Reykjavíkurmaraþonið mitt

Það er að bera í bakkafullan lækinn að skrifa eitthvað um laugardaginn, svo mikið sem fólk sá frá honum þá, en ég ætla bara að geyma þessa minningu hér. Ég tók þátt og nú skokkaði ég í fyrsta skipti heilt maraþon. Ég var rúma fimm klukkutíma, gerði mér vonir um tæpa fimm tíma, en á móti kemur að mér leið vel allan tímann og líka strax á eftir og líka í gær og enn í dag. Ég reikna með að mæta á hlaupaæfingu á morgun og ætla í keppnishlaup (5 km) 1. september.

En mig langar mest að hugsa upphátt um hlaupastyrkur.is, hlaupið til góðs sem kallað er. Ég heyri að það hvetji fólk til að fara að stað og það er frábært ef satt er. En ég hleyp mér til skemmtunar og heilsubótar. Almennt. Að þessu sinni ákvað ég, mér til skemmtunar, að snúa styrknum við og hvetja fólk til að hvetja mig og í staðinn mátti það velja hvaða góðgerðarfélög ég styrkti. Ég tók frá 42.200 kr. í styrkina (ekki áheit) og nú er ég búin að skila þeim peningum til átta félaga. Sex þeirra gáfu upp bankaupplýsingar á síðunum sínum en tvö styrkti ég í gegnum hlaupastyrkur.is og þar af leiðandi geta allt að 10% af 10.000 kr. farið í að reka vef Íslandsbanka, sbr. þetta:

Að hámarki 10% af söfnuðu fé í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka fer í kostnað við rekstur vefsins hlaupastyrkur.is, greiðslu færslugjalda o.fl. Þess ber þó að geta að bæði korta- og símafyrirtæki slá verulega af sínum gjöldum til að sem mest af söfnuðu fé geti runnið til góðgerðamála. Árið 2016 var kostnaður 5,08% en hann getur verið breytilegur milli ára.

Nú hafa safnast tæpar 155 milljónir og Íslandsbanki gæti tekið 15,5 milljónir í kostnað við að reka vefinn. Það þykir mér heldur leiðinlegt og þess vegna er ég glöð með að hafa getað lagt beint inn á sex félög af átta. Erum við ekki öll sammála um að bankarnir hafi nóg á milli handanna?


Bloggfærslur 20. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband