Hvað myndirðu gera við 12 milljónir?

Fyrir mörgum árum spurði ég fullt af fólki að gamni mínu hvað það myndi gera ef það fyndi [svo man ég ekki upphæðina en ímyndum okkur 100 milljónir] í poka í Laugardalnum. Flestir sögðust myndu leita rétts eiganda en þegar ég sagði að ég væri samt að meina hverju það gæti breytt að eignast 100 milljónir sögðust flestir strax myndu hætta í vinnunni.

Ég varð alltaf jafn hissa. Þegar maður hefur valið sér fag í háskóla og fengið vinnu við hæfi finnst mér undarlegt að vilja hætta því til að hlúa að milljónunum sínum. Mér sjálfri fyndist allt annað þótt fólk vildi draga úr vinnu eða taka sér óvenjulega langt leyfi. Það er nærandi að vera í skemmtilegri vinnu með skemmtilegu fólki, alveg eins og það er nærandi að eiga góða fjölskyldu og skemmtileg áhugamál plús peninga og tíma til að stunda áhugamálin.

Kannski hefði ég sjálf viljað eignast vandaða myndavél og fara á námskeið eða eignast kraftmikið mótorhjól eða fara til Kanada og Kúbu. En ég er yngsta barn foreldra minna sem voru farin að reskjast þegar ég komst á þann aldur og hafði þau fjárráð að ég gæti bruðlað svolítið og ég valdi að vera nálægt þeim – sem ég sé auðvitað aldrei eftir – og lána bróður mínum spariféð mitt – sem ég mun sjá eftir alla ævi.

Gummi bróðir hefur aldrei kunnað að fara með fé en fór út í að reka fyrirtæki „til þess að veita fólki atvinnu“. Hann rak sólbaðsstofu í þrot, bílaleigu líka og vídeóleigu en aðalskrautfjöðrin er sjoppan sem hann átti á Bústaðaveginum í nokkur ár. Mamma afgreiddi fyrst á morgnana og pabbi sansaði lagerinn, launalaust að sjálfsögðu meðan Gummi dandalaðist. Hann keypti reksturinn en leigði húsnæðið. Leigusalinn sagði eftir einhver ár að hann myndi ekki endurnýja leigusamninginn heldur ætlaði að opna sinn eigin rekstur í húsnæðinu þegar leigutímabilinu lyki. Gumma varð um og ó og þegar haustaði hélt hann að reksturinn yrði hirtur af honum í októberlok. Þá kom á daginn að hann hafði litið skakkt á ártalið og samningurinn átti ekki að renna út fyrr en ári síðar. Viðbrögðin? Gríðarlegt siguróp. Niðurstaðan? Gálgafrestur því að ári síðar var hann rekinn út. Ég veit ekki um samskipti hans við leigusalann en í ljósi þess sem ég er búin að átta mig á núna efast ég ekki um að hann hefur haft uppi svigurmæli úr digurbarka sínum.

Ég minni á það sem hefur komið fram í fyrri færslum, að ég segi ekkert nema sannleikann en verð þá að bæta við að ég áttaði mig ekki á öllu samhenginu á þessum tíma. Ég var blinduð af svokölluðum fjölskyldukærleik.

Og tengingin við fyrirsögnina? Ég lánaði honum peninga sem væru núna með 5% ársvöxtum 12 milljónir. Á síðasta ári fékk hann (ranglega að mínu mati) greiddan út 12 milljóna móðurarf. Viðbrögð? Gríðarleg fagnaðarlæti og tveggja mánaða leyfi frá vinnu til að frílysta sig á Indlandi. Sessunautur hans á þeirri stundu þegar hann fékk sms um útgreiddan móðurarfinn ber að hann hafi tekið fram að hann ætlaði sko ekki að borga Berglindi systur skuldina vegna þess að hún þyrfti ekki á peningunum að halda.

Vitið þið hvað það kostar að láta gera upp baðherbergi? 4 milljónir. Gummi Steins, garðyrkjufræðingur á Sólheimum, fyrrverandi veitingamaður í Víðigerði, sjoppumaður á Eiðistorgi og Póló á Bústaðaveginum og fyrrverandi áfengisráðgjafi hjá SÁÁ, óvirkur alkóhólisti í 30 ár, skuldar mér þrjú baðherbergi. Svo þyrfti helst að gera upp eldhúsið. Ekkert af þessu er nauðsynlegt en málið er samt að ég aflaði þessara tekna með minni vinnu og vil geta eytt þeim í viðhald á mínu húsi en ekki fíknir Gumma Steins.

Ég þekki engan sem myndi henda 12 milljónum út um gluggann handa gestum og gangandi og ég vil fá peninginn minn til baka en Gummi er með glúrinn lögfræðing sem ber fyrir sig fyrningarlögin. Þeir kannast kannski ekki við að munnlegir samningar séu jafngildir skriflegum. Það er erfiðara að sanna þann munnlega og því miður eru bæði mamma og pabbi dáin núna. 

 


Bloggfærslur 16. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband