Skyndilán og fjármálalæsi

Ég hef aldrei verið blönk. Hana, þá getur hver maður vitað það. Ég er alin upp við það góða atlæti að þurfa ekki að hafa áhyggjur af morgundeginum, a.m.k. ekki með tilliti til fjármála. Fylgifiskur æskunnar var samt að þrá fjárhagslegt sjálfstæði meira en annað þannig að ég eyddi aldrei neinu fyrr en ég var búin að afla þess nema þegar ég keypti mér íbúð. Ég tel mig fjármálalæsa, og er það, en það dugir ekki ef fólk Á ekki fyrir því sem það ÞARF að borga.

Nú er enn verið að ræða smálánafyrirtækin, bæði í blöðum og á þingi. Af óskiljanlegum ástæðum tekst ekki að koma lögum yfir okurlánafyrirtækin, að því er virðist vegna þess að þau breyta skilmálum, kalla vaxtagreiðslur kostnað eða pappírsgjald eða þóknun. Ég hef reyndar ekki séð þetta og man ekki hvað ég hef heyrt nákvæmlega um orðalagið. En ástæðan fyrir því að ég ergi mig enn einu sinni á prenti yfir þessu dáðleysi er að ég heyrði í útvarpsþætti nýlega talað um auglýsingar frá okrurunum. Dæmi:

Vantar þig ekki nýjan [einhver týpan] síma? Fáðu lán og fáðu þér flottan síma.

Þarftu ekki að fata þig upp fyrir sumarið? Fáðu lán.

Þessi fyrirtæki standa ekkert á hliðarlínunni og bíða eftir að fjármálaólæsu unglingarnir fái fáránlega hugmynd. Nei, þau líma óráðsíuna í kollinn á fólki sem hefur ekki lært að fóta sig í fjármálunum.

Svei þeim. Og svei því að ekki sé hægt að bjóða okkur upp á heilbrigt fjármálaumhverfi. Hvernig á fólk að læra fjármálahegðun þegar bankarnir bjóða okkur 0,05% innlánsvexti og 11% útlánsvexti? Vaxtamunurinn dekkar kostnaðinn við starfsemina og golfferð til útlanda í hverjum mánuði hjá „æðstu“ stjórnendum bankanna. Og ég bið þau bara fyrirgefningar ef ég ætla þeim of litla græðgi með orðum mínum. Þau hljóta að vera hreykin af frammistöðu sinni á fákeppnismarkaðnum Íslandi.


Bloggfærslur 15. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband