Listamannalaunin

Það er alveg á mörkunum að ég vogi mér inn á það jarðsprengjusvæði sem umræða um listamannalaunin er. Ég er hlynnt þeim. Þau eru arðbær. Skapandi greinar skila okkur tekjum. Ég er líka hlynnt því að við borgum kennurum, læknum, iðjuþjálfum, strætóbílstjórum og landvörðum laun. Ég veit ekki hvernig launasetningin er alls staðar, hversu hátt hlutfall er greitt af hinu opinbera og hvers miklar tekjur koma á móti, en við búum í samfélagi sem væri einsleitt ef engin væri tónlistin, myndlistin, ritlistin eða leiklistin. Ef við ættum að borga það fyrir ferð í leikhúsið sem hún kostar í raun væri í fyrsta lagi ekki hægt að reikna það út fyrr en eftir á, þegar leikárið væri gert upp, og í öðru lagi gæti líklega enginn leyft sér það nema Þorsteinn í Samherja, Guðmundur í Brimi, Skúli í WOW og þeirra líkar.

Sá peningur sem ég sé persónulega mest eftir er sá sem fer í þjóðkirkjuna. Það má vel vera að prestar séu ekki ofhaldnir en kirkjujarðasamkomulagið sem enginn virðist skilja kostar okkur milljarða á hverju ári en listamannalaunin 600 milljónir, skilst mér. Og þá aftur að þeim. Ég er mjög þakklát fyrir að þurfa ekki að velja úr umsóknum, velja og hafna, því að áreiðanlega fá einhverjir ómaklegir laun og einhverjir maklegir fá ekki. Þetta eru ekki vísindi og ekki hægt að reikna út í excel-skjali hvað er sanngjarnt. En nú er t.d. Hildur Guðnadóttir nýbúin að fá Golden Globe verðlaun fyrir tónlistina í Joker og hún var á listamannalaunum 2012 og 2015. Getur verið að þetta hafi munað því að hún gat leyft sér að einbeita sér að sköpun tónlistar? Erum við alltaf þess umkomin að átta okkur á hvaða fólk er eða verður síðan á heimsmælikvarða? En auðvitað þurfa ekki allir að komast á pall til að verðskulda laun fyrir vinnuna sína.

Skyldi fólkið sem gagnrýnir listamannalaunin hæst hafa tekið eftir sóun í samfélaginu? Nýtast allir landbúnaðarstyrkirnir? Getur verið að við gefum stórum útgerðarfyrirtækjum of mikið eftir af sköttum og gjöldum? Hvað með bankana? Af hverju eru innlánsvextir 0,05% en útlánsvextir á sömu reikningum 11,9%? 

Ég get alveg skilið að ellilífeyrisþegar með 239.000 á mánuði og öryrkjar með 212.000 telji sig vanhaldna en það er sjálfstæð barátta og óháð listamannalaununum. Hærri upphæðin er ekki langt undir þeirri upphæð sem listamannalaunaþegar fá eftir skatt og flestir auðvitað ekki alla mánuði öll ár.


Bloggfærslur 11. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband