útdeilingar, jafnvel þó að það sé komið á efri ár.

Ég er ekki endilega ósammála þeirri hugsun sem ég held að ráði hér ríkjum. Hins vegar finnst mér tímasetningin dálítið skrýtin. Þjóðin eldist og eldist og þegar fólk fellur frá eru börn viðkomandi sjálf orðin vel sjálfbjarga, kannski af því að foreldrarnir hafa hlaupið undir bagga við fyrstu kaup íbúðar.

Fyrstu íbúðarkaup eru nú um stundir nánast ómöguleg á Íslandi nema einhverjir ættingjar létti undir með kaupendum. Og á sama tíma er fólk í námi og að eignast fyrstu börnin sín. Þess vegna þyrfti meintur arfur að koma fyrr inn í myndina eða - það sem blasir við - ungu fólki gert kleift að leggja fyrir nóg til að kaupa sér fyrstu íbúð eða - sem líka blasir við - að þroska leigumarkaðinn svo að fólk geti leigt sér íbúð, jafnvel alla ævi, án þess að fara í áhættufjárfestingar.

Við erum skattlögð þegar við fáum launin, við borgum virðisaukaskatt þegar við förum út í búð og svo borga erfingjar skatt af arfinum. Ég hef aldrei alveg skilið af hverju fólk má ekki bara gefa fólki það sem það á án afskipta ríkisins en skiljanlega vill fólk ekki svipta sjálft sig öllu í lifanda lífi.

Ef Skatturinn hefði líka áhuga á að eltast við allt og alla hefði hann átt að sitja um bróður minn sem foreldrar okkar gáfu einhverjar milljónir. Bróðir minn, Gummi, er óvirkur alkóhólisti með mikla eyðsluþörf og lítinn tekjuvilja og mamma og pabbi voru sífellt að bjarga honum fyrir horn. Ég hugsaði og sagði að þau ættu peningana sína og mættu gefa þeim sem þau vildu. Ég sá bara ekkki fyrr en langtum seinna að þau voru meðvirk með honum og óttuðust sífellt að hann félli aftur fyrir áfengi og hlóðu þess vegna undir hann.

Kannski eru svona týpur ástæðan fyrir því að foreldrar mega ekki gefa börnum sínum, sérstaklega einu af fjórum, háar fjárhæðir. Það er einhvers konar jöfnuður.


Inngangur að efnafræði

Bókin ratar til sinna.

Sumt hittir í mark. Ég var að klára Inngang að efnafræði, skáldsögu um konu sem vill ekkert frekar en að verða vísindamaður og verður vísindamaður í heimi sem er ekki tilbúinn að hleypa konum inn. Við þekkjum öll þessar þreytulegu sögur af konum sem þurfa að leggja langtum meira á sig en karlar til að njóta sannmælis. Þessi saga ... en þessi saga var bara svo fyndin og margt svo óvænt í henni. Ég skellti upp úr í sífellu og hágrét líka. Ekki víst að Elizabeth Zott kynni að meta það með alla sína óbilandi rökfestu!


Hver græðir?

Ég er að horfa á Kastljósið þar sem verið er að fara yfir húsnæðismarkaðinn. Fólk um þrítugt með eitt barn og u.þ.b. 600.000 kr. ráðstöfunartekjur á mánuði getur ekki keypt sér íbúð en neyðist til að borga helminginn af ráðstöfunartekjunum fyrir leiguhúsnæði sem felur ekki í sér neina eignamyndun. 

Ég er aðeins búin að vera að skoða fasteignamarkaðinn og hann er alveg klikkaður eins og allir sjá sem hafa skoðað auglýsingarnar.

En það sem mig langar að vita er svarið við spurningunni: Hver græðir?

Stór hluti þeirra sem selja fasteign kaupa aðra fasteign þannig að sá sem selur vel sofnar ekkert endilega með fúlgur í fanginu heldur fer með fenginn í næstu íbúð.

Eru margir fjárfestar sem kaupa margar íbúðir (ég hef alveg heyrt svoleiðis sögur) og raka saman peningum? 

HVER græðir?


Edda Falak

Ég veit ekkert hvað er satt í ferilskrá Eddu Falak og get því ekki tekið afstöðu til hennar og þess sem hún hefur tekið sér fyrir hendur á launavettvangi. Allt sómakært fólk er sammála um að maður eigi ekki að ljúga en samt skreytir það, fegrar sjálft sig, færir í stílinn og misstígur sig. Á Twitter er myllumerkið #afsakið núna og fólk rifjar upp ferilskrár, atvinnuviðtöl, ný kynni og ýmislegt sem það er ekki endilega hreykið af en fólki finnst samt meinlaust. Maður á ekki að stela en samt hefur fólk tekið með sér merkta bolla af vinnustöðum, merktar flíkur og alls konar sem það hefur getað nýtt en ekki endilega þau sem á eftir komu.

Sigmundur Davíð sagði ekki alveg satt um doktorsnámið sitt þegar hann skilaði Alþingi ferilskrá og ekki Smári McCarthy heldur og vel á minnst, þegar ég sótti um núverandi starf sagðist ég vera þýðingafræðingur en átti eftir að skila ritgerðinni sem var á lokametrunum. Ég var lækkuð um launaflokk þegar við áttuðum okkur á mistökunum og svo fékk ég hann aftur nokkrum mánuðum síðar þegar ritgerðin hafði verið samþykkt. Það munaði alveg 15.000 kr. brúttó, svo mikils er menntun metin.

Einu sinni bjó ég í þríbýlishúsi í miðbænum. Í kjallaranum bjó smákrimmi sem faldi sig á bak við pabba sinn þegar ég rukkaði vegna sameiginlegs hita en reikningurinn barst alltaf til mín. Ég veit ekki hvar hann heldur sig núna en pabbi hans var stórkrimmi og er nú látinn. Á miðhæðinni bjó mektarkona í áberandi starfi og af virðulegum ættum. Einhverju sinni var fram af okkur gengið út af djammlátum í hverfinu og við ákváðum að skrifa saman bréf til lögreglunnar eða einhvers fjölmiðils, ég man ekki lengur hver átti að fá bréfið. Hún byrjaði á að telja saman ár og ýkti svo hroðalega að mér féll allur ketill í eld. Ég sagði, og ég meinti það og meina enn: Við verðum að fara rétt með, það er ekki trúverðugt ef það er augljós staðreyndavilla í því sem sendum frá okkur.

Og það er enn mín bjargfasta meining. Hins vegar vitum við öll að menn fara út af sporinu í góðri trú og góðri meiningu. Og ef við ætlum að fordæma eina fjöður fyrir að sækja sér aukavind til að komast framhjá digurri grein verðum við að vera sjálfum okkur samkvæm og fordæma alla sem sambærilegar villur opinberast hjá - og auðvitað alls ekki gera okkur sek um neinar missagnir.

Loks vil ég rifja upp að þegar fréttin af ferilskrá Eddu Falak komst í hámæli vantaði miklar grunnupplýsingar, það sem ég hef fyrst og fremst séð er æsingur og flumbrugangur á báða bóga. Ég veit ekki enn hvar hún vann (ekki) og hver var (ekki) ágengur við hana. Ég fletti hins vegar upp áðan og sá að virðulega jafnaldra mín sem bjó á miðhæðinni er gift Íslendingi í Bretlandi og búin að skipta um nafn. Hvað er hún að fela?

Og talandi um réttar og sléttar lygar og afvegaleiðingu má benda á þessa umfjöllun um erlent kjöt sem er flutt inn og pakkað í íslenskar umbúðir - til þess eins að blekkja neytendur og græða á þeim. Hvað gott vakir fyrir þeim fyrirtækjum? Eru þau kannski að búa til farveg svo fólk geti losnað undan oki og fengið líf sitt til baka eins og við erum mörg sammála um að Eddu Falak hafi tekist með því að gefa bældum röddum meira vægi? Nei, ég held að þessi kjötfyrirtæki vilji skara eld að eigin ... kjöti.


Meint viðskiptavild Arion banka

Við vitum að íslenskir bankar starfa í fákeppnisumhverfi. Þeir þurfa ekkert að hafa fyrir því að halda í meinta viðskiptavini sína vegna þess að hinir bankarnir stunda líka sjálftöku.

Ég á húsbréf upp á tæpa milljón. Ég erfði það og það mallar bara í bankanum. Engin fyrirhöfn fyrir mig og engin fyrirhöfn fyrir bankann, bankann sem skammtar sér vaxtamun og þjónustugjöld. Í síðustu viku fékk ég kröfu í heimabankann upp á 2.000 kr. Eins og þið vitið er ég aflögufær um 2.000 krónur, ég var að segja að tæp milljón lægi bara í bankanum þangað til síðar, en ég fékk enga skýringu á þessu vörslugjaldi - aðra en orðið vörslugjald.

Ég sendi Arion banka tölvupóst (og þurfti að giska á netfangið enda er það hvorki á heimasíðu bankans né í símaskrá) og spurði hvort hann hefði heimild fyrir þessari gjaldtöku. Ég fékk loðmullulegt svar samdægurs með almennri vísan í að ég hefði samþykkt skilmála um verðskrá bankans.

Löglegt en siðlaust, sagði Vilmundur heitinn á sínum tíma. Það eru allar líkur á því að Arion banki (og ugglaust hinir bankarnir líka) hafi lagastoð fyrir gjaldheimtunni en hann hefur alveg misst af samfélagsumræðunni. Og hvað haldið þið nú að mörg greiði þessa kröfu án þess að líta á fyrirsögnina eða viti hvað þau eru að greiða? Bankinn ætlar sem sagt að rukka mig um 4.000 kr. á ári fyrir enga þjónustu við að varsla húsbréfið mitt, svona rétt eins og hann rukkar bæði árgjald og mánaðargjald fyrir greiðslukortin okkar sem fyrirtækin borga fyrir að fá að skuldfæra hjá okkur og hleypa auðvitað kostnaðinum út í verðlagið fyrir alla neytendur. Arion banki býður aldrei upp á skýringar, enga viðskiptavináttu, bara sjálftöku, nýjar línur, ný nöfn, nýja gjaldheimtu, gamlan belg. Og samkeppnin er engin, ekki einu sinni frá Indó sem ég held að geti orðið fín viðbót en er ekki í þessum verkum.

Ég er orðin langþreytt á spillingunni. Hef ég val um aðra þjónustu? Ég reyndi að fá svar við þeirri spurningu en starfsmaður Arion banka skautaði framhjá henni.


Hvenær elskar kona mann og hvenær elskar kona réttan mann? - Játning eftir Ólaf Jóhann

Mikið er ég fegin að hafa verið bent á Goodreads-síðuna þar sem venjulegir lesendur tjá sig um venjulegar bækur, líka á íslensku. Stundum þegar ég er komin vel inn í bækur gái ég hvort einhver hefur skrifað þar bitastæða umsögn. Ég gerði það hins vegar ekki þegar ég las nýjustu bók Ólafs Jóhanns, Játningu, heldur var ég að því núna.

Ég er frekar samviskusamur lesandi og gef höfundum mikinn séns. Það á allan daginn við um stjörnuhöfundinn Ólaf Jóhann sem ég les alltaf af skyldurækni. Ég man enn þegar ég las Níu lykla árið 1993, auðvitað meðvituð um að hann er sonur Ólafs Jóhanns Sigurðssonar, og ég man enn að mér þóttu allar níu smásögurnar fara vel af stað og hver einasta fannst mér endaslepp.

Samt las ég Snertingu í fyrra sem mér fannst lala mínus með einum góðum tvisti og samt greip ég Játningu á bókasafninu um daginn. Og þá er nú gott að hugga sig við að stundum hittir bók í mark. Ég var alveg viku að byrja enda þurfa flestar bækur aðeins að kynna sig og persónur sínar en síðustu 300 blaðsíðurnar gat ég varla lagt bókina frá mér. Og þegar ég les núna umsagnir annarra á Goodreads er þeim þveröfugt farið, þau hafa verið hrifin af bókum ÓJÓ hingað til en verða fyrir vonbrigðum með þessa.

Sko, Elísabet kynnist Benedikt í Austur-Þýskalandi rétt fyrir fall múrsins, þau verða ástfangin, Benedikt er náttúrubarn í skák og með ýmsa drauga í eftirdragi og þau lenda undir smásjá Stasi. Þær lýsingar þóttu mér hrollvekjandi vegna þess að þrátt fyrir allt búum við við persónufrelsi en ég var einmitt í Vestur-Þýskalandi árið 1987 og gekk auðvitað ekki í gegnum neitt þessu líkt. Við máttum og megum taka ljósmyndir og túlka að vild, tala við hvern sem er, sætum ekki miskunnarlausum kúgunum og erum ekki send í gúlagið fyrir rangar skoðanir. Í þessum hluta bókarinnar datt mér oft Bobby Fischer í hug.

Eða er ég kannski meðvirk? Erum við ófrjáls á Íslandi?

Svo er þáttur Halldórs til þess fallinn að kalla fram tár. Það er erfitt að segja nokkkuð án þess að segja strax of mikið, en elskaði Elísabet hann eða gerði hún það ekki?

Marta er dóttir Elísabetar og knýr atburðarásina af stað í nútímanum þegar hún finnur gamlar myndir frá Þýskalandsárunum. Þá er Elísabet stödd í vinnuferð á Ítalíu og óstöðug í tímanum eins og við mörg, alltaf að skoða símann til að kanna viðbrögð og bíða svara.

Þegar ég er búin að fara svona yfir mín helstu hughrif get ég alveg tekið undir með einhverjum að endarnir eru ekki allir hnýttir, en engri sögu lýkur til fulls nema með dauða. Þroskasögu Elísabetar lýkur ekki á bls. 390 og hvort tilfinningaríku myndirnar fara á sýninguna eða ekki er aukaatriði í sögunni sjálfri. Ég veit ekki hvað höfundur hugsaði í þeim efnum - enda er það þannig að þegar höfundur hefur sleppt hendinni af bókinni sinni geta allir lesendur túlkað eftir eigin höfði. Eins er með svona ritdóma ...

 

 


Líf á RÚV (Life á BBC)

Á sunnudagskvöldum er nú í línulegri dagskrá bresk sjónvarpsþáttaröð um fjórar fjölskyldur í fjögurra íbúða húsi. Mér finnst allar sögurnar áhugaverðar (kannski ponsulítið ýktar samt) en sagan af konunni sem varð sjötug í fyrsta þættinum og áttaði sig á að hún hafði síðustu 50 árin lifað öðru lífi en hún hafði ætlað sér höfðar hvað mest til mín. Hvað varð um galgopann Gail sem var extróvert í hljómsveit en varð ráðsett og ábyrg húsmóðir með eiginmann, tvö börn, reglulegar máltíðir og tandurhreint eldhús? Vill sjötug kona snúa við blaðinu þegar hún sér að hamingjan sem einkenndi allt fjölskyldulífið var e.t.v. byggð á gaslýsingu (tek fram að þetta orð er ekki notað) eiginmannsins sem öllum fannst fyndinn og umhyggjusamur?

Svo er Anna eða Belle (Annabelle) sem kennir pílates en elur önn fyrir geðveikri systur sinni og situr uppi með systurdóttur sína og nokkra eigin drýsildjöfla í höfðinu.

Uppi er ungi ekkillinn sem missti konuna sína fyrir mánuði og er eins og draugur upp úr draug.

Loks er hin nýbakaða móðir, Hanna, sem ætlar að giftast manninum sem kom inn í líf hennar eftir að hún varð ólétt. Gail hin sjötuga speglar sig í hlutskipti Hönnu og öfugt vegna þess að sagan á það til að endurtaka sig. Þegar maður er á þrítugsaldri býr maður yfir kjarkinum en hefur ekki yfirsýnina. Þegar maður er sjötugur sér maður yfir sviðið en þorir kannski ekki að gera það sem þarf.

Eða hvað?

 

 


10 ára samningi hafnað

Ég gerði mig seka um að velta ekki mikið fyrir mér langtímasamningnum sem forystumenn sjómanna gerðu fyrir þeirra hönd um daginn. Þó man ég eftir að ég spurði vin minn í Samtökum atvinnulífsins hvort ekki væri fyrirvari í samningnum, svona uppsagnarákvæði. Hann hélt að það hlyti líklega að vera. Til að varpa ekki rýrð á neinn tek ég fram að hann er ekki í neinni samninganefnd.

Og nú er samningnum hafnað mjög afgerandi. Hver túlkar með sínu nefi en mig grunar að margir hugsi með sér að launþegar séu að þjappa sér saman vegna þess að launþegarnir eru þeir sem búa til verðmætin og telja sig eiga meira tilkall til stærri hlutar í þeim en atvinnuÞEGUM þóknast að láta hrjóta fram af gnægtaborði sínu.

Tek líka fram að ég hef ekkert gluggað í samningana sjálfa, hef bara lesið fréttir af samningunum og nú sannast enn á ný að fréttaflutningur er í skötulíki. Fréttamenn eru kranar enda er þeim vafalaust ætlað að framleiða ógrynni af fréttum á hverjum degi en ekki vinna úr upplýsingum og gögnum.

Vitið þið hvaða fréttamenn eru í laun? Ég þori að hengja mig upp á að þau eru skammarlega lág.


Erlendir hótelstarfsmenn

Ég var að skoða launaseðil útlensks starfsmanns á hóteli, reyndar frá árinu 2019. Ef hann hefði þá unnið allan mánuðinn á dýrari tíma, sem sagt með 45% álagi, hefði hann samt ekki náð 500.000 króna heildarlaunum.

Skiljið þið þetta? Launasetningin er þannig að fólk á Eflingartaxta - og þótt það væri VR-taxti - NÆGIR EKKI TIL AÐ FÓLK FRAMFLEYTI SÉR. Ég held að miðlunartillagan sem sátt náðist um, guðsblessunarlega svo sem, sé bara stundarfriður.

Samkvæmt samningum - sem greitt er eftir - er fólk raunverulega með skít úr hnefa í mánaðarlaun. Ég skil ekki að þeir sem bjóða þessi laun sofi vært á næturnar.


Verkastúlka á síðustu öld

Það var að rifjast upp fyrir mér að þegar ég var 18 eða 19 ára vann ég eitt sumar hjá Nóa-Síríus við að pakka síríuslengjum og öðru súkkulaði í neytendapakkningar við færiband. Mér fannst sumarið stórskemmtilegt og vinnan bara alveg ljómandi enda nýkomin á vinnumarkað þannig lagað. En annað tvennt er mér líka minnisstætt, annars vegar að fyrirtækinu þóknaðist að borga mér eftir unglingataxta sem var ekki til og það ætlaði svo að hlunnfara mig um orlofsdaga sem ég ávann mér á fjórum mánuðum. 

Þegar ég áttaði mig á þessu fór ég á skrifstofu forstjórans og fór fram á leiðréttingu sem ég fékk ekki. Þá hafði ég samband við stéttarfélagið sem knúði fram leiðréttingu. Hún náði til jafnaldra minna sem höfðu fengið greitt eftir sama taxta.

Ég fékk leiðréttingu greidda með ávísun sem ég tók ljósrit af og átti lengi. Ég á hana kannski enn en veit þá ekki hvar hún er. Ég man að þegar búið var að draga af launatengd gjöld og þess háttar stóðu eftir 918 krónur enda erum við að tala um níunda áratuginn.

Ég held að of mörg stór fyrirtæki muni alltaf reyna að hlunnfara andvaralaust starfsfólk sitt.

Ég þarf væntanlega ekki að taka fram að mér bauðst hvorki jólavinna í konfektinu né páskaeggjavinna næsta vetur. 


Byggjum 35.000 íbúðir

Það sem Ólafur Margeirsson sagði


Strætó frá Reykjavík til Keflavíkur

Ég tók einu sinni strætó frá Klambratúni til Keflavíkur. Ég gat það bara af því að ég fór á björtum degi, hafði tíma til að rúnta um smábæina og hafði einbeittan vilja til að finna staðinn til að fara út úr strætó í Keflavík.

Eina ástæðan fyrir þessari lélegu þjónustu er að ekki má styggja einkafyrirtækin tvö sem okurselja farið með rútunum. Það er mín skoðun en ekkert annað stenst skoðun.

Spillingin er víða.

Og ég held að við látum þetta viðgangast af því að sem þjóð erum við bullandi meðvirk, ég líka en ég reyni stundum að rísa upp á afturlappirnar.


Juliet, naked

Í gærkvöldi horfði ég á bíómynd sem ég held að mér muni finnast stórkostleg þegar frá líður. Hún var bara sýnd á RÚV, er frá 2018 og ég hafði ekkert heyrt um hana.

Hún er um konu sem tók ákvörðun sem ung kona og 15 árum síðar sér hún eftir henni. Oftast sér maður eftir því sem maður gerði ekki, síður því sem maður gerði, er það ekki? Henni fannst hún hafa flotið áfram í lífinu frekar en að taka af skarið. Við getum mörg tekið þetta til okkar.

Þetta er mynd sem sameinar vellíðan, sársauka, vonir og framtíð. Ég leit ekki af henni meðan hún rúllaði á skjánum og það get ég sjaldan sagt nú orðið. Hins vegar skil ég ekki titilinn.


Pallborðið á Vísi

Ég ætla að segja það sem ég hef verið að hugsa. visir.is, sem sagt einkafjölmiðill, stendur sig miklu betur en ríkisfjölmiðillinn í að upplýsa mig um gang mála í kjaradeilunni sem skekur, tjah, allt mitt líf þótt ég eigi persónulega nánast ekkert undir. Helstu áhrifin eru að ég gæti mögulega ekki komist á gönguskíðanámskeið til Siglufjarðar um næstu helgi.

En visir.is stóð sem sagt fyrir klukkutímalangri umræðu við deilendur í kjaraviðræðum Eflingar og SA sem ég horfði á undir kvöld í gær. Ég gat varla slitið mig frá þættinum enda var hann ríkulega myndskreyttur. Mitt mat er að bæði Sólveig og Halldór séu á síðustu bensíndropunum og innilega til í að fara að lenda málinu. Og þá er líklega rétt að ég haldi því hér til haga að ef ég væri hvort þeirra sem er hefði ég gefist upp fyrir viku. Þess vegna er ég ekki í kjaraviðræðum og enginn myndi velja mig til þeirrar forystu. Og ég get líka bætt því við að fyrir hönd leiðsögumanna hóf ég einu sinni kjaraviðræður við SAF/SA (2002) og það var við þvílíkt ofurefli að etja að ég þakkaði mínum sæla þegar formannsárinu mínu lauk og ég gat dregið mig í hlé. Forkólfar atvinnurekenda eru með her manns á fullum launum við að mæta litlum stéttarfélögum sem eru rekin af sjálfboðaliðum - ekkert fékk ég a.m.k. borgað - og þau sem eru ekki hreinlega meðvirk og haldin Stokkhólmsheilkenninu gefast bara upp fyrr en síðar og þiggja þá hungurlús sem að þeim er rétt. Kjör leiðsögumanna eru ekki í neinu samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til þessa andlits ferðaþjónustunnar.

Og ég held að obbinn af þeim 90% stéttarfélaga sem framkvæmdastjóri SA hreykir sér í sífellu af að hafa samið við hringinn í kringum landið ráði ekki við lögfræðingastóðið sem SA búa yfir. Viðsemjendurnir eiga bara fullt í fangi með að sinna vinnunni og mæta svo til samninga í fátæklegum frítíma sínum.

Engu að síður held ég að þessir tveir turnar, Efling og Samtök atvinnulífsins, muni lenda samningi fyrir 2. mars með fulltingi setts sáttasemjara og e.t.v. miðlunartillögu sem sé ekki snýtt úr nösum Samtaka atvinnulífsins.


35% hækkun í Skipholti

Í september kostuðu Maarud-kartöfluflögurnar á myndinni 349 krónur. Ég fékk leiðindadálæti á þeim og borðaði þótt ég hefði ekki gott af því. Af mörgum veikleikum mínum er veikleiki gagnvart kartöflum vandræðalega mikill. Ég tók svo eftir því að pokinn hækkaði í 379, eftir áramót fór hann upp í 409 og núna 479 krónur. Kannski millilenti hann í 429, en hann hefur alltént hækkað um 130 krónur síðan í september, tæplega 35%.

Maarud

Ég get ítrekað að ég ætti að sniðganga þessar kaloríur en sumt fólk má alveg við þeim. En má það við 35% hækkun verðlags?

Þið gætuð örugglega bent á mörg önnur dæmi sem þið hafið tekið eftir. Er hægt að bjóða okkur upp á þetta til lengdar? Heyri ég einhvern tala um 35% hækkun á laun?


Tjónið af yfirgangi auðvaldsins

„Við erum alveg örugglega ekki að tala um tugmilljónir, við erum örugglega að tala um nokkur hundruð milljónir sem við erum komin í nú þegar því stórir hópar eru nú þegar búnir að afpanta,“ segir Elías. 

Þetta er haft eftir settum ferðamálastjóra.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hnýt um það að ferðaþjónustan telur sig tapa gríðarlega en hefði ekki grætt gríðarlega í óbreyttu ástandi. 

Er einhver búinn að reikna út meint tjón af því að hækka laun þeirra sem smyrja hjól atvinnulífsins og bera saman við meint tjón af verkbanni og öðrum tjónvöldum Samtaka atvinnulífsins?

Mér finnst auðmýkjandi að bera það bull á borð fyrir hugsandi fólk að láglaunastéttirnar séu vandinn. Það fólk sem gerir það hefur orðið sér til skammar og opinberað vanmátt sinn.


Var Vilhjálmi og Ragnari lofað að semja ekki út fyrir meintan ramma?

Ég hef heyrt að hvorki Starfsgreinasambandið né VR hafi gert kröfu um að önnur verkalýðsfélög gætu ekki samið á sínum forsendum við Samtök atvinnulífsins. Það er samt mantran sem framkvæmdastjóri SA fer með. Mikið væri nú gott ef viðmælendur framkvæmdastjórans spyrðu aðeins betur út í þetta. Merkilega margir þáttagerðarmenn hafa verið duglegir að stoppa eintalið hans en ekki nógu margir fréttamenn. 

Það væri gott að fá þetta á hreint. Myndu SGS og VR bregðast illa við ef verkafólk Eflingar fengi meira en það sem SGS og VR hafa samið um? Og ég spyr aftur: Af hverju erum við með mörg stéttarfélög ef þau eiga öll að elta það félag sem semur fyrst?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband