RM eftir 21 dag

Stórviðburður hlaupara á Íslandi er eftir sléttar þrjár vikur. Ég var að spá í hvort lesandi síðunnar ætlaði ekki að vera á hliðarlínunni og hvetja mig sirka 42 sinnum. Þetta er bara eðlilegasti vettvangurinn til að spyrja ... hoho.


Tælensku strákarnir

Eins og allur heimurinn óska ég þess að fólk í sjálfheldu komist úr henni. Mér finnst hins vegar (myndrænn) fréttaflutningur af björgun fótboltastrákanna svo ótrúverðugur að ég hlýt að efast. Aðstæður eru þröngar, tímaramminn knappur -- og svo birtast vídeó úr vatninu! Það þarf sérhæfða kafara til að komast að strákunum (og náðu þeir 13 eina glugganum í allt heila sumar til að komast án súrefniskúta í hellinn?) og eru þá líka til sérhæfðir myndatökumenn sem kunna á súrefniskútana og hafa pláss til að athafna sig? Og eðlilega kann enginn við að hafa orð á þessu.

Hvað sem efasemdum mínum líður vona ég virkilega að innilokað fólk komist úr hellinum sínum.


Veðurhæði

Ég hef lengi staðið í þeirri meiningu að ég væri veðurháð og D-vítamíndýrkandi. Nú hefur hins vegar komið á daginn að ég hefst ágætlega við í sólarleysinu (tímabundið), ég á bara bágt með að vera inni þegar veður er kjörið til útivistar.

Þetta var merkismoli annarrar viku júlímánaðar. Hoho.


Málfræðilegt kyn

Nú þarf ég að vanda mig svo pistillinn hljómi ekki eins og nöldur. Ég er áhugamaður um tungumálið og vinn heilmikið við það. Við erum með þrjú kyn í málfræðinni til langs tíma og nú er hán farið að ryðja sér til rúms án þess að hafa unnið sér fullan rétt. Er það fjórða kynið eða undirkyn frá hvorugkyninu? Ég er mjög fylgjandi þróun tungumálsins þar sem það á við en ekki skrumskælingu. Hán er í mínum augum ekki skrumskæling, það hefur með líffræðilegt kyn að gera og skákar málfræðinni.

En ég var ekki einu sinni að hugsa um hán þegar ég skráði mig inn á bloggið mitt núna, ég var að hugsa um þegar kvenfólk er farið að segja: Kona spyr sig, eða: Kona er búin að ákveða sig, þegar okkur er enn tamt að segja: Maður fær ekkert að vita, eða: Maður heyrir ekkert af björguninni, eða jafnvel bara: Ég hef ekkert frétt af framvindu mála. Og þetta sama fólk er gapandi yfir því að margt fólk segi: Menn og konur, þegar dugir að segja: Menn.

Já, mig grunaði að tungan ætti eftir að þvælast fyrir því sem mér liggur á hjarta. Mér finnst sjálfsagt að tungumálið þróist en mér finnst tilgerðarlegt þegar fólk hamast við að tala um allt frá sjónarhóli kvenna -- málfræðilega -- en segir svo út frá sjónarhóli saumaklúbbs kvenna: Komast allir um næstu helgi?

Ef nemendur mínir eru allir kvenkyns segi ég: Flestar eru mættar. Ef hópurinn er blandaður segi ég: Það vantar aðeins fá. Það er mitt innlegg í kynjabaráttu málfræðinnar og þar læt ég einmitt líffræðilegt kyn ráða. Mér finnst mér takast að sniðganga tilgerðina.

Ég veit, þetta er óskiljanlegt ... en mér líður betur ...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband