Enn verið að innheimta ólögleg smálán?

Getur þetta verið? Hvað með leyfi þessara smálánafyrirtækja? Einhvern tímann hafa þau verið veitt. Er ekki hægt að afturkalla þau? Eða má hver sem er byrja að lána fólki 10.000 kr. í gegnum app og rukka 20.000 kr. viku síðar? 

Lög eru brotin. Er virkilega svona flókið að beita viðurlögum? Ef maður keyrir of hratt eða yfir á rauðu ljósi missir maður kannski ekki punkt (eða fær hann, hvernig sem það er hugsað) ef maður krossleggur handleggina og setur upp fýlusvip. Ræður maður hvenær maður fer að lögum?

Hvernig stendur á að ekki er hægt að uppræta ólöglega starfsemi?


Fokkings smálán

Fjármögnunarfyrirtæki

 Ég veit ekki til þess að ég þekki neinn sem hefur fengið smálán með ólöglegum vöxtum en geri ráð fyrir að ég þekki samt einhvern sem hefur fengið þannig lán eða þekki a.m.k. einhvern sem þekkir einhvern sem hefur tekið smálán. Hvað sem mér líður hafa þessi lán verið á markaði og einhverjir hafa nýtt sér þau og okurvextir hafa verið lagðir á og innheimtir.

Djöfulsins.

Hóparnir sem eru útsettastir fyrir þessum lánum eru þeir sem eru viðkvæmir fyrir, sjálfsagt með lítið fjármálalæsi og áreiðanlega svo illa staddir fjárhagslega að þeir geta alls ekki endurgreitt mörg þúsund prósent vexti á neyslulán, kannski til að geta keypt í matinn eða kannski bara nammi með bíómyndinni. Öll gagnrýni mín hér beinist að þeim sem nýta sér þessar smugur.

Nú er enn búið að fjalla um ólögmæti þessa en þegar ég opna veðurappið í símanum mínum er auglýsingaborði frá „fjármögnunarfyrirtæki“.

Fokk. Útilokið þessi fyrirtæki, þið sem hafið verkfærin til þess. Ég exa auglýsinguna út en einhverjir slá kannski lán og eru svo ekki borgunarmenn fyrir þessum fáránlegu vöxtum sem eru enn rukkaðir.

Svo er ég að hugsa um annað. Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, segir óljóst hver muni tryggja að Kredia Group endurgreiði oftekna vexti af smálánum. Þar sem smálánafyrirtækin séu hvorki leyfis- né skráningaskyld hér á landi sé erfitt að meta umfang lánanna.“ Hver ætlar að borga kostnaðinn við að skoða umfangið og reikna þetta út? Við erum ekki að tala um einn dag hjá Seðlabankanum/Fjármálaeftirlitinu eða umboðsmanni skuldara, við erum örugglega að tala um fimm stöðugildi í heilt ár. Hvernig væri að láta okrarana skila peningunum til þeirra sem voru ofrukkaðir og borga svo bara sekt fyrir að brjóta lög?

Fokk. Ef ég væri í pólitík væri þetta hitt málið sem ég myndi eyða öllum mínum kröftum í að breyta.

 

 

 


Hattur ofan fyrir Gretu Thunberg

Vá, vá, vá. 


Kvöldsólin

Þegar ég sé núna myndir af vinum mínum í svartnætti útlandanna verð ég svo glöð með kvöldsólina á svölunum mínum eða í Nauthólsvíkinni minni. Ég hef aldrei verið áhugamaður um utanlandsferðir á bjartasta tímanum hér en það er gott að fá áminninguna annað slagið.

Reykjavík (er okkar) rokkar!


Að fara málvillur vegar

Fyrir nokkrum dögum stofnaði Borgarbókasafnið málvilluþráð á Facebook. Mér fannst það bara ágætlega til fundið en nokkuð margir tóku það óstinnt upp og töluðu um að með því að tala um málvillur væri verið að fæla fólk, kannski helst yngsta fólkið, frá því að tala íslensku. Kannski er eitthvað til í því. Það er óvíða, skilst mér, sem fólk er dregið sundur og saman í orðum fyrir að verða fótaskortur á tungunni eða hreinlega þekkja ekki orðatiltæki og fara „rangt með. Hér jaðrar það við stéttamismunun.

Ég hef örugglega haft orð á því hér áður en við þetta tækifæri rifjast upp fyrir mér þegar „einhver“ (sem ég man nafnið á en vil ekki skrifa) fór eins og stormsveipur um internetið eftir hrunið 2008 og gagnrýndi málfar og rithátt þeirra sem honum var uppsigað við í pólitík. 

Borgarbókasafnið bryddar upp á ýmsu skemmtilegu, biður ekki síst fólk um að nefna skemmtilegar og minnisstæðar bækur, en kannski ættum við að stíga varlega til jarðar í þessum efnum. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband