Stríð er skaðvaldur

Ég átta mig á að í fyrirsögninni felast ekki ný tíðindi en bíómyndin sem RÚV endursýndi í gærkvöldi (gerð 2007) er svo mögnuð að hún kallar á færslu. Stoltir bandarískir foreldrar missa báða syni sína – fyrir föðurlandið gæti maður haldið. En þegar betur er að gáð og pabbinn fer á vettvang, ber í borðið og heimtar rannsóknir og svör kemur ýmislegt á daginn sem ekki síst særir stolt hans sjálfs. Skrifræðið var svakalegt en á bak við allar tölvurnar sem vísa syrgjendum á næstu hæð eða í næstu deild er fólk sem hefur tilfinningar og gerir að lokum það sem þarf.

Sem sagt: Ekkert nýtt en bara svo hrikalega vel gert. Og Tommy Lee Jones og Charlize Theron eru ólýsanlega frábær í hlutverkum sínum. Ég get ekki heldur rökstutt það.

 

 


Stafræn fasta

Ég fékk áskorun um að taka þátt í símalausum sunnudegi. Þetta er samt fyrst og fremst áskorun til foreldra ungra barna um að verja deginum, og sem mestum tíma, með börnum sínum; hlusta, tala, leika - upplifa saman og búa til jákvæðar minningar. 

Margir hafa ábyggilega orðið vitni að því þegar barn spyr foreldri einhvers, ekki vegna þess að spurningin eða svarið sé það mikilvægasta í heimi heldur vegna þess að í því felast samskipti, og foreldrið svarar: Ég veit það ekki en ég skal gúgla. Og barnið hrópar: „Nei, ekki gúgla!“ Það veit að um leið og foreldrið gúglar liggur leiðin yfir á Facebook eða í tölvupóstinn eða fréttaveiturnar og samverustundin breytist í fjarvist á staðnum.

Netið er komið til að vera og netið er himnasending. Ég hef ekki tölu á hversu oft gúglið hefur stytt mér leið og ég nota nokkra samskiptamiðla mér til stakrar ánægju en ég er líka nógu öguð til að leiða þá hjá mér þegar ég þarf að einbeita mér að öðru. Ef ég er á fundi eða námskeiði er síminn hljóðlaus ofan í tösku, en málið vandast auðvitað þegar fólk þarf að geta brugðist við neyðartilfellum, t.d. í sambandi við börn sín. 

Allt fólk getur verið án áfengis og sykurs (bara dæmi) en allt fólk verður að nærast á einhverju. Stafrænan er ekki lengur eins og valkvæður munaður (sykur eða áfengi), við notum hana óhjákvæmilega við leik og störf ... alla daga. Þess vegna get ég ekki lagt netið frá mér í dag en þessi áskorun varð mér samt hugvekja.

Er lesandi minn e.t.v. með tillögu að hinu vandfetaða einstigi milli nauðsynjarinnar sem stafrænn heimur er orðinn og þess að vera laus við óþarfann af honum einhverja parta dags?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband