Meðvirkni á vinnustað

Í morgun fór ég í svakalegt ferðalag upp á Höfða til að hlusta á fyrirlestur um meðvirkni í stjórnun sem Íslandspóstur bauð upp á á vegum Stjórnvísi. Matsalurinn var smekkfullur af áhugasömum tilheyrendum og má skilja það þannig að meðvirkni brenni á fólki.

Meðvirkni á vinnustað er m.a. þegar stjórnandi sér að starfsmaður svíkst um en gerir ekkert í því, jafnar ekki álagið milli starfsmanna og tekur ekki eftir þegar starfsmaður er alveg að keyra út í vegg. Það er áskorun að taka á neikvæðri hegðun og líka að koma auga á jákvæða hegðun og umbuna fólki eftir því sem ástæða er til.

Við eigum flest, sennilega öll, til botnhegðun og topphegðun, sem sagt misgóða daga. Vinnustaður er samfélag eins og samfélagið sjálft og heimilin okkar.

Þegar ég kom út var búið að keyra utan í bílinn minn en hann er 12 ára gömul Mazda sem er aðeins farin að beyglast. Þegar ég var lögð af stað tók ég eftir miða undir rúðuþurrkunni. Mér skilst að það sé alls ekki algilt að fólk sem rispar bíla láti eigendur bílanna vita af því. Gott karma til þessa náunga. Ég var glöð í allan dag.

Gærdagurinn byrjaði líka vel. Þá fór ég á annan fyrirlestur á vegum Stjórnvísi og þótt fyrirlesarinn segði fullt af sjálfsögðum hlutum gerði hann það á skemmtilegan hátt og ég fór út stútfull af brýningu í að aðskilja vinnu og einkalíf. Sá fyrirlestur var á heppilegri stað þannig að ég gat hjólað þangað að heiman og svo í vinnuna.

Og veðrið spillti engu.


Bloggfærslur 26. september 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband