Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 20. mars 2020
Við skulum hverfa aftur í tímann ...
Ég var að horfa á Vikuna með Gísla Marteini. Mjög föstudagskvöldslegt föstudagskvöld. Fínir gestir og bestur allra Guðni forseti með speki sína og hvatningu. Og þekkingu.
Ég vil samt ekki hverfa aftur í tímann eins og hann byrjaði svörin sín á. Ég vil ekki mislinga, bólusótt, svarta dauða, spænsku veikina, kíghósta, rauða hunda eða skarlatssótt. Ég vil heldur ekki svínaflensu eða fuglaflensu. En ég hef ekkert val um samtímann. Menn tala um drepsótt, eyðingarafl, farsótt. Fólk deyr úr COVID-19 eins og fólk deyr úr öðrum pestum. Okkur vantar svör og úrræði en her manns er að leita að þeim.
Ég vil heldur ekki missa internetið og samskiptamiðla.
Og ég vil alls ekki missa samneyti við fólk. Ég er extróvert og sólarsinni. Ég er veðurháð og þrái alltaf sól og hita og ég þrífst nálægt fólki. Ég má ekki til þess hugsa að vera lokuð inni, ekki einu sinni þótt ég væri með minn uppáhalds með mér. Ég er hraust og hef ekki undan neinu að kvarta en mér finnst samt skelfileg tilhugsun að mega ekki fara út. Gul (svo ég noti brandarann hans Gísla Marteins) forði mér frá útgöngubanni en auðvitað fer ég eftir tilmælum Almannavarna ef til kemur eins og hingað til.
Ég ætlaði í geggjað árstíðahlaup í kvöld en þar sem uppleggið var orðið að fara einn á staðinn og hlaupa með miklu millibili ákvað ég að hlaupa langa hlaupið frekar í fyrramálið eins og oftast á laugardagsmorgnum.
Að því sögðu: Góða helgi!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 19. mars 2020
Ef ríkið bjargar
Ég hafði ekki einu sinni hugmyndaflug til að sjá fyrir mér að fyrirtæki gætu fengið fyrirgreiðslu og borgað sér arð. Góðir punktar hjá Jóhanni Páli:
Ef ráðist verður í björgunaraðgerðir fyrir fólk og fyrirtæki á Íslandi er full ástæða til að gera kröfu um að ríkisaðstoð til fyrirtækja verði háð skýrum skilyrðum um samfélagslega ábyrgð, umfram þá sjálfsögðu kröfu að ekki verði farið í uppsagnir eða fyrirtækin blóðmjólkuð með arðgreiðslum og kaupum á eigin hlutabréfum. Ef við leyfum okkur að hugsa út fyrir rammann væri til dæmis hægt að krefja öll stærri fyrirtæki, sem vilja halda áfram að fá ríkisaðstoð meðan korónaröskunin gengur yfir, um að minnka kolefnisfótspor sitt varanlega, draga úr launamun innan vinnustaðar, loka skattaskjólsreikningum ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 18. mars 2020
Bróðir minn, Gummi, er þjófur og andlegur ofbeldismaður
Það er hluti af minni sjálfshjálp að segja upphátt frá glæp bróður míns. Glæpurinn er svo sem bara fjármálaglæpur, ekki ofbeldisglæpur -- nema andlegt ofbeldi er auðvitað líka ofbeldi. Hann stjórnaði aumingja mömmu og pabba áratugum saman með edrúmennsku sinni. Hann var orðinn óvirkur alkóhólisti 24 ára eða svo, en frá 11-24 var hann þá virkur (of)drykkjumaður. Eftir að hann hætti að drekka notaði hann edrúmennsku sína til að kúga mömmu og pabba. Ég var mér ekki meðvituð um þetta lengi, lengi, lengi, kannski vegna þess að hann stjórnaði mér að einhverju leyti líka.
Ég lánaði honum peninga. Hann rak sjoppu og hafði miklar skýjaborgir um reksturinn en gat samt aldrei hugsað viku fram í tímann. Hann var í leiguhúsnæði og þegar honum var sagt upp húsnæðinu missti hann reksturinn sem var orðinn mjög losaralegur hvort eð var. Hann tolldi ekki í námi og var eirðarlaus í vinnu hjá öðrum, já, og sjálfum sér. Hann hafði ekki fastar tekjur áratugum saman og grunur minn er að hann hafi fengið mikla peninga hjá mömmu og pabba, ráðdeildarsama fólkinu, með því að hóta því að annars færi hann aftur að drekka.
Þau voru meðvirk.
Ég líka.
Eins og margt siðlaust fólk kemur hann vel fyrir. Sem betur fer er margt gott fólk líka sem kemur vel fyrir en siðlausa fólkið kemst upp með ýmislegt af því að það platar nytsömu sakleysingjana. Ég held að ég sé ágætt dæmi um svona nytsaman sakleysingja. Ég lánaði honum á endanum 7 milljónir króna árið 2008 af því að annars myndi vondi bankinn rukka hann um svo mikla vexti. Og hann greyið var svo mikið fórnarlamb vondu bankanna. Og ég var fórnarlamb hans.
Núna er hann skráður garðyrkjumaður á Sólheimum, hvernig svo sem honum tókst að ljúga sig þangað inn. Hann var í garðyrkjuskólanum í Hveragerði, það vantaði ekki, en náði hvorki prófunum né skrifaði ritgerðirnar. Hafi hann útskrifast þaðan hefur hann svindlað.
Ég skynja beiskju í því sem ég segi en samt er ég að segja sannleikann og ekkert annað. Fyrir 11 árum hætti ég að aumka mig yfir hann en fyrir tæpum tveimur árum sá ég loksins úr hverju hann var gerður. Hann er óþverri sem mun alltaf misnota fólk sem treystir honum.
Ég skil alveg að einhverjum geti þótt færslan fullpersónuleg en glæpur á samt ekki að vera leyndarmál. Það reynir alveg á að játa það dómgreindarleysi að hafa ekki séð í gegnum hann fyrir löngu en þeim mun brýnna er að benda öðrum nytsömum sakleysingjum á þau víti sem ber að varast.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. mars 2020
Svört vinna
Ef fyrirtæki hefur verið umsvifamikið á svarta markaðnum og getur fyrir vikið ekki sýnt fram á mikið tekjutap í ástandinu fær það væntanlega ekki mikla fyrirgreiðslu núna, eða hvað?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 15. mars 2020
Ólínuleg dagskrá
Ég komst á snoðir um norskan þátt sem sýndur er á vef RÚV. Hann heitir Exit, hefur verið þýddur Útrás og fjallar um nýríku kallana sem eru ekki orðnir fertugir en ætla að gleypa allan heiminn og að því er virðist í gegnum nefið. Svo virðist sem efnið eigi sér stoð í veruleikanum.
Hroðalega spennandi og óhuggulegir þættir sem ég mæli með. Þeir eru átta og hver þeirra rúmur hálftími.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 14. mars 2020
Að fara eftir fyrirmælum
Mér finnst fjóreykið Víðir, Valtýr, Alma og Páll alveg frábært. Mér finnst Víðir vera hinn nýi Grímur Grímsson og myndi treysta honum fyrir öllum mínum leyndarmálum. Ég tek mark á fyrirmælunum og þvæ mér um hendurnar oft á dag, hósta í handarkrikann og heilsa sem fæstum með snertingu. Vandinn við kórónuna er að bestu menn vita enn ekki nóg og á meðan eru viðbrögðin eilítið fálmkennd. Ég er ekki að gagnrýna það.
Hins vegar deyr fólk alla daga og stundum óþarflega fljótt. Ég myndi vilja sjá miklu öflugra net grípa þunglyndissjúklinga, eiturlyfjafíkla og einmana fólk en hefur verið lagt út til að grípa viðkvæmt fólk.
Hins vegar er ekki hægt að koma ekki við andlitið á sér. Ef mig klæjar, ef ég veit að maskaraflaga hefur hrokkið af augnhári, ef ég er með stírur, þegar ég les blað á borði eða fréttir á skjá og styð með hendinni undir kinn - það er ekki hægt að sleppa því að koma við andlitið á sér. Við þyrftum kraga um hálsinn eins og hundar og kettir ef við ættum að láta andlitið vera.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 10. mars 2020
Samrómur
Almannarómur er að safna raddsýnum á samromur.is. 7212 raddir eru komnar í safnið en verkefnið vantar langtum fleiri til að við getum gert okkar eigin Alexu/Siri sem mun heita Embla og er lýst sem glænýju raddstýrðu appi sem skilur og svarar spurningum á mæltri íslensku. Þeim mun fleiri sem gefa raddsýni, þeim mun auðveldara verður fyrir þróunaraðila að smíða máltæknilausnir sem nýtast munu öllum íslenskunotendum.
Ert þú búin/n að gefa raddsýni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 7. mars 2020
Yacoubian-byggingin eftir Alaa al-Aswany
Í vikuferð minni í Egyptalandi um daginn las ég eina þýðingu á egypskri skáldsögu. Yacoubian-byggingin er eins og heilt samfélag þar sem ýmsum hópum ægir saman og menn lifa sumir í sátt og aðrir ekki. Tíðarandinn er talsvert ólíkur því sem maður þekkir úr ísköldum íslenskum raunveruleika, stéttskipting mikil og lífsbaráttan hörð hjá sumum.
Nágrannakrytur voru áberandi og systkinum uppsigað hvoru við annað. Það kannast ég við þótt ástæðurnar hafi verið aðrar. Hins vegar var líka mikil samheldni ef raunverulega bjátaði á. Þá talaði nágrannasamfélagið einni röddu og allir hlupu undir bagga.
Fátækum Egyptum var ekki leyft að fara úr landi. Bæði höfðu þeir ekki efni á að fara í langferðalög og svo óttuðust stjórnvöld að þeir sneru ekki aftur ef þeir fengju að fara. Ég spurði á yfirreið minni nokkra Egypta hvert þeir færu í sumarfrí. Þeir horfðu bara stóreygir á mig. Holiday? Vacation? Hvað þýddi það? Jú, þeir færu til Alexandríu þar sem er ekki kæfandi hiti á sumrin, það var besta boð.
Og nú þyrfti ég að lesa trílógíu Naguibs Mahfouz.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 6. mars 2020
Spánska veikin
Í miðri spánsku veikinni sem er dagsett á Íslandi 19. október 1918 urðum við fullvalda þjóð. Þá var líka frostaveturinn mikli nýlega um garð genginn. Föðurbróðir minn fæddist í janúar 1918 og oft hefur verið sögð sagan af því að bleyjan fraus um leið og hún hafði verið tekin af honum.
Nú er öll tækni 100 árum betri, en er eitthvað nýtt að frétta af pólitíkinni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. mars 2020
Gestrisni Egyptinn
Ég fór í vel heppnaða vikuferð til Egyptalands, svo sem til að hlaupa í píramídahlaupinu sem var nú haldið öðru sinni en líka til að skoða mig um. Ferðin var skemmtileg og við brölluðum ýmislegt og sáum eitt og annað. Mig langar aftur til Afríku, t.d. til Marokkó eða hreinlega Namibíu, en grái liturinn í Egyptalandi situr í mér. Ég er mikið fyrir liti og á þeim er átakanlegur skortur. Hús voru illa farin og samlit umhverfinu, klæðnaður fólks var líka í jarðarlitunum enda var mikið starað á mig. Að sönnu er ég ljóshærð og vek þannig eftirtekt en ég var líka í bleiku, skærgrænu og appelsínugulu.
Og sögur af gestrisni Egypta eru ýktar, þeir eru ágengir og vilja hafa af manni tekjur. Allt skiljanleg sjálfsbjargarviðleitni en ég má líka segja sannleikann.
Fyrir tveimur árum fór ég í hlaupaferð til Tel Aviv og þegar ég kom heim þaðan sagði ég líka: Ég þarf ekki að fara aftur til Ísraels.
Næst langar mig til Kúbu eða Jamaíku.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)