Prófarkalesari spaðjarkar

Frá því um páska hef ég verið að lesa stórvirki Ólafs Jóhanns Sigurðssonar, söguna um Pál Jónsson, blaðamann og prófarkalesara. Mér finnst hún stórkostleg og einhverjum gæti þótt skrýtið í því ljósi að ég væri ekki alveg búin með rúmar þúsund síður á fimm mánuðum. En ég hef aðeins verið að treina mér hana því að þegar vel tekst til, eins og með þessa bók, vill maður fylgja fólkinu aðeins lengur. Fólkinu? Sagan er mestmegnis um tilbreytingarlaust og einhæft líf Páls og margháttaðar hugsanir hans um lífið og tilgangsleysi þess, hernað í opinberu og einkalífi, hvernig hann reynir ævinlega að taka ekki afstöðu en finnst allt mögulegt um allt mögulegt, hvernig hann reynir af hófsemd að hafa áhrif á ritstjórann sinn þannig að hann sitji ekki sýknt og heilagt uppi með það verkefni að þýða hégóma. Hann er umkomulaus, fjölskyldulaus, einfari, siglir milli skers og báru en aftur og aftur biður fólk hann um skoðanir og íhlutun.

Þrátt fyrir hálfgerða uppgjöf Páls gagnvart því verkefni að lifa lífinu lifandi er áhugaverð framvinda í sögunni og meiri spenna en í mögum glæpasögum. *ánægjuandvarp*

Og aldrei hef ég séð orðið prófarkalestur eins oft í neinni bók sem er alveg sérstakur bónus á alla kanta. 

Ég á eftir að sakna Páls alveg innilega en mikið væri ég til í að heyra hvað öðrum finnst. Það er átakanlegur skortur á ritdómum eða úttektum um bókina.

 


Bloggfærslur 11. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband