,,Barnamatseðill"

Þjónum finnst ég ekkert fyndin þegar ég spyr hvernig börn séu í matnum á barnamatseðlinum. Ókei, börnunum finnst það ekki heldur þannig að það hallar hrikalega á mig í þessum brandara.

En það er samt eitthvað rangt við þessa nafngift, sbr. að nautahamborgari er ekki handa muuuuuu, beikon ekki handa svínum og grænmetislasagna ekki handa kálinu.

Og það er ekki eðlilegt að halda sérstökum matseðli að börnum, mestmegnis unnum mat og bragðlitlum. Kannski er þetta ástæðan fyrir að ég er mjög seinþroska í mat, fannst pulsur bestar á grillið fram á fullorðinsár. Með meira framboði lærði ég betur að meta fisk, grænmeti og sterkari mat.

Mér finnst svo sem eðlilegt að mjög lítil börn borði ekki ólífur og tsjillí en mér finnst líka fráleitt að ögra aldrei bragðlaukunum, kynna ekki nýjungar fyrir börnum sem öðrum og almennt gefa sér að börn vilji bara nagga, pasta, margarítupítsu og soðna ýsu með tómatsósu.

Sennilega væri vit í því að hafa matseld stærri hluta af námskrá skóla.


Bloggfærslur 8. nóvember 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband