Helgi í Góu

Hann stendur fyrir síðunni Okkar sjóðir. Óbilandi áhugamaður um bætt kjör aldraðra og ekki vegna þess að hann er sjálfur kominn á efri ár. Við erum með aragrúa illa rekinna lífeyrissjóða sem hafa steingleymt hlutverki sínu. 

Ég skora „á lífeyrissjóðina að fjárfesta í byggingu mannsæmandi húsnæðis fyrir aldraða sem uppfyllir sanngjarnar kröfur um þægindi og einkalíf“.

Sterk auglýsing og meðmæli með því að leyfa fólki að fylgjast að til loka.


Robert Mugabe er orðinn 93!

Ég veit, ég er ekki með nýjar fréttir. Þær eru frekar frá 1924. En hvernig í veröldinni stendur á því að háaldraður maður neitar að hætta afskiptum af stjórn lands þótt stór hluti landsmanna vilji það? ÓRG er þó ekki nema 74 og Angela Merkel 63 ...


Hraðferð á Skagann

Ég á foreldra í sömu stöðu og Þórhalla Karlsdóttir er í. Pabbi er 96 ára, skýr í kollinum og með flest líffæri í góðu lagi en farinn að tapa heyrn, er með lélega húð og valtur á fótunum. Hann fór á Landspítalann í ágúst af því að hann datt illa, þaðan á Landakot og er nú á Vífilsstöðum, búinn að vera í tæpa viku. Hann er með umsókn um dvöl á elliheimili sem guð veit (ef yfirleitt) hvenær hann kemst á.

Mamma datt illa á hnakkann 28. október og hefur síðan verið á Landspítalanum.

Þeirra heitasta ósk er að fá að vera saman á elliheimili. Okkar systkinanna heitasta ósk er að uppfylla þeirra heitustu ósk en þangað til mamma datt var okkur sagt að það væri enginn möguleiki að hún fengi vistunarmat.

Mér finnst þetta ómannúðlegt. Það hefur ekki með stjórnarmyndun að gera núna eða hina um daginn, ekki síðustu stjórn, ekki þarsíðustu, ekki landlækni per se -- en auðvitað snýst það um ákvörðun einhverra að borga svo illa fyrir umönnun aldraðra að ekki fæst nógu margt fólk og tollir svo ekki það sem þó starfar á spítölum. Flest það hjúkrunarfólk sem hefur sinnt þeim síðan í sumar er gott fólk, snúningalipurt og peppandi. En nú eldumst við óðfluga og það verður að manna hjúkrunarheimili og það verður líka að fjölga þeim.

Mér finnst blóðugt að fólk á tíræðisaldri sé aðskilið vegna ellisjúkleika sinna. Getum við ekki öll verið sammála um að það ætti ekki að vera flókið að leyfa gömlu fólki að eiga áhyggjulaust ævikvöld?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband