Færsluflokkur: Lífstíll

Svekk á Þremur frökkum

Maður vill fara varlega í alla gagnrýni þannig að ég segi aðallega að Þrír frakkar hafi valdið mér vonbrigðum um helgina. Maturinn, hrefnukjöt, steinbítur og rauðspretta, var hinn ágætasti. Mér finnst svolítið einfalt að vera með illa soðnar kartöflur með öllu (en þó betra en að vera með ofsoðnar) og meðlæti þótti mér of lítið en það finnst mér næstum alltaf alls staðar.

Svekkið fólst fyrst og fremst í því að finnast við vera fyrir. Við komum þrjú upp úr klukkan sex, þ.e. þegar nýbúið var að opna staðinn, skv. pöntun og þegar við hunskuðumst út kl. að verða hálfátta var okkur lengi búið að finnast við vera fyrir. Borðið okkar var líka það fyrsta sem losnaði og sannarlega streymdi fólk inn á staðinn. Hvers vegna?

Þegar nokkurn veginn var uppetið af tveimur diskum voru þeir teknir orðalaust. Ég veit ekki með obbann af fólki en ég veit að mörgum finnst samt ákveðin notalegheit í að hafa diskana um kyrrt í smátíma, a.m.k. þangað til allir hafa gert matnum sínum skil. Svo var komið með eftirréttaseðil og við fengum varla að skoða hann áður en næsti maður kom og spurði hvort við vildum panta.

Auðvitað sáu þau litla peningavon í okkur af því að vildum ekki vín með matnum.

hrefnukjötið

 

 

 

 Hér má sjá hvalinn ógurlega.

 

Í hádeginu í dag borðaði ég svo á Sólon við fjórða mann og fékk dáindisbúrrítós og eðalvatn að drekka með. Ég held að við höfum öll gengið út södd og sæl að matnum innbyrtum og alveg án þess að finnast við vera fyrir.


Hófreykingamenn hryggjast

Kunningjakona verður fertug í haust og eðlilega byrjuð að huga að miklum gleðskap. Sjálf reykir hún og á marga vini sem reykja, sumir þeirra bara í hófum. Og nú þegar 1. júní er að bresta á með reykingabanni þyrmir allt í einu yfir hana og hún veltir fyrir sér hvort henni verði úthýst úr leigðum sal og/eða henni gert að úthýsa vinum sínum, hófreykingamönnunum.

Reykingar hafa aldrei pirrað mig, mögulega vegna þess að ég hef aldrei reykt og mögulega vegna þess að ég er skammarlega lítið lyktnæm yfirleitt. Ég er svolítið hugsi yfir banninu sem ég veit og skil að er ekki síst sett með starfsfólk í huga. Ég hef heyrt misjafnar sögur frá Bretlandi, sumir segja að bannið virki vel og aðrir ekki. Þegar ég var í New York í september sáum við aldrei neinn reykja enda eru reykingar þar ekki leyfðar en ekkert okkar í þeim hópi reykir þannig að þetta var ekki mikið athugunarefni hjá okkur.

Skyldi bannið ná tilgangi sínum á nokkrum mánuðum eða árum? Þetta verður kannski þvinguð hugarfarsbreyting og allir glaðir þegar upp verður staðið, humm hmm.

Mig rámar í að einhvern tímann hafi ekki verið bannað að reykja inni í bönkum, á Hlemmi og víðar og að reykingafólki hafi verið ógurlega brugðið þegar það var bannað.

Assgoti er maður annars heppinn að vera laus við þennan kaleik og þurfa bara að samhryggjast þeim sem eru það ekki.


Undarlegar eru fyrirsagnir bankanna

Glitnir segir, Glitnir segir ... að heimilin eigi núna meiri eignir en skuldir. Áreiðanlega er þetta eitthvert meðaltal og meðaltalsheimilismaðurinn er ekki til, ekki frekar en meðalneminn sem skólakerfið hnitast svolítið um.

Þetta með að eignir hafi aukist umfram skuldir - sem kemur að einhverju leyti til af því að íbúðir hafa hækkað í verði án þess að eigandinn hafi selt eða keypt, fjölskyldustærð breyst eða handbærum krónum fjölgað - minnir á þá fjöldamörgu sem bjuggu eitt árið allt í einu í stærri íbúðum en þeir keyptu AF ÞVÍ AÐ FARIÐ VAR AÐ REIKNA UTANMÁL ÍBÚÐA EN EKKI LENGUR INNANMÁL. Veggir voru þannig komnir inn í fermetrafjöldann - og fólk bjó þannig í stærra húsnæði. Ja, fjandinn fjarri mér.

Aðrar fréttir af fjárhagsstöðu heimilanna hafa undanfarið hermt að fólk nýti yfirdráttinn í botn á ný (eftir að íbúðalán bankanna komu til skjalanna 2004 og fólk tók þau frekar en neyslulán), íbúðir hafi verið settar á uppboð og að heimsóknum hafi fjölgað á Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.

En Glitnir segir að eignir heimila hafi aukist umfram skuldir. Og hefur reiknað það út ...


mbl.is Segja eignir heimila hafa aukist meira en skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálendisvegur vs. Biskupstungnavegur

Af því að ég er leiðsögumaður sem bara kjafta (ólíkt þeim sem líka keyra) verð ég að segja hér og nú (þrátt fyrir að upphækkaður Kjalvegur sé dottinn (niður) úr umræðunni) að vanir bílstjórar hafa margir áhyggjur af því að vegir í byggð nálægt Kjalveginum bæru ekki þá umferð sem óhjákvæmilega færi þar um. Þeir vísa þá til þungaflutninganna sem myndu freistast þessa leiðina. Og nóg er níðst á vegunum samt.

Nú er mikil umræða um umhverfisvernd og ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnuvegur og gjaldeyrisskapandi. Eyðileggjum ekki fyrir okkur með meintri styttingu vegalengdar fyrir lítinn hóp.

Að auki legg ég til að fólksbílar eftirláti rútunum miðbæ Reykjavíkur á háannatíma í ferðaþjónustunni. Til vara: að þeir sýni okkur tillitssemi. Til þrautavara: að þeir séu ekki tillitslausir ...


Ég versla ekki við Vífilfell

Hallærisgangur Vífilfells hefur engin áhrif á drykkjar- eða verslunarvenjur mínar. Ég versla ekki við Vífilfell, hætti því mjög meðvitað og markvisst fyrir mörgum árum þegar bróðir minn, sjoppueigandinn, varð fyrir barðinu á fyrirtækinu. Reikningarnir voru svo flóknir að í minningunni var heildsöluverð og svo bættist við skilagjald, vitaskuld virðisaukaskattur, kannski vörugjöld, dróst frá afsláttur og bættist við mánudagsgjald þannig að sæmilega greint fólk sem var vant að reikna út úr svona reikningum til að finna útsöluverðið gafst upp og athugaði verðið í næstu sjoppu. Vífilfell svínaði á honum, kannski bara honum ... því að hann átti að fá sérstakan þriggja tonna afslátt sem við fundum aldrei á nótunum. Flókið, já, og við höfum reynt að gleyma þessu. Sumt gleymist bara ekki alveg.

En reyndar finnst sjálfri mér kók ekki gott á bragðið sem hefur vissulega haft áhrif á drykkjarvenjur mínar.

 Ölgerðin var hins vegar með mjög skiljanlega reikninga.


Skóflustunga með viðhöfn

Marín og Steingrímur byrja að moka holu á lóðinni sinni (í hvarfi frá álverinu) á morgun. Nú fer mér að finnast íbúalýðræðið enn meira spennandi. Verst að ég man ekki alveg hvar holan á að koma ... er það ekki einhvers staðar nálægt staðnum þar sem bíllinn minn hefur ílenst alla vikuna?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband