Spánn

Ég hef núna verið tæpan mánuð á Spáni. Því miður hef ég ekki lært spænsku á þessum tíma og því miður ekki kynnst Spánverjum. Ég hef bara verið í minni íslensku búbblu og með mitt internet.

En það sem ég hef tekið eftir er:

- hvað spænskt fólk klæðist litríkum fatnaði. Bæði hef ég séð fatnaðinn á fólki en ekki síður þvott á snúrum fyrir utan glugga fólks. Þetta á við um margar byggingar líka, enda engin tilviljum að Almadóvar er spænskur.

- fjöldi leikhúsa en ég hef ekki orðið vör við bíóhús.

- að alls staðar nema í strætó virðist hægt að borga með korti. Ég var þeirrar röngu trúar að í bakaríum, á mörkuðum og jafnvel veitingastöðum væri gerð krafa um peninga. Og það virðist ekkert sérstaklega gert ráð fyrir þjórfé. Og nú er evran komin í 154 krónur, var 148 krónur þegar ég fór út. Óttalega sveiflukenndur gjaldmiðill sem við búum við.

- ótrúlegur fjöldi hunda, bæði lausir og í taumi með gangandi, hlaupandi og hjólandi eigendum sínum, og jafnframt mjög margir og mjög ræðnir kettir sem hafa komið mjálmandi til mín eða mjálmað til mín úr gluggakistum.

- brekkur. Ég var í bæ sem heitir Cala del Moral og þar var hægt að hlaupa á ströndinni en um leið og maður beygði ögn til vinstri var komin svívirðileg brekka. Það virðist eiga við um Malaga líka og sannarlega sáum við brekkur, gil, brýr og göng þegar við keyrðum til Córdoba og Granada um daginn.

- við gátum varpað íslenska sjónvarpinu á spænska skjáinn af því að Orange-myndlykill var við sjónvarpið. Við horfðum því á fréttir og Kappsmál í beinni útsendingu! Og í gær hélt áfram mynd í sjónvarpinu sem var þó kirfilega merkt að væri aðeins hægt að horfa á á Íslandi.

- að í íbúðunum sem ég hef leigt hafa verið hringstigar milli hæða, þótt íbúðirnar séu ponsulitlar.  


Grindavík

Ég hef engar tengingar við Grindavík þannig að ég býð ekki upp á neinar brakandi útlistanir á ástandinu. Ég hef bara undrast að sjá hversu margt áberandi fólk er frá Grindavík, ég var ekki búin að átta mig á því hve margt íþrótta- og stjórnmálafólk er af svæðinu.

Annað sem ég furða mig á er að hafa ekki séð neins staðar áberandi umræðu um millilandaflug. Ég þekki fólk í ferðaþjónustunni sem hefur fengið afbókanir, einkum vegna stórra hópa, sem er alveg skiljanlegt þegar fólk situr í útlandinu og les endalaust um rýmingu bæjar í næsta nágrenni við alþjóðaflugvöllinn.

Sjálf veit ég um fólk sem hefur flogið burt af landinu eftir að hamfarirnar hófust þannig að ég þykist vita hið sanna í málinu, en það þarf að róa mannskapinn. Eða lokast landið fljótlega eins og Sigríður Hagalín spáði í skáldsögu sinni?


Indó

Ég skal svoleiðis segja ykkur það að ég hef samanburð á Indó-korti og öðrum bankakortum í útlöndum. Það eru engar ýkjur að gengisálag upp á 2,5% hjá hinum bönkunum er ekki hjá Indó, a.m.k. ekki enn sem komið er. Ég veit ekki hvort bankinn heldur þetta út til lengdar, minnug þess að Atlantsolía ætlaði að veita hinum bensínsölunum samkeppni en ég held að henni sé ekki lengur til að dreifa.

Nú prófuðum við að kaupa ís upp á 3 evrur. Hjá Indó kostaði hann 449 krónur en 460 hjá hinum bankanum. 11 krónur gera ekki gæfumuninn en þegar til lengdar lætur fer það að skipta máli - og gírugu bankarnir finna vonandi að þeir missa viðskiptavini. Kannski bæta þeir sig þá, en þá ætla ég samt að muna eftir að halda áfram viðskiptum við bankann sem veitti alvörusamkeppni.


Kvennaverkfallið

Klukkan er að verða eitt og ég sit í sófanum heima hjá mér, baða mig í D-vítamíni sem leggur inn um gluggann og er að fara að tygja mig á samstöðufund.

Ég er forréttindapési. Ég er í skemmtilegri vinnu sem ég menntaði mig til, á vinnustað sem hvetur til samstöðu og er á leið á samstöðufund sem er hugsaður til áréttingar á því að stórir hópar kvenna þiggja lægri laun fyrir sambærilegt starf og karlar vinna. Ég þekki sjálf engan einstakling sem vill að konur fái lægri laun en karlar fyrir jafn verðmæt störf.

En þetta er ekki eins einfalt og það hljómar. Störf við að varsla peninga eru einhverra hluta vegna metin hærra en að varsla fólk. Ég nota viljandi svona ómanneskjulegt orð, varsla. Einhver raðar fólki og stéttum á launaskalann og þótt konur hafi sums staðar hafist til metorða er eins og þær karlgerist í þeim stöðum og beiti sér ekki fyrir jöfnuði.

Ég ætla að mæta á fundinn vegna þess að þessi samstaða skiptir máli þótt ég hafi það persónulega mjög gott.

Svo eru ólaunuðu aukastörfin. Hver skipuleggur sumarfrí fjölskyldunnar? Jólagjafakaup? Skreytingar? Hver tekur til nestið? Þið þurfið ekki að horfa langt til að sjá að í obba tilvika sér konan um þessa aukavakt, ásamt því að líta til með fullorðnum foreldrum. Ég held að flest fólk, sem sagt konurnar líka, sé til í þessi aukastörf en vilji deila með hinum á heimilinu.

Áfram, jafnrétti!


Fækkum kóngum og drottningum

Vá, hvað mér líst vel á þessa tillögu um að sameina Seltjarnarnes, Reykjavík og Mosfellsbæ. Mér hefur löngum fundist smákónga (og -drottninga)blætið kjánalegt. Hvað gerir Mosfellsbæ frábrugðinn Breiðholtinu? Hann er aðeins fjær miðbæ Reykjavíkur. En Kjalarnes er enn fjær og það tilheyrir Reykjavík.

Sameining myndi auðvelda almenningssamgöngur, sorphirðu og alls kyns þjónustu. Og, já, auðvitað ætti svo að stíga næsta skref og sameina til suðurs líka og fá Kópavog, Garðbæ og Hafnarfjörð í sömu sæng.


Eru sykursýkislyf grennandi?

Ég var að heyra að fólk sem er ekki með sykursýki taki sykursýkislyf sem megrunarlyf. Ég er nú svo gömul sem á grönum má sjá en ég hafði ekki heyrt þetta fyrr en í gærkvöldi. Getur það verið satt? Það fylgdi sögunni að fólk með aukakíló sækti svo í þessi lyf að raunverulegir sjúklingar fái ekki lyfið.

Getur þú staðfest þetta?


Minnistap

Mögnuð leikin mynd um Alzheimer var í sjónvarpinu um helgina. Fimmtugur háskólakennari finnur að hún byrjar að gleyma og áður en hún segir nokkrum í fjölskyldunni frá pantar hún tíma hjá taugalækni og fær skoðun á heilanum. Þegar hún segir manninum sínum frá og svo uppkomnum börnunum er hún þegar farin að sjá framtíðina skýrt og sendir framtíðarsjálfi sínu skilaboð um að þegar hún muni ekki lengur nöfnin á börnunum sínum skuli hún sækja töflur á vissan stað í kommóðunni og gleypa þær allar með vænum skammti af vatni.

Læknirinn segir að sjúkdómurinn sé langt genginn vegna þess að hún hafi notað heilann svo ótæpilega, þannig hafi einkennin ekki komið fyrr í ljós en fyrir vikið sé minna hægt að meðhöndla.

Myndin var svo átakanleg og vel gerð að ég hágrét yfir henni sums staðar. Ég get bara ímyndað mér einhvern mér nákominn sem hættir einfaldlega að muna það sem var sagt rétt í þessu. Það reynir á þolinmæðina en samt vita allir að við þessu er ekkert að gera. Minnisglapamanneskjan er sannarlega ekki að leika sér að þessu.

Og ég get líka sett mig í spor manneskjunnar sem veit að hún tapar öllum minningum og mestallri færni og verður í raun kannski byrði á sínum allra nánustu.

Mögnuð mynd. Grátlegur veruleiki sem ég vona að sem fæstir upplifi en óttast að of margir upplifi.


Kostnaður við réttarfar

Í fréttayfirlitinu heyrðist rétt í þessu setningin: Dómstjóri segir kostnaðinn hlaupa á milljónum.

Þá er bara verið að tala um þinghaldið sjálft, það að koma upp dómsal í Gullhömrum. Þetta er fórnarkostnaðurinn við að vera með réttarríki þar sem sakborningar eru leiddir fyrir dómara, 25 í þessu tiltekna máli sem er auðvitað fáheyrður fjöldi.

Nú þætti mér gaman að vita hvort háværu raddirnar sem gagnrýndu hvalveiðimótmælendurna vegna kostnaðar við lögreglu sem fór þrisvar upp í mastrið til þeirra eru líka þeirrar skoðunar að fella eigi kostnaðinn við málið á sakborningana 25.

Launþegar borga skatta og þeim er varið í alls konar, þ.m.t. löggæslu og réttarfar. Við viljum sjálfsagt öll að peningunum sé vel varið en sumt kostar einfaldlega ef við viljum vera siðað ríki.


Tónlist í eyrum mínum

Megi sem flest lítil sveitarfélög sameinast! Það á ekki aðeins við um Stór-Keflavíkursvæðið heldur ekki síður Reykjavík og grennd. Ef ég ætti tvær óskir færi önnur í að sameina öll litlu ríkin í ríkinu undir einn góðan hatt. Samlegðaráhrifin yrðu ótvíræð. Minna fé og minni tími færi til spillis. Ákvarðanir yrðu skilvirkari. Allir græða nema nokkrir kóngar og drottningar (bæjarstjórar).

En auðvitað þyrfti að veita viðkomandi aðhald eins og alltaf þarf að veita valdhöfum. 


Bakgarðshlaupararnir

Ég er hlynnt RÚV og bæði hlusta og horfi á línulega dagskrá, en almáttugur hvað Vísir stendur sig MIKLU betur í upplýsingagjöf þegar um er að ræða atburði sem ég hef áhuga á að fylgjast með. Ég er búin að fylgjast með bakgarðshlaupurunum með öðru auganu síðan í gær. Vísir er með beina útsendingu í mynd og stöðugar textalýsingar sem auðvelda áhugasömum að glöggva sig á stöðunni. Svo er náttúrlega tímataka með tölulegar upplýsingar.

Það er íþrótt að hlaupa þótt enginn bolti sé fyrir framan fæturna en á íþróttasíðu RÚV er ekki að finna stakt orð um þennan viðburð og verður væntanlega ekki fyrr en einn hlaupari stendur uppi sem sigurvegari. Og nú eru bara tvær konur eftir í keppninni (og enginn karl). Ótrúlegt spennustig í gangi. 


630 krónur!

Þau sem brjóta af sér og nást fara sum í fangelsi sem líka eru kölluð betrunarhús. Ég fór í skoðunarferð á Hólmsheiði í vor og varð döpur. Sennilega er það fangelsi bara fínt en frelsissvipting er dapurlegt úrræði sem ég skil þó vel að stundum þurfi að beita.

Ég spurði hvernig færi með fjárhagsskuldbindingar fanga sem eru þar um tíma. Mér skildist að fangar gætu samið um frystingu skulda, t.d. vegna húsnæðis, en hvað gerist síðan þegar fangar koma aftur út í samfélagið og hafa ekki aflað tekna í langan tíma en skuldir hafa ekki horfið?

Best að ég segi það skýrt að auðvitað hafa gjörðir afleiðingar og sá sem brýtur af sér getur þurft að sæta refsingu sem stundum er frelsissvipting.

Á RÚV er líka kominn í sýningu danskur þáttur sem gerist í fangelsi. Ég horfði áhugasöm á fyrsta þáttinn á sunnudaginn og fékk ómældan hroll. Fangarnir voru sterkara gengi en fangaverðirnir og meðal fanganna var stéttskipting. Þegar ofbeldisfullt fólk er vistað saman trúi ég að það kalli á alls konar vonda hegðun. Ég gæti ekki unnið á svona stað þar sem maður þarf að vera taktískur til að þrífast. Sumir fangaverðirnir voru sjálfir ofbeldishneigðir og aðrir svo ferkantaðir að jaðraði við einfeldni. Ég er voða hrædd um að ég vildi allan daginn fara eftir reglum sem eru kannski alls ekkert alltaf svo gáfulegar - en reglur hússins.

Já, og hvatinn að þessari skriflegu hugsun minni í dag er fréttin af dagpeningum fanga. Vonandi er það mýta að allir fangar reyki (sígarettur) en 630 krónur sem mögulega dugðu fyrir sígaréttupakka árið 2006 duga ekki lengur. 

Fangar hljóta að eiga að njóta lágmarksmannréttinda þótt þeir brjóti af sér. Ég veit fyrir víst að í þeim hópi eru ýmsir sem voru sjálfir fórnarlömb í æsku. Þolendur verða sumir gerendur.

Hins vegar finnst mér að hvítflibbaglæpamenn sem svíkja í stórum stíl undan skatti og eiga - þegar upp kemst - að borga tvöfalda upphæðina sem þeir stungu undan eða sitja inni í kannski eitt ár að borga fyrir dvölina. 


Annað fyrirtækið játar samráð, hitt ekki

Ég heyrði rök lögmanns Samskipa á Sprengisandi á sunnudaginn en gef bara ekkert fyrir þau. Lögmaðurinn var mjög sannfærandi og ég trúi ekki einu aukateknu orði.

En tölum um upphæðir. Miðað við umræðuna hafa aðalflutningafyrirtækin tvö haft stórkostlega mikið fé af fyrirtækjum sem hafa orðið að velta kostnaðinum út í verðlag sem hefur bitnað á neytendum. Ég held að allir séu sammála um að þannig virki fákeppni.

Lögmaðurinn talaði eins og hann hefði lesið allar 3.200 síðurnar sem Samkeppniseftirlitið tók saman um samráð fyrirtækjanna. Það hefur tekið hann dágóðan tíma og eitthvað kostar hann. Svo leggur hann nafn sitt við málflutninginn og eitthvað kostar það. Samskipum finnst þess virði að taka hraustlega til varna. Hvað ætli Samskip séu að verja mikla hagsmuni með því að tefla fram sínum besta lögmanni?

 

 


Starfsferill eða árangur?

Já, manni finnst eins og þetta tvennt fylgist að, þá af því að maður er alinn upp við að manni farnist vel ef manni gengur vel í vinnu. Er það ekki rétt hjá mér?

Ég horfði á áhugaverða bíómynd um togstreitu milli þess að taka ákvarðanir í almannaþágu og fórna ferlinum og þess að hlúa áfram að egóinu sem endurspeglast í farsælu starfi.

Ég vil ekki segja meira um það ef einhver skyldi vilja fara inn á RÚV og sækja myndina þar.

Mér er samt óhætt að segja að myndin er um byssulöggjöf og rökin með því að leyfa hinum almenna borgara í Bandaríkjunum að kaupa og eiga byssu til að verja sig og fjölskyldu sína, eins og þar stendur, og rökin gegn því að leyfa hinum almenna borgara í Bandaríkjunum að kaupa og eiga byssu vegna þess að hinn almenni borgari getur verið brjálæðingur og fjöldamorðingi.

Ég ímynda mér að flest sem ég þekki vilji hafa strangt eftirlit með byssueign fólks en þið getið bölvað ykkur upp á að vandræðalega margir almennir Bandaríkjamenn og spilltir pólitíkusar vilja leyfa óhefta byssueign með veikum rökum til þess að byssuframleiðendur geti skarað eld að eigin köku.

Þegar til stykkisins kemur hugsa nefnilega óhóflega margir um eigið hægindi umfram stóru hagsmunina - og það þótt þeir gætu ekki með nokkru móti komið öllum sínum auði í lóg.


Að mótmæla eða ekki að mótmæla

Það er alveg hugsanlegt að konurnar tvær sem klifruðu upp í möstrin á hvalveiðibátunum í fyrradag séu atvinnumótmælendur, svona eins og ýmsir atvinnulobbíistar hjá samtökum. Ég veit ekkert hvort þær brenna fyrir því sem þær gera, frekar en lobbíistar sem beita sér fyrir málstað sem ég veit ekki hvort þeir trúa á.

Með aðgerð sinni sem aðgerðasinnar vöktu þær meiri athygli en lengi hefur verið á hvalveiðum Íslendinga. Sumum finnst allt í lagi að vera lengi að drepa dýr, sumum finnst það ekki. Ég held að okkur þætti öllum óeðlilegt að sarga kind með lélegu verkfæri en ég veit ekkert um vitsmuni eða sársaukastuðul þeirra sem ekki geta tjáð sig.

En erindi mitt í dag er að taka undir með Stefáni Pálssyni, það var fáránlegt að fórnarlambavæða Anahitu og Elissu. Og ég skil ekki enn af hverju bakpoki annarrar með vistum og hlýjum fötum var tekinn af henni fljótlega eftir að þær hófu mótmælastöðuna. Lögreglan segir að það hafi verið til að flýta mótmælalokum og bera mótmælastöðu í atvinnutæki við það að hreiðra um sig í stofu einstaklings með svefnpoka og næringu.

Lögregluþjónninn sem á endanum fór upp með búnað til að hjálpa þeim niður virkaði geðugur og er það sjálfsagt en þessi gjörningur lögreglunnar er henni til skammar.

Borgaraleg óhlýðni og þrákelkni Rosu Parks leiddi til stórkostlegra framfara. Réttur fólks til mótmæla á Íslandi ætti að vera hafinn yfir vafa.


Ef útskriftargjöldin væru ólögleg ...

Viðskiptabankinn minn rukkar mig um 340 kr. í hvert skipti sem ég borga reikninginn minn fyrir að nota kreditkortið mitt. Ég geri ráð fyrir að bankinn myndi rukka mig um þessa upphæð þó að einu greiðslurnar væru föstu greiðslurnar sem eru skuldfærðar sjálfkrafa. Þannig má rökstyðja að það sé hagstæðara að borga meira með kortinu og hafa aðeins eitt kort.

En ef einhver færi í mál við bankann/bankana og á daginn kæmi að útskriftargjöldin væru ólögleg og segjum að allt eldra en fjögurra ára væri fyrnt og ef bankinn neyddist til að endurgreiða viðskiptavinum sínum útskriftargjöldin til fjögurra ára ætti ég inni 48 x 340 kr. = 16.320 kr. Og segjum að viðskiptavinirnir væru 10.000 (sem er mjög hóflegt í næstum 400.000 manna samfélagi), þá hefði bankinn oftekið 163.200.000 kr. á fjórum árum.

Ég er búin að fá mér Indó-kort og nú vona ég bara að Indó haldi sjó til lengri tíma.


Blóð þykkara en vatn?

Ég var að klára Educated eftir Töru Westover, uppvaxtarsögu mormónastúlku sem þarf að hafa mikið fyrir því að fjarlægjast uppruna sinn. Ég held að það sé óhætt að segja að hún sé gædd góðum eðlisgáfum og þótt uppeldið hafi verið ólíkt því sem við þekkjum á Íslandi og grannlöndum kemur hún líka inn í fullorðinsárin með vissa kosti.

Ég vil ekki gera lítið úr því sem gæti verið gott. Engu að síður verður að segja að foreldrar hennar, einkum faðir hennar, reyna að innræta henni andúð á yfirvaldinu, heilbrigðiskerfinu og skólakerfinu. Þau vilja vera sjálfbær og vera eina fjölskyldan uppistandandi ef kemur til heimsendis. Þau birgja sig upp af vistum og eldsneyti, leggja heimatilbúið smyrsl við brunasár og ætlast til skilyrðislausrar hlýðni af börnunum sem eru mörg. Tara á sex systkini og systkini hennar eignast líka fimm til átta börn.

Togstreita Töru bókina í gegn er hvort hún eigi að vera hlýðna dóttirin eða fara að heiman og mennta sig, uppfræða sig, sjá heiminn, skilja heiminn og þá á endanum segja skilið við alla fjölskylduna sem gefur engan afslátt af undirgefni.

Þar sem hún skrifaði þessa bók er augljóst hvort hún valdi. Og þá er að svara spurningunni hvort blóð sé þykkara en vatn. Flestum er mikilvægt að tilheyra fjölskyldu, þeirri sem maður elst upp í og þeirri sem maður kemur sér sjálfur upp seinna. Ég hef aldrei einu sinni reynt að ímynda mér hvernig mér hefði liðið ef mamma og pabbi hefðu snúið við mér bakinu fyrir það að fara í nám, fara til útlanda eða velja mér starfsgrein sem þau hefðu ekki kosið. Það er svo fjarri íslenskum veruleika. Ég hef hins vegar upplifað það að átta mig allt í einu á að ég ætti svikulan bróður og þar sem háttsemi hans var hafin yfir vafa og hann sýndi engan vilja til umbóta heldur forhertist með aðstoð lögmanns lét ég hann róa. Hann var reyndar búinn að blokka mig á Facebook þegar það gerðist þannig að þetta var alveg gagnkvæmt.

Mér þykir vænt um bæði hin systkini mín og við eigum öll í góðum, uppbyggilegum og reglulegum samskiptum. Ég var í innilegum og góðum samskiptum við bæði mömmu og pabba þangað til þeirra jarðvist lauk og sakna þeirra enn en ekki fyrir það að þau voru mamma og pabbi heldur fyrir það hver þau voru. Ef þau hefðu viljað skikka mig til einhvers hefðu þau ekki verið það kærleiksríka fólk sem þau voru.

Sem sagt, ég held að blóð sé ekki þykkara en vatn þegar til stykkisins kemur. Ef einhver blóðskyldur mér er ofstopamaður rennur mér ekki það blóð til skyldunnar að fara eftir boðorðum viðkomandi. Og ég held að þegar fólk áttar sig á því að því ber ekki skylda til að elska vont fólk þótt það sé því skylt eigi það betra líf fyrir höndum. 

Alda Sigmunds sagði frá narsissísku uppeldi móður sinnar í fyrra og það þarf enginn að segja mér að það hafi ekki tekið á hana. Ég sagði frá framkomu bróður míns við okkur systkinin og foreldra okkar og ég veit fyrir víst að einhverjir hugsuðu að ég væri bara athyglissjúk eða þaðan af verra. Sannleikurinn er ekkert alltaf vel séður.

Þess vegna verð ég að taka hatt minn ofan fyrir Töru Westover.


Samskip + Eimskip = tap almennings

Já, ég ætla bara að leggja þetta hér frá mér svo ég gleymi því ekki. En svo vil ég segja: Hver vissi þetta ekki? 

Hver veit ekki að við búum í fákeppnissamfélagi? Ég nefni bankana sem ganga í takt og keppa ekki hver við annan. Ég nefni tryggingafélögin og eldsneytissala. Mögulega eru fjarskiptafyrirtækin í samkeppni en kannski eru þau það ekki.

Ábyrgð neytenda er auðvitað einhver. Ég hef t.d. ekki keypt Freyju-súkkulaði síðan það komst í hámæli að eigendur Freyju eiga líka leigufélagið ÖLMU. Hins vegar er erfitt að vara sig og auðvelt að gleyma sér um stund og versla við þann sem maður vill ekki versla við.

HFF.


Íþróttadalurinn

Ég fer flestra minna ferða, a.m.k. á stórhöfuðborgarsvæðinu, á hjóli og undrast nánast daglega að ekki skuli almennilega gert ráð fyrir að fólk hjóli og erindist. Hjól er fararskjóti, ekki bara afþreying.

Ég hef oft hjólað í Laugardalnum en í dag hjólaði ég framhjá höllinni og sá þá að aðstæður fyrir hjólandi eru afleitar. Það eru hraðahindranir með hvössum köntum og grunsamlega víða eru engir fláar ofan af gangstéttum, bara kantar.

Og samt tala bílaunnendur eins og alltaf sé verið að hlaða undir okkur, hjólafólkið, og vilja helst margfaldar akreinar til að anna allri umferð á öllum annatímum.


Kokhraustur bankastjóri

Ég var að hlusta á bankastjóra Íslandsbanka í útvarpinu. Hann sagði að það væri alltaf sárt að missa viðskiptavini en hann áleit að höggið fyrir bankann yrði ekki þungt þótt þrír stórir viðskiptavinir færu annað.

Mér finnst bankastjórinn alveg fullkomlega hafa misskilið atburðarásina og hafa steingleymt öllu sem hann hefur sagt um auðmýkt. Hins vegar er náttúrlega hrópandi fákeppni á bankamarkaði og þess vegna er óánægja stórra og lítilla viðskiptavina ævinlega léttvæg.

Hvert eigum við að fara? Nú eru að verða forstjóraskipti hjá Kviku og stór leikandi í hruninu mætir til leiks sem gerir Auði að minna fýsilegum kosti.

Arion banki er gamli viðskiptabankinn minn, hét þá Búnaðarbanki, og hefur lagt sig fram um að veita mér lélega þjónustu, villandi upplýsingar og afleit kjör.

Ég veit minnst um Landsbankann en held að Indó geti verið svarið ef hann/hún/það klúðrar ekki framhaldinu.


Trén í Öskjuhlíðinni eða flugvöllur í Vatnsmýri

Ég hef lengi, lengi, lengi verið þeirrar skoðunar að innanlandsflugvöllurinn eigi að fara úr Vatnsmýrinni og kalla enn eftir þarfagreiningu á honum á þessum stað. Hafi hún verið gerð finnst mér að það eigi að auglýsa hana. Með því á ég við könnun á því hverjir nýta sér flugvöllinn, hverjir þurfa á honum að halda og, já, hverjir borga fyrir að nota flugvöllinn á þessum stað. Ég blæs á röksemdir um mikilvægi sjúkraflugs vegna þess að ef mönnum er alvara með það er hægt að nýta sjúkrahúsið í Keflavík. Helstu upphrópsmenn öryggisflugsins láta ekkert í sér heyra þegar slys eða veikindi verða lengst úti á landi og menn komast alls ekkert til Reykjaavíkur.

Og núna, þegar hæstu trén í Öskjuhlíðinni, einni mestu skrautfjöður Reykjavíkur, trufla aðflugið er borðleggjandi að flugvöllurinn þarf að víkja en ekki trén sem hafa sprottið við erfiðar aðstæður og náð þessari truflandi hæð.

Ég minni á að Hótel Borg var byggð í sinni hæð árið 1930 til að trufla ekki aðflugið. Öll byggðin í miðbænum tekur mið af því og íbúar þar gjalda fyrir flugvöllinn með alltof mikilli hávaðamengun.

Ég sé ekki betur en að núna höfum við sem erum á móti flugvellinum þar sem honum var tildrað upp til bráðabirgða í stríðinu fengið hraustleg rök með því að senda hann annað.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband