Að drekka eða ekki að drekka -- í hófi

Háskóli í Washington hefur komist að þeirri niðurstöðu að áfengisneysla sé skaðleg, öll áfengisneysla. Ég hef enga skoðun á því en samt hóflegar efasemdir. Aðallega sækir þó að mér þessi hugsun:

Ef öll áfengisneysla er skaðleg, hljóta þá ekki þeir sem geta alls ekki látið áfengi vera með öllu að hugsa sem svo að þeir geti verið rakir, mildir eða blindfullir alla daga og það komi út á eitt?

 


Reykjavíkurmaraþonið mitt

Það er að bera í bakkafullan lækinn að skrifa eitthvað um laugardaginn, svo mikið sem fólk sá frá honum þá, en ég ætla bara að geyma þessa minningu hér. Ég tók þátt og nú skokkaði ég í fyrsta skipti heilt maraþon. Ég var rúma fimm klukkutíma, gerði mér vonir um tæpa fimm tíma, en á móti kemur að mér leið vel allan tímann og líka strax á eftir og líka í gær og enn í dag. Ég reikna með að mæta á hlaupaæfingu á morgun og ætla í keppnishlaup (5 km) 1. september.

En mig langar mest að hugsa upphátt um hlaupastyrkur.is, hlaupið til góðs sem kallað er. Ég heyri að það hvetji fólk til að fara að stað og það er frábært ef satt er. En ég hleyp mér til skemmtunar og heilsubótar. Almennt. Að þessu sinni ákvað ég, mér til skemmtunar, að snúa styrknum við og hvetja fólk til að hvetja mig og í staðinn mátti það velja hvaða góðgerðarfélög ég styrkti. Ég tók frá 42.200 kr. í styrkina (ekki áheit) og nú er ég búin að skila þeim peningum til átta félaga. Sex þeirra gáfu upp bankaupplýsingar á síðunum sínum en tvö styrkti ég í gegnum hlaupastyrkur.is og þar af leiðandi geta allt að 10% af 10.000 kr. farið í að reka vef Íslandsbanka, sbr. þetta:

Að hámarki 10% af söfnuðu fé í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka fer í kostnað við rekstur vefsins hlaupastyrkur.is, greiðslu færslugjalda o.fl. Þess ber þó að geta að bæði korta- og símafyrirtæki slá verulega af sínum gjöldum til að sem mest af söfnuðu fé geti runnið til góðgerðamála. Árið 2016 var kostnaður 5,08% en hann getur verið breytilegur milli ára.

Nú hafa safnast tæpar 155 milljónir og Íslandsbanki gæti tekið 15,5 milljónir í kostnað við að reka vefinn. Það þykir mér heldur leiðinlegt og þess vegna er ég glöð með að hafa getað lagt beint inn á sex félög af átta. Erum við ekki öll sammála um að bankarnir hafi nóg á milli handanna?


Prófarkalesari spaðjarkar

Frá því um páska hef ég verið að lesa stórvirki Ólafs Jóhanns Sigurðssonar, söguna um Pál Jónsson, blaðamann og prófarkalesara. Mér finnst hún stórkostleg og einhverjum gæti þótt skrýtið í því ljósi að ég væri ekki alveg búin með rúmar þúsund síður á fimm mánuðum. En ég hef aðeins verið að treina mér hana því að þegar vel tekst til, eins og með þessa bók, vill maður fylgja fólkinu aðeins lengur. Fólkinu? Sagan er mestmegnis um tilbreytingarlaust og einhæft líf Páls og margháttaðar hugsanir hans um lífið og tilgangsleysi þess, hernað í opinberu og einkalífi, hvernig hann reynir ævinlega að taka ekki afstöðu en finnst allt mögulegt um allt mögulegt, hvernig hann reynir af hófsemd að hafa áhrif á ritstjórann sinn þannig að hann sitji ekki sýknt og heilagt uppi með það verkefni að þýða hégóma. Hann er umkomulaus, fjölskyldulaus, einfari, siglir milli skers og báru en aftur og aftur biður fólk hann um skoðanir og íhlutun.

Þrátt fyrir hálfgerða uppgjöf Páls gagnvart því verkefni að lifa lífinu lifandi er áhugaverð framvinda í sögunni og meiri spenna en í mögum glæpasögum. *ánægjuandvarp*

Og aldrei hef ég séð orðið prófarkalestur eins oft í neinni bók sem er alveg sérstakur bónus á alla kanta. 

Ég á eftir að sakna Páls alveg innilega en mikið væri ég til í að heyra hvað öðrum finnst. Það er átakanlegur skortur á ritdómum eða úttektum um bókina.

 


Plastpokabann

Í gærmorgun var áhugavert viðtal við Kristínu Völu Ragnarsdóttur um umhverfismál þar sem m.a. kom fram að sums staðar er einnota plast bannað. Vá, hvað ég væri til í það. Viðtalið byrjar á mínútu 1:26:50.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband