80 milljónir króna

Ég er næstum orðlaus en ætla samt að streitast gegn orðleysinu sem hellist yfir mig. Í gærkvöldi var sjónvarpssöfnun vegna átaksins Á allra vörum, söfnun til Kvennaathvarfsins. Í fullkomnum heimi þyrfti ekki athvarf fyrir nokkra manneskju sem hrekst af heimili sínu vegna ofbeldis í einhverri mynd. En það er svoleiðis. Sem betur fer þekki ég ekki þennan veruleika, heppin ég, en því miður er til ofbeldi og því miður beita menn (geta líka verið kvenmenn) sína nánustu ofbeldi.

Í gærkvöldi trommuðu menn upp í sjónvarpinu með rosalega auglýst kvöld sem ég missti af í heilu lagi af því að ég var að heiman -- en skv. fréttum hafa safnast 80 milljónir króna, eða eins og segir í frétt á vefnum:

Yfir 80 milljónir króna hafa safnast í átakinu Á allra vörum, hvort tveggja í samnefndum söfnunarþáttum á Rás 2 og í rúv í dag og kvöld, og með sölu á varasnyrtivörusettum með þessu nafni síðustu dægur.[leturbreytingar mínar]

Ágóðinn á að renna til byggingar nýs húsnæðis fyrir Kvennaathvarfið! Ágóðinn!! Allur túkallinn!!!

Jesús Pétur og allt hans slekti, hafa menn misst af því hvað fasteignir kosta? Þetta eiga að verða 14 íbúðir, minnir mig, og hvað kostar slík nýbygging?

2007 var fyrir 10 árum en nú tala menn um míníútgáfuna af 2007, árið 2017. Ótrúlegur fjöldi fólks á 80 milljónir í náttborðsskúffunni en grátlega stór hópur á ekki einu sinni 8.000 kr. í handraðanum. Fólk sem verður fyrir ofbeldi, ég tala ekki um langvarandi, verður varnarlaust og getur illa borið hönd fyrir höfuð sér. Fólk sem verður fyrir ofbeldi, ekki síst frá öðru fólki sem það telur sig eiga að geta treyst, þarf hjálp við að endurheimta sjálfstraustið, lífsviljann og efnahaginn.

Ókei, ég skal bakka aðeins. Ég held að þetta sé svona. Ég held að fólki sem býr við kúgun, niðurlægingu og barsmíðar fatist flugið. Og þess vegna er til athvarf (ég held að karlar geti orðið fyrir þessu líka, svo það sé sagt) og það þarf pening til að reka það.

Og söfnun í hálfan mánuð skilar 80 milljónum króna!!!!

Fyrirgefið upphrópunarmerkin en mér er mikið niðri fyrir.

Ég hef ekki lesið fjárlagafrumvarpið sem var lagt fram um daginn og er nú orðið úrelt en miðað við glærur úr Stjórnarráðinu átti afgangurinn að verða 44 milljarðar kr.

Ókei, frumtekjur (aðrar en vaxtatekjur) voru bara áætlaðar 822 milljarðar þannig að 44 milljarðar eru u.þ.b. 5% af frumtekjunum og þetta er bara áætlun sem tekur breytingum -- en af hverju er ekki sett undir lekann áður en flóir alls staðar út úr? Af hverju er verið að safna fé frá almenningi til að mæta grunnþörfum?!?

Getur einhver svarað því?

Hér ætla ég að bæta við reynslusögu af gamalmennum. Mamma mín (89) og pabbi (96) eru enn að mörgu leyti kokhraust fólk, komast um, geta eldað einfaldan mat, fylgst með fréttum og haldið uppi samræðum ef viðmælandinn einbeitir sér. Þau vilja bæði fara saman á elliheimili þar sem lífsgæði þeirra gætu aukist til muna með greiðu aðgengi að hjúkrunarþjónustu en það getur ekki orðið þótt pabbi sé núna búinn að vera rúman mánuð á Landspítala/Landakoti og mamma búin að sitja hjá honum næstum upp á hvern dag og koma heim úrvinda af þreytu eftir setu á sjúkrahússtól.

Kannski erum við systkinin ekki nógu dugleg að beita okkur en allt fólkið sem við tölum við hefur hingað til ekki verið neitt nema skilningurinn -- en hefur engin úrræði.

Ég borga glöð skatta en þeir eru ekki notaðir í vegina, ekki til að borga leikskólakennurum góð laun og ekki til að reka heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða. Ég vil að skattarnir mínir fari í grunnstoðir.


Bloggfærslur 24. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband