1921--2019

Nú er pabbi dáinn eins og allt stefndi í í byrjun ágústmánaðar, 98 ára gamall. Við áttum langa samleið en samt átti hann 44 fyrstu árin sín án mín. Ég er því ekki til frásagnar um þau. Ég hef undanfarið gluggað í gömul bréf, skoðað gamlar myndir og flett einkunnaspjöldum. Hann var greindur maður og verkmaður mikill, fékk góðar einkunnir í því sem hann tók próf í og það þótt hann ynni alla daga þegar hann var nýkominn til borgarinnar úr Holtunum, lærði á kvöldin og smíðaði fyrir viðskiptavini um helgar þegar hann var ekki að leika á harmonikkuna á böllum. Þá var heldur ekkert sjónvarp eða internet til að draga úr starfsgetu en helsti lúxusinn hans var að kaupa sér ljóðabækur, lesa þær og læra uppáhaldsljóðin utan að.

 Pabbi

Mamma var rúmlega tvítug og pabbi tæplega þrítugur (sjá mynd sem hann mundi reyndar ekki hvort hann var rúmlega tvítugur þegar var tekin eða tæplega þrítugur (enda langt um liðið)) þegar þau tóku saman og ég veit að hjónabandið var á köflum stormasamt. En þau eignuðust fjögur börn og lifðu súrt og sætt í 70 ár. Nú eru þau bæði farin með rúmlega eins og hálfs árs millibili og ég sakna þeirra stundum svo mikið að ég fæ alveg skelfileg grátköst. 

Ég er aldrei komin með símann á eyrað til að hringja og mér finnst það dálítið skrýtið en þegar ég geng um matvörubúðina er ég alltaf að hugsa: Á ég að kaupa lifrarpylsu handa pabba? Eða kremkex? Eða kannski mangó ef það er hæfilega þroskað? Skyldi hann vilja harðfisk? Ó, hraunbitarnir eru ábyggilega búnir.

Síðan pabbi dó hefur ekkert mætt mér nema hlýjan og faðmlög frá öllu fólki í kringum mig. Mér finnst allir skilja að það er sársaukafullt að fylgja foreldrum sínum síðasta spölinn og það ekkert síður þótt þau séu vel við aldur. Framan af ævi hélt ég að ég væri tilfinningadofin og kannski var ég það en núna finnst mér gott að tjá söknuðinn og ég er alveg viss um að mörgu fólki er svipað innan brjósts með sitt fólk. 

Og ég kvíði því líka að verða (gömul og) upp á aðra komin þannig að ég er að hugsa um að hanga á heilsunni eins og hundur á roði, fara vel með mig og njóta lífsins. Í því felst að reyna að vera umburðarlynd og æðrulaus, greiðvikin og gestrisin -- það er markmiðið -- en líka að borða hollt, hreyfa mig, umgangast gott og skemmtilegt fólk, ferðast og lifa í núinu.

---

Pabbi var jarðaður í dag við fallega athöfn í Fossvogskapellu að viðstöddu mörgu fólki sem þótti vænt um hann og okkur börnin hans. Það verður dýrmæt minning til framtíðar en nú loka ég þessum kafla hér. Mér finnst gott að hafa orðað tilfinningar mínar svona opinskátt og það er nýtt fyrir mér.


Bloggfærslur 5. september 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband