Með norður-kóreska lífið að veði

Ég hef tilhneigingu til að efast, ég viðurkenni það. Fyrstu 40 eða 60 blaðsíðurnar af bókinni Með lífið að veði geispaði ég af leiðindum. Yeonmi lýsir því hvernig norður-kóreska stjórnin heilaþvær allt fólk og telur því trú um að leiðtoginn, sem er pattaralegur hvar og hvernig sem á er litið, hafi fórnað öllu til að tryggja þegnum sínum gott líf, sem í raun felur í sér baráttu upp á líf og dauða hvern einasta dag.

Mér fannst frásögnin svo þversagnakennd, svo fráleitt að hægt væri að innræta 25 milljóna þjóð þá ímyndun að lífið gæti ekki orðið betra þótt fólk vakni með hungurverki og sofni frá hungurverkjum, hafi hvorki hita né ljós, fái ekki menntun, tileinki sér ekki gagnrýna hugsun, myndi sér ekki skoðanir o.s.frv. 

Nú er ég búin með bókina og finnst frásögnin trúlegri. Lýsingin er mjög átakanleg og ég þykist vita að Norður-Kórea sé í alvörunni svarthol á svæðinu. Hún er samt næstum ofvaxin skilningi mínum, þessi skoðanakúgun á 21. öld, ótti fólks við yfirvöld, baráttan um brauðið.

Það sem þvældist hvað mest fyrir mér var að Yeonmi sem er fædd 1993 skyldi vera búin að skrifa bók og búið að þýða hana á mitt tungumál árið sem hún varð 24 ára. Fæstir sem búa við kjöraðstæður hafa sent frá sér bók á þeim aldri. Á hitt ber auðvitað að líta að hún hafði frá miklu að segja, hún er augljóslega góðum gáfum gædd, flóttinn gekk upp og framhaldið varð henni hagfellt.

Ég á greinilega bara óskaplega erfitt með að tengja við alla þessa skoðanakúgun. Þrátt fyrir alls konar sjálfseftirlit og innri ritskoðun í íslenskri pólitík er þessi hugsun svo yfirmáta fjarstæðukennd.

En erindið sem hún flutti í Dublin 2014 kom út á mér tárunum.


Frönsk svíta á jóladag

Í svona góðu jólafríi hnaut ég um mynd sem var sýnd á RÚV fyrir 10 dögum. Hún er frá árinu 2015 en ég hafði ekkert heyrt um hana fyrr en ég sá hana í sarpinum. Hún er frábærlega gerð ádeila á stríð. Ég skildi það ekki fyrir og ég skil það alls ekki eftir af hverju menn geta ekki lifað í sátt og samlyndi.

Af hverju þarf öll þessi átök? Hver þarf að eiga a) aura, b) lönd, c) völd í miklu meira mæli en hann kemst yfir að nota á ævinni?

Af hverju getum við ekki skipt gæðunum jafnar?


Miðborg verktakanna

Ég veit að þessi færsla er ekki sérstaklega jólaleg en það þyrmdi yfir mig í gærkvöldi þegar ég ætlaði að hjóla Lækjargötuna í húminu. Ég hjóla oft á þessum slóðum en forðast að hjóla Hverfisgötuna og Laugaveginn seinni part dags vegna mannmergðar. Í gær ákvað ég að hvíla mig á Hringbrautinni þar sem framkvæmdir við meðferðarkjarna LSH standa yfir og hjólaði út úr Vonarstrætinu með augun til vinstri. Mér sýndist ég komast í gegnum jaðar á byggingarsvæðinu á Íslandsbankareitnum en þegar ég var rétt lögð af stað grillti ég í girðingu hinum megin og byrjaði að snúa við. Þá kallaði maður eitthvað, kannski: Lestu á skiltið.

Ég sagði, þreytulega: Já, ég er búin að átta mig núna. Af því að hliðið var opið sá ég ekki skilti sem á stendur að svæðið sé lokað. Við spjölluðum aðeins, bæði þreytt á því ástandi sem mæðir á okkur en kurteislega, fannst mér.

Þessi verktaki er bara að sinna verki sem hann er ráðinn til að sinna þannig að mér dettur ekki í hug að andskotast út í hann. Og minn vandi er auðvitað lúxusvandi vegna þess að ég get þó hjólað og gengið í og úr vinnu, í og úr búð, í og úr félagsstarfi, og ég á líka bíl og get farið ferða minna akandi þegar mikið liggur við. En það er samt þreytandi að mæta öllum fyrirstöðunum OG fá skammir fyrir að vera fyrir.

#aðförin


Flest fólk er gott

Einhverju sinni sagði maður: Fólk er fífl.

Þegar ég horfi á fólkið í kringum mig sé ég gott fólk, fólk sem vissulega hefur galla, fólk með skýr persónueinkenni, vel meinandi fólk, já, dálítið trúgjarnt í bland, fólk sem trúir á það góða, fólk sem breytir rétt, fólk sem misstígur sig vissulega, fólk sem á það til að hreyta í einhvern, fólk sem biðst afsökunar, fólk sem vill njóta sannmælis, fólk sem á einhver leyndarmál.

Ég sé alls konar og ólíkt fólk en yfir línuna gott fólk.

Ef allt fólk væri vont væri heimurinn verri en hann er. Ég geri ráð fyrir að til sé vont fólk, fólk sem vill öðru fólki illt, fólk sem vill hrammsa til sín stærri hluta af alheimskökunni en því ber, fólk sem lætur sig engu varða þótt öðrum líði illa. En, kommon, það fólk er í minni hluta.

Já, eins og obbi íslensku þjóðarinnar er ég slegin yfir því sem spurðist út af Klaustri í síðustu viku. Eins og mér heyrist á fólki í kringum mig vil ég að bargestirnir horfist í augu við það sem þau gerðu rangt og axli ábyrgð. Ég sé ekki hvernig einhver sem hefur úthúðað fólki með sérstök einkenni á eftirleiðis að vera trúverðugt í baráttu sinni fyrir það fólk. Ég vona að umræddum bargestum takist að yfirvinna hégóma sinn og breyta rétt og ávinna sér traust til að sinna einhverjum störfum í framtíðinni. En þurfa þau ekki að iðrast til þess og þiggja leiðsögn ef þau finna ekki leiðina út sjálf?

Gleðilega aðventu.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband