Ódýrt í Egyptalandi?

Ég bý í lúxuslandi þar sem fólk hefur það upp til hópa gott. Nú er Efling að sönnu í verkfalli og það bitnar á ýmsum. Verð er víða of hátt fyrir kaupgetu fólks. Veður heftir ferðafrelsi. Sumt fólk á ekki til hnífs og skeiðar. Allt er þetta verra en við viljum en ekkert okkar þarf að óttast fyrirvaralausa skothríð hjá lögreglu, við 

búum flest í upplýstum og upphituðum húsakynnum, börnin fara í leikskóla, fólk fær og er í vinnu, fær laun og getur ferðast til annarra landa.

Ég var viku í Egyptalandi. Við fórum tvö að gamni okkar til að hlaupa hálft maraþon í píramídamaraþoninu 22. febrúar, keyptum flugmiðana sjálf, skráðum okkur í hlaupið, bókuðum hótel í tvær nætur í Kaíró og ákváðum að impróvísera eftir það. Ég fór á fjögurra kvölda námskeið um Níl í janúar til undirbúnings og það var fínt en dugði mér ekki neitt til að fóta mig í arabíska heiminum.

Sólarlagið í Lúxor
Einar lendir á mynd með heimamanni í KarmalÞumall - við vorum SVONA ánægð með loftbelginnEinar bendir á hlaupaleiðina

Við létum bólusetja okkur og tókum með okkur Imodium ef við þyrftum að stemma magann og handspritt af því að sérstaklega var mælt með því.

Og hvað ætla ég að fara að segja?

Ég er að hita mig upp til að segja að þrátt fyrir að það hafi verið gaman að sjá píramídana, hofin og aðrar menningarminjar, fljúga í loftbelg, sigla á Níl og mara í sólinni er fátæktin yfirþyrmandi. Við sáum engum ógnað af lögreglu en sáum auðvitað marga með riffla þrátt fyrir að við værum að mestu í vernduðu umhverfi. Um leið og maður gekk í gegnum markað eða bara eftir götunni hópuðust að okkur sölumenn sem vildu selja okkur styttur, ævafornan papýrus, flíkur og ilmefni. Ég á frekar auðvelt með að afþakka kurteislega og ganga áfram en samt enduðum við á að kaupa slatta sem mig langar ekki að eiga.

Einu sinni gengum við eftir klassískt klósett- og pylsusjopp (auðvitað engar pylsur samt) út í rútu sem var að ferja okkur frá Kaíró til Lúxor með léttan poka af kartöfluflögum og kexi og smávegis teglundur í maganum og borguðum fyrir það 200 egypsk pund sem er rétt innan við 2.000 kr. Við fengum aldrei til baka í peningum, við fengum alltaf viðbótarmun sem við báðum ekki um. Auðvitað vorum við aflögufær og við gáfum þjórfé, oft í bandarískum dollurum, en sölumaðurinn sem raðaði sjálfur í pokann og ákvað þar með hvað við ætluðum að kaupa og hvað við ættum að borga suðaði svo um minjagripi frá Íslandi handa konunni sinni. Og það hefðu ekki átt að vera ísskápaseglar eða myndir af jólasveinum, nei, hann talaði um farsíma og heyrnartól. Ég held að þessum tveimur heimum semji ekki of vel. Og svo var enskan skelfilega takmörkuð nema hjá örfáum sem við hittum. Ég man bara eftir leiðsögukonunni sem fór með okkur um í hálfan dag og einum sjálflærðum leigubílstjóra sem hafði lært ensku á markaðnum af ferðamönnum.

Ef ég fer aftur til Egyptalands, sem ég á ekki von á, yrði það til að vera í lengri tíma þar sem ég settist að í einhverju þorpi og kenndi börnum ensku. Við Einar gengum einu sinni í flasið á krakkahópi sem var allur með farsíma í höndunum og helmingurinn bað mig um að fá að taka mynd af sér með mér. Ljóshærða fólkið er enn fáséð, líka í borgunum.

Ég kem heim stútfull af D-vítamíni og tekst glöð á við íslenska vorið en ég er leið yfir misskiptingu heimsins. Þótt maður viti af henni víkkar svona ferðalag út skynjun manns á aðstæðum.


Egyptaland í felulitunum

Ég er búin að vera nokkra daga að flækjast um Afríku, nei, bara um Egyptaland, og þótt þetta aé allt tilkomumikið, píramidar og hof, er samt rosalega lítill litur í öllu. Ég er fyrir aðeins fleiri og bjartari liti.

Fannst bara að þú ættir að frétta þetta núna ...


Styttum vinnuvikuna verulega

Hvernig var umhorfs í íslensku samfélagi fyrir tæpum 50 árum þegar vinnuvikan var stytt úr 44 í 40 stunda vinnuviku með lögum? Fjöldi kvenna var heimavinnandi eða í hlutastarfi á launamarkaði. Verkaskipting var skýrari. Áreiti var minna, bæði af almennri afþreyingu og auðvitað ekkert af samfélagsmiðlum. Annað foreldrið, ef við gefum okkur að foreldrarnir hafi axlað ábyrgðina sameiginlega, sinnti nauðsynjaverkum heima fyrir og hitt aflaði teknanna. Starfsfólk átti auðveldara með að einbeita sér. Sumarfrí voru meira á sumrin. Þegar fólk fór til útlanda var það helst ekki fyrir minna en mánuð.

Á hálfri öld hafa tækniframfarir orðið brjálæðislegar og við hljótum flest að hafa fundið fyrir því hvað tæknin hefur auðveldað okkur vinnuna og stytt ferla. Tölvupóstur. Viðhengi. Heimabankar. Sameiginlegur símamarkaður í Evrópu. Gervigreind!

Ef vinnuvikan væri stytt um heilan dag ættum við að geta ætlast til þess í hálfa öld að fólk hætti að skreppa mikið í vinnutímanum. Ég heyri fólk kvarta undan álagi í vinnu en ef betur er að gáð er álagið kannski ekki síst heima. Það þarf að keyra börnin í frístundir og mæta á tónleika eða leiksýningar ásamt því að mæta á foreldrafundi. Sjálfsagt mál, auðvitað, en hættum að pakka því inn í vinnutíma og kenna vinnustaðnum um. Ég segi þetta með öllum fyrirvara um að sums staðar er ekki sveigjanleiki í vinnu og þar mæðir mikið á starfsfólki.


Veira og flensa

Eins og margir aðrir hugsa ég fréttir út frá sjálfri mér. Ég er búin að vera 18 ár á sama vinnustað og veikindaskráningar er hægt að skoða 12 ár aftur í tímann. Á þessum 12 árum er ég með átta veikindadaga; þar af fjóra árið 2008 þegar ég var svo slæm af flensu að ég reisti ekki höfuðið frá kodda. Af þessu má glögglega sjá að ég er hraust og ég þakka fyrir það flesta daga. Þess vegna hugsa ég út frá sjálfri mér að ég muni ekki veikjast af COVID-19 þótt aðrir óttist ef til vill um sig. En ég spyr út frá öllum útvarpshlustendum: Er nauðsynlegt að byrja flesta útvarpsfréttatíma á tíðindum af því hversu margir hafi sýkst af veirunni og hversu margir látist?

Vitum við hversu margir látast úr þunglyndi, fíknivanda og umferðarslysum frá degi til dags?


Jóker

Ég dreif mig í bíó. Myndin var frumsýnd í Reykjavík í október þannig að við þurftum ekki að kaupa miðana á miðjum degi eins og við óttuðumst. Það voru kannski 30 manns í salnum, alveg nógu margir svo sem en mér finnst samt skemmtilegra að vera í vel fullum sal.

Bíómyndin? Tónlistin? Drungaleg og niðurdrepandi en líka hugvekjandi. Hlátur og grátur eru tvær hliðar á sömu grímunni og stundum hlær maður mest þegar manni líður verst. Hlátur er líka taugaveiklunarviðbragð gagnvart ógn og vanlíðan og þarf sannarlega ekki að bera vott um húmor eða gleði.

Innihald? Ranghugmyndir og niðurlæging. Hversu mikið þarf að ganga á til að fólksmassinn fagni almennum glæpum og ofbeldisfullum morðum? Hvenær verður bylting?

Meðmæli? Mér fannst hún vel leikin en sumt í atburðarásinni svo fjarstæðukennt að ég held að ég hafi kannski verið að horfa á teiknimynd. Hrikaleg heimsmynd og ég fór niðurdregnari heim af því að ég held að heimurinn gæti verið svo miklu betri fyrir stærsta hópinn. Lífið er ósanngjarnt og sumt fólk dregur bara stutta stráið og getur aldrei bætt sinn hag.


Kvennaathvarfið

Bróðir minn sem ég hef minnst á einu sinni eða kannski 40 sinnum hér nýlega hefur ekki mér vitanlega gert sig beran að líkamlegu ofbeldi. Hins vegar misnotaði hann traust mitt og mun e.t.v. takast að koma sér hjá að borga skuld við mig sem var 7 milljónir árið 2008 og hann gengst við en ber fyrir sig fyrningu af því að ég byrjaði ekki að rukka hann af hörku innan fjögurra ára frá lánveitingu.

Ég vann fyrir þessum peningum og ætlaði aldrei að gefa honum þá. Hins vegar er ég ekki á flæðiskeri stödd og er margbúin að segjast ætla að láta 5 milljónir renna til Kvennaathvarfsins þegar hann skilar láninu. Nú er ný frétt af einmitt Kvennaathvarfinu sem veitti örugglega ekki af smáinnspýtingu (frá mér).

Það hlýtur að muna um 5 milljónir frá einstaklingi þegar menn klöppuðu hér mikinn fyrir 90 milljóna króna landssöfnun fyrir tveimur árum. Það söfnunarfé gæti dugað fyrir þremur litlum íbúðum og mitt framlag þá fyrir baðherbergi í þeirri fjórðu.


Fjórða iðnbyltingin

Ég skil að fólk hafi áhyggjur af störfunum sínum og afkomu ef tæknibyltingar valda straumhvörfum í lífi einstaklinga. Ég sé og heyri að sumt fólk ætlar ekki að versla við sjálfsafgreiðslukassana í stórmörkuðum af því að þeir taki störf frá fólki og sjálft fær það ekki einu sinni afslátt fyrir að afgreiða sig og skanna vörurnar. Ég hef heyrt fólk tala um að það ætli ekki að lesa af mælunum fyrir OR eða ON eða hvað sem Orkuveitan heitir núna.

Ég skil að fólk hafi áhyggjur og mér finnst að stjórnvöld eigi að taka mark á þeim og hugsa næstu skref. Hvað ef hér verður 10% atvinnuleysi vegna þess að vélar leysi fólk af hólmi? Hvað ef 24 stunda vinnuvika nægir til að vinna verkefnin sem áður tók 40 tíma að vinna? Mér finnst eðlilegt að bæði fyrirtækin og starfsfólkið njóti góðs af framförunum. 

Eða viljum við ekki að fólk lifi af, sé matvinnungar og geti leyft sér aðeins meira en að þokast úr húsi?

Ég sé – búin að lesa internetið svolítið í dag – að sumir mæla með borgaralaunum, að allir séu með lágmarkslaun hvort sem þeir kjósa að vinna eða ekki, og að fólk geti síðan bætt tekjur sínar með vinnuframlagi. Ég veit að hugmyndin um borgaralaun er ekki langt komin og ég er ekki búin að leggja niður fyrir mér hvernig ég sé þau virka.

En það er mikilvægt að ávinningurinn af fjórðu iðnbyltingunni og gervigreindinni safnist ekki á fárra hendur heldur dreifist víðar.

Svo minni ég á að við notum heimabanka, sjálfvirkar þvottavélar, talíur, bíla, síma og stafrænar myndavélar sem við framköllum sjálf myndirnar úr. Við getum beðið um söluyfirlit meðan við skoðum fasteignaauglýsingar á vefnum, pantað flugferðir í sófanum o.s.frv. Við viljum ekki missa neitt af þessu en allar þessar breytingar tóku störf af fólki á sínum tíma.

Ég er íslenskufræðingur og get því trútt um talað. Starfssviðið mitt verður ekki vélvætt eins auðveldlega og ýmis færibandavinna. En kannski ákveðum við eftir nokkur ár að hætta að tala íslensku eða láta hana deyja út með aldamótakynslóðinni og þá er ég og allt mitt fólk atvinnulaust. Við getum samt ekki látið einstaklinga standa í vegi fyrir framþróun.

Af persónulegum ástæðum er ég búin að segja upp mínu góða starfi og þannig hleypi ég öðrum að, kannski yngri og ferskari eða eldri og ferskari, því að mér finnst í alvöru að við eigum að breyta til. Með haustinu ætla ég að horfa í kringum mig eftir öðru starfi, kannski á öðrum starfsvettvangi. Ég væri mjög til í að gera eitthvað sem gagnast fólki en samt er ég ekki viss um að ég treysti mér til að vinna á elliheimili fyrir 300.000 kr. brúttómánaðarlaun.

Jebbs, hér á blogginu læt ég flakka alls konar og ýmislegt sem mitt nánasta fólk heyrir mig aldrei segja.


Þegar fíflunum fjölgar í kringum mann

... þarf maður að líta í eigin barm. Ég geri það iðulega vegna þess að ég er gagnrýnin. Ég ætlast til þess að fólk leggi sig fram. Ekki alltaf en oftar en ekki. Ég er ekki ánægð með þessa kröfuhörku mína og hef reynt að draga úr henni. Við erum öll glaðari ef ég verð ekki kýtt í öxlunum af vonsku yfir leti fólks. Merkilegt nokk hef ég samt aldrei verið með vöðvabólgu. Aldrei – og vinn þó við tölvu. 

Ég hreyfi mig talsvert mikið af því að ég hef hreyfiþörf og af því að mér finnst gott að borða. Ég borða samt of mikið nammi og hreyfi mig þess vegna of hægt þegar ég ætla að hlaupa hratt.

Ég á engin börn og það er galli. Ég hef fyrir vikið ekki þurft að henda öllu til hliðar og sinna barni af óeigingirni. Ég hef fullan skilning á því að fólk þurfi að fara úr vinnu vegna barna og sinna þeim í veikindum en ég er samt aldrei í þeim sporum sjálf og virka örugglega stundum sinnulaus gagnvart svona amstri. Ég er samt mjög glöð með að fólk eignist börn og komi þeim til manns. Þakklát.

Ég er hvorki lesblind né skrifblind en get verið svolítið blind á að aðrir eigi erfitt með að koma frá sér texta. Ekki samt þegar ég tek að mér að prófarkalesa, heldur þegar fólk í sömu stöðu og ég er í gerir aulavillur í of stórum stíl og man ekki reglur sem teymið hefur komið sér saman um. Ekkert að því að fletta upp, maður á stundum að efast um eigið minni og ágæti.

Ég hef aldrei hringt mig veika í vinnu án þess að vera það. Ég hef hins vegar mætt með beinverki og hita í vinnu og biðst afsökunar á því. Það henti mig meira að segja einu sinni þegar ég vann við matvælaframleiðslu. Ef súkkulaði telst matur.

Ég hef aldrei verið blönk en fór upp í þakið á kreditkortinu í haust og fannst hressandi að reka mig í það. Eitt augnablik fannst mér ég skilja fólk í fjárhagserfiðleikum. Það leið hjá.

Ég er ekki spontant og vil yfirleitt fá fyrirvara áður en fólk kemur í heimsókn. Ég er mannblendin en þarf stundum mitt næði og hef sleppt því að svara símanum. Samt er ég bæði málgefin og góður hlustandi þegar mikið liggur við.

Ég er ótrúlega miklu lokaðri en ég virka á blogginu.

Ástæðan fyrir þessu mikla ranti mínu? Jú, ég er ekki þjófur og siðleysingi eins og Gummi bróðir minn. Honum finnst hann samt hafinn yfir gagnrýni og mun ekki skila lánsfénu ef hann kemst upp með að svíkja mig um það. Og guð má vita hvort hann prettar ekki heimilisfólkið á Sólheimum þar sem hann vinnur sem garðyrkjufræðingur.

Að lokum minni ég á að þegar hann skilar mér öllum peningunum hef ég eyrnamerkt 5 milljónir í Kvennaathvarfið. Hann er því ekki bara að stela af mér peningum. Og þótt ég fari vel með finnst mér ekki réttlætanlegt að hann steli af mér peningum eða sigi á mig iðnaðarmönnum með svimandi háa reikninga eins og hann stundaði í eina tíð.

Ég veit að ég er búin að eyða of mikilli orku í að rifja upp gallana á honum, þessum bróður mínum sem er búinn að vera óvirkur alki í rúm 30 ár en áfram haldinn mikilli fíkn. Kannski er hann í dópi sem gæti þá útskýrt af hverju hann á aldrei peninga og hefur aldrei haldist á þeim.


Ósveigjanleiki

Ég á það til að vera ferköntuð. Rétt er rétt og annað er rangt. Grátt er málamiðlun þegar hlutirnir eru hvítir eða svartir. Ég skil t.d. ekki að fólk helgi sig ekki vinnunni á vinnutíma, auðvitað með eðlilegum hvíldarhléum og læknisferðum. Og ég er að reyna að taka mig á, hætta að vera svona einstrengingsleg. Ég fæ alveg verki í beinin þegar fólk er tvo tíma í mat og skilur verkefnin eftir hjá samstarfsfólki. Auðvitað veit ég og allir sem lesa þetta að það á enginn að gera. Ímyndum okkur leikskóla eða spítala. Kalt vatn rennur mér milli skinns og hörunds.

En ég vinn bara við prófarkalestur. Komman skilur ekki milli feigs og ófeigs. Klukkutími til eða frá bjargar ekki eða fargar lífum. En ég get ekki svikist um. Í öllum störfum hef ég reynt að slaka á gagnvart leti og vinnusvikum en ég get það ekki. Og það er ekki ótvíræður kostur, ekki einu sinni fyrir þann sem borgar mér launin.

Eins er með bróður minn. Ég lánaði honum 7 milljónir árið 2008. Það er mikill peningur og ég átti hann af því að ég a) hafði nýlega selt íbúð og ekki keypt aðra, b) er vinnusöm og ráðdeildarsöm. En er kominn tími á að ég sleppi tökunum og sætti mig við að tapa peningunum? Mér býður við bróður mínum sem er ómerkilegur en ekki líkamlegur ofbeldismaður. Er það verst fyrir sjálfa mig að gefa ekki eftir?

Svo minni ég (mig) á að ég ætlaði að láta allt handveðið, 5 milljónir, í Kvennaathvarfið af því að ég er fjárhagslega ekki á flæðiskeri stödd. Hann er sem sagt ekki bara að stela frá mér, Gummi bróðir minn. En hver veit nema hann hlunnfari fólkið á Sólheimum þar sem hann vinnur ef eitthvað er að marka símaskrána. Deildarstjóri Ölurs, þvílík forfrömun hjá manni sem hefur aldrei tollað í námi eða vinnu og er orðinn 58 ára gamall. 

Nei, nú verð ég að muna að grátt er ekki alvont. Hann er kannski góður við spírur.

Tilhugsunin að láta hann komast upp með þjófnaðinn nístir mig samt alla af því að það er ósanngjarnt, en hvenær er stundin runnin upp að játa sig sigraða? Sem betur fer er aðallega gott fólk í kringum mig, skemmtileg verkefni og mörg ævintýri á döfinnni. Og ég get ekki verið samviska alls Íslands og ekki upprætt alla misnotkun fjár og alla spillingu. Það er lýjandi að rogast með alla þessa samvisku.

Ég afritaði mynd af mínum óheiðarlega bróður af því að hvað sem gerist vil ég að fólk viti að hann er þjófur. Hann er gaurinn í rauðu úlpunni. Hinn þekki ég ekki og bið hann nafnlaust afsökunar á myndbirtingunni.


Atvinnulausir lögfræðingar

Nú hefur það verið sagt upphátt að lögfræðingar elta þá sem slasa sig (eða ekki) til að bjóða fram aðstoð þótt þeir sem í hlut eiga hafi ekki endilega hugsað sér að fara í mál. Ég er ekki hissa miðað við það sem ég hef heyrt upp á síðkastið. Þetta minnir mig á söguna af konunni sem keypti sér kaffi í máli til að taka með sér, hellti á gólfið (óvart hef ég gefið mér en hvað veit ég?), rann í kaffinu sínu, meiddi sig og fór í mál við kaffihúsið fyrir að selja sér svo heitt kaffi að hún réð ekki við það.


Um þá staðreynd er ekki deilt

Já, lögmaður bróður míns, sá sem tekur kannski 25.000 kr. á tímann, sagði þetta á fundi við mig í dag: Um þá staðreynd er ekki deilt að þú lánaðir bróður þínum 7 milljónir og að hann hefur ekki endurgreitt þá skuld.

Hnífurinn stendur bara þar í kúnni að skv. fyrningarlögum er skuldin fyrnd. Það var samkomulag um það að Gummi myndi borga mér skuldina þegar hann fengi pening, í síðasta lagi þegar hann fengi arf ef hann eignaðist ekki pening fyrir skuldinni áður. Ég hafði ekki einu sinni hugmyndaflug til að halda að hann ætlaði ekki að standa við það samkomulag.

Aðrir ættingjar voru búnir að sjá í gegnum hann. Ekki ég.

Nú á hann fyrir skuldinni en ætlar ekki að borga. Skilaboðin frá lögmanninum - sem ég viðurkenni að var ekki með hýrri há, hann langaði ábyggilega að geta boðið betur - voru að bróðir minn ætlaði ekki að bjóða neitt nálægt höfuðstólsskuldinni, hvað þá að hann ætlaði að borga vexti til 12 ára.

Lánið sem Gummi bróðir fékk hjá mér voru ekki loftbólupeningar, það voru peningar sem ég hafði unnið mér inn og lagt fyrir. Sjálfsagt hugsa einhverjir að ég hafi verið kjáni að lána bróður mínum svona mikinn pening. Já, ég var kjáni að treysta honum en það er minn helsti glæpur. Hann er þjófur og ómerkingur. Hann þorir ekki einu sinni að hitta mig á fundi heldur ræður sér lögmann sem hann borgar auðvitað launin með þjófstolnum peningum.

Ég hef það gott og þarf ekki að kvarta undan lífi mínu. Ég er engu að síður ósátt við að láta stela af mér og að þjófurinn sé varinn af lögum. 

Guðmundur Steinsson hefur kannski haldið að hann losnaði við sannleikann og áminningar til dauðadags fyrir 1 milljón, ég veit það ekki. Engin upphæð var nefnd. Ég sit uppi með mikla vanlíðan og óhamingju yfir að eiga svona albróður sem ég er búin að átta mig á núna að kúgaði elsku mömmu alla ævi. Hún var alltaf logandi hrædd um að hann dytti í það og færi sér eða einhverjum öðrum að voða.

Elsku mamma. Elsku pabbi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband