EasyJet

Ef maður bókar flug með EasyJet og skráir flugfreyjutösku má maður ekki hafa með sér lítinn bakpoka (án þess að borga aukalega), bara kvenveski. Af hverju sagði mér þetta enginn? 

surprised

Ef maður getur troðið bakpokanum ofan í töskuna sína má maður hins vegar innrita flugfreyjutöskuna án aukagjalds.

Nú er ég farin að hlakka mikið til að athuga hvaða reglur Egyptair hefur ... en það verður ekki fyrr en eftir fjóra mánuði.


Mörk einkalífs og vinnu

Þetta er búið að vera að brjótast um í mér en er samt svo einfalt. Ef við erum að vernda einkalíf starfsmanna og leggjumst þess vegna gegn því að starfsfólk blandi vinnunni í einkalífið með því að svara í símann eða lesa vinnupósta heima, ætti þá ekki líka að vera bannað að svara einkasímtölum á vinnutíma, utan hefðbundinna neysluhléa?

Ég skil hugsunina um kulnun þegar álag er mikið á öllum vígstöðvum og er hlynnt varfærni en erum við ekki á leið út í miklar öfgar? Ég er venjulegur launþegi í skemmtilegri vinnu sem er eins og klæðskerasaumuð handa mér, minni menntun og mínum faglega áhuga. Ég veit að ekki eru allir svona heppnir. Ég bæði les vinnupósta eftir að vinnutíma lýkur og svara einkasímtölum á vinnutíma en nota að öðru leyti vinnutímann til að sinna vinnunni. Sveigjanleikinn verður að virka í báðar áttir.


Fyrstur í öðru sæti?

Rúnar Örn Ágústsson kláraði tímaþraut karla á heimsmeistaramótinu í tímaþraut í gær, fyrstur Íslendinga, en daginn áður hafði Ágústa Edda Björnsdóttir leikið það sama eftir í kvennaflokki.

Er það hægt? Er hægt að vera fyrstur í mark við að vera annar? Leiðinlegt fyrir Rúnar að verða þekktur fyrir að vera fyrstur númer tvö eða hvernig í veröldinni á maður að skilja þessa frétt?

Eins og aðrir virkir Facebook-notendur og almennir lesendur hef ég séð umræðu um nafnleysi kvenna á myndum þar sem þær eru í forgrunni en ekki nafngreindar. Þetta ristir dýpra eins og sést í fréttinni af hinum glaða Rúnari sem varð „fyrstur Íslendinga“ til að afreka það sem kona hafði gert deginum áður.

Þetta minnir mig á daginn sem ég keyrði (laust) á bíl sem var á undan mér yfir á ljósum af því að bíllinn sem ég var á var ekki fremstur. Skiljið þið það? Ég var svo makalaust óheppin að vera ekki fremsti bíll í röðinni. Málið er bara að ég skildi það strax og stuðararnir nudduðust saman. Já, það að ég var ekki fremsti bíll á ljósunum. (Ég endurtek svona oft ef ske kynni að íþróttafréttakarlmaður skyldi rekast inn á síðuna. (Íþróttafréttamaður sem þekkir ekki muninn á 1. og 2. sæti.)) Það eru sirka 30 ár síðan, ég var nýlega komin með bílpróf og lá voðalega mikið á.

Konur afreka. Konur geta. Konur kunna. Ekki allar, ekki allt, ekki frekar en allir karlar, en ekki síður en karlar.


Þangað vill fé sem fé er fyrir

Ég hélt að textinn í fyrirsögninni væri málsháttur úr Íslendingasögunum en svo er víst ekki. Ég finn þessa tilvitnun í einni minningargrein og hún er öfugmæli þannig að hún passar enn betur en ég ætlaði mér.

Ég er ekki öllum stundum að hugsa um bróður minn sem fékk lánaðan hjá mér haug af peningum árið 2008 eða 2009 og ætlar ekki að endurgreiða mér þótt hann geti það núna en mér varð hugsað til hans í gærkvöldi þegar ég var gestkomandi í húsi þar sem var sjónvarp. Já, nei, ekki alveg svona einfalt, auðvitað eru alls staðar sjónvörp en við þetta sjónvarp var Apple TV og aðgengi að Netflix. Ókei, já, ég veit að það er frekar algengt. Ég eignaðist líka Apple TV fyrir nokkrum árum og GAF þessum bróður mínum það af einhverri vangá og ég gaf honum líka Garmin-hlaupaúr af því að ég fékk tvö í stórafmælisgjöf ... og ég vorkenndi honum alltaf svo óskaplega mikið fyrir að eiga aldrei pening og geta aldrei keypt sér úr og svona.

Dæs, hvað ég var mikill vitleysingur. „Þangað vill fé sem fé er fyrir.“


Forgengileiki lífsins

Auðvitað eru margir búnir að uppgötva að lífið er tilgangslaust. Við fæðumst og deyjum og svo er bara spurning um hversu gaman við getum haft þar á milli. En nú eru mamma mín og pabbi dáin með stuttu millibili, gamalt fólk en kjölfestan mín í lífinu, og þótt þau hafi samt ekki verið þungamiðjan í öllu sem ég gerði á fullorðinsárunum finn ég svo sterkt að þeim gengnum að lífið er óendanlega forgengilegt. Enginn var tengdari þeim en við systkinin en samt eru þau komin í þoku. Ég sakna þeirra mikið og fæ af og til skelfilegar gráthviður, líka stundum þegar ég hugsa um að þau hefðu getað gert meira sér til skemmtunar. Lífið heldur samt áfram án þeirra, hégómlegt og tímabundið en sem betur fer oft skemmtilegt svo ég endi ekki færsluna í tómu svartnætti.

 


Ef maður flytti til útlanda ...

Ef maður flytti til útlanda og kæmi ekki heim til Íslands í þrjú ár ... hvers skyldi maður sakna mest fyrir utan fólkið sitt? Sundlauganna, sagði maður. Sjósundsins? spyr ég. Birtunnar kannski í október? Hreina loftsins? Heimurinn er orðinn svo lítill, eða stór eftir atvikum, með tilkomu netsins að allar fréttir berast jafn hratt til Kambódíu og Súgandafjarðar. Ég held samt að ég myndi sakna kunningjanna því að ég myndi alltaf halda sambandi við vinina. En það yrði náttúrlega flóknara í Simbabve en í Kaupmannahöfn.

Já, það er laustengslanetið og spjöllin á götuhornunum sem ég sæi fjara út.


samromur.is

Ég mætti á mjög gefandi morgunmálþing um íslenskuna í morgun. Nokkrar stofnanir héldu það, þar á meðal Almannarómur sem er sjálfseignarstofnun sem mun hafa umsjón með smíði máltæknilausna en svo skemmtilega vill til að máltækni er áhugamál mitt til margra ára(tuga).

Erindin voru fjölmörg, öll stutt og flest upplýsandi. Ég hef hnóhnikað mér í kringum það málefni í nokkur ár þannig að ekki allt kom mér á óvart en ég var sannarlega ekki búin að átta mig á að svona víða væri svona margt komið vel áleiðis, t.d. í bönkunum.

Og svo er búið að opna Samróm og við erum öll hvött til að gefa raddsýni. Við ætlum ekki að glata íslenskunni, við ætlum bara að þróast saman.


Eliud Kipchoge 1:59:40

20191012_082513

 

 

 

 

 

 

Það var svo margt geggjað við að sjá Keníamanninn Eliud Kipchoge hlaupa heilt maraþon undir tveimur klukkutímum í morgun. Hann var afslappaður, hann var glaður og hann var hvetjandi. Við þurfum ekki öll að slá met í íþróttum og ekki að vinna allan heiminn, bara bæta okkur sjálf og setja okkur raunhæf markmið sem við vinnum síðan að.

Það fundust mér vera skilaboðin frá Eliud og ég fer öll glaðari út í daginn.

En hann hljóp nokkra kílómetra í skólann þegar hann var krakki og á tímum loftslagskvíða er hollt að minnast eigin vélarafls þótt maður ætli ekki að setja heimsmet í hlaupum.


Strætó fer til Keflavíkur

Voruð þið búin að frétta það?

Mér skilst að Strætó bs. sé ekki með aðstöðu eins og flugrúturnar en miðað við áætlun fer strætó fyrir helmingi lægri fjárhæð (og með aðeins fleiri krókum) í flugstöðina. Mér finnst bara svo skrýtið að ég hafi þurft að uppgötva það með netleit. En bráðum mun ég láta reyna á!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband