Flest fólk er gott

Einhverju sinni sagði maður: Fólk er fífl.

Þegar ég horfi á fólkið í kringum mig sé ég gott fólk, fólk sem vissulega hefur galla, fólk með skýr persónueinkenni, vel meinandi fólk, já, dálítið trúgjarnt í bland, fólk sem trúir á það góða, fólk sem breytir rétt, fólk sem misstígur sig vissulega, fólk sem á það til að hreyta í einhvern, fólk sem biðst afsökunar, fólk sem vill njóta sannmælis, fólk sem á einhver leyndarmál.

Ég sé alls konar og ólíkt fólk en yfir línuna gott fólk.

Ef allt fólk væri vont væri heimurinn verri en hann er. Ég geri ráð fyrir að til sé vont fólk, fólk sem vill öðru fólki illt, fólk sem vill hrammsa til sín stærri hluta af alheimskökunni en því ber, fólk sem lætur sig engu varða þótt öðrum líði illa. En, kommon, það fólk er í minni hluta.

Já, eins og obbi íslensku þjóðarinnar er ég slegin yfir því sem spurðist út af Klaustri í síðustu viku. Eins og mér heyrist á fólki í kringum mig vil ég að bargestirnir horfist í augu við það sem þau gerðu rangt og axli ábyrgð. Ég sé ekki hvernig einhver sem hefur úthúðað fólki með sérstök einkenni á eftirleiðis að vera trúverðugt í baráttu sinni fyrir það fólk. Ég vona að umræddum bargestum takist að yfirvinna hégóma sinn og breyta rétt og ávinna sér traust til að sinna einhverjum störfum í framtíðinni. En þurfa þau ekki að iðrast til þess og þiggja leiðsögn ef þau finna ekki leiðina út sjálf?

Gleðilega aðventu.

 


Bloggfærslur 2. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband